Zap - Hausmynd

Zap

VG talar um endurskoðun verðtryggingar

VG virðist vera aðeins að komast af stað með að átta sig á því að verðtryggingin í núverandi mynd getur ekki gengið áfram. Ég hef þá trú að haldi þeir sig við þetta málefni dragi þeir að sér töluvert fylgi. Á móti kemur að þeir kunna að fá verkalýðshreyfinguna (ath. ekki verkalýðinn) upp á móti sér, því síðustu vikur og mánuði hefur orðið ljóst að engir berjast hatrammar gegn endurskoðun verðtryggingarinnar en lífeyrissjóðirnir sem einmitt er stýrt af forkólfum verkalýðshreyfingarinnar. Þessum hagsmunaaðilum hefur tekist að drepa niður allar hugmyndir um afnám verðtryggingar með því einu að segja að það sé ekki hægt. Það yrði of dýrt fyrir sjóðina og stofni lífeyri landsmanna í hættu. Þetta er hræðsluáróður sem stenst enga skoðun, eins og ég hef reynt að benda á og mun reyna að halda áfram að benda á.

Sjá:
 http://www.dv.is/frettir/2008/11/18/verdtryggd-lan-beri-2-prosent-vexti/

Nú þyrstir mig í að heyra meira af sjónarmiðum VG varðandi hvernig taka skuli á þessari endurskoðun verðtryggingarinnar. Þessi tillaga um 2% vexti nær væntanlega ekki fram að ganga, þó aðlaðandi sé fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, en allt sem kallar fram umræðu um þá fölsku peningaprentun sem verðtryggingin veldur er til góða.

Mig langar að benda hér á eina grein á Deiglunni þar sem reynt er að halda því fram að frysting verðtryggingar yrði ríkinu of dýr og mundi kosta t.d. 60-120 milljarða. Ég á athugasemd við þessa grein þar sem ég reyni að hrekja þessa staðhæfingu.


Er Verðtryggingin náttúrulögmál?

Fyrir nokkru skrifaði ég bloggfærslu um verðtryggingu sem ég síðan sendi inn til mbl og fékk birta. Ég hef síðan skrifað örfáar (enda latur penni, sjá hér og hér ) færslur um sama efni og verð að viðurkenna að þetta málefni er að verða að þráhyggju hjá mér. Ég hef hugsað mér að láta ekki staðar numið, heldur halda áfram og þá helst af auknum krafti að berjast fyrir því að verðtrygging verði afnumin með öllu hér á landi í því umbreytingarferli sem efnahagslíf okkar Íslendinga á að vera að ganga í gegnum. Á að vera segi ég, því það er ekki að sjá að mikil frumlegheit séu í gangi enn sem komið er. Hingað til hef ég hent inn einni og einni færslu um mál sem á mér brenna, en ég hef lítið hirt um að reyna að laða til mín lesendur eða athugasemdir. Nú kann að vera að ég skipti um taktík og fari að auglýsa grimmt eftir afstöðu manna bæði með og á móti sjónarmiðum mínum, til þess að umræða skapist og fari um víðan völl. Vonandi getur það þó orðið til þess að rödd þeirra sem ekki eru tilbúnir að sætta sig möglunarlaust við óbreytt fyrirkomulag verðtryggingar á Íslandi til frambúðar verði háværari og nái að heyrast sem víðast. Ég get ekki lengur setið bara hjá aðgerðarlaus og horft upp á mín börn feta sömu fótspor og við hjónin höfum fetað síðustu 26 árin.

Undantekningarlaust, þegar stjórnmálamenn eru spurðir hvort hægt væri að afnema eða aftengja verðtryggingu lána hérlendis er svarað í einni setningu sem hljómar eitthvað á þessa leið:

- Lífeyrissjóðirnir telja ekki unnt að afnema verðtrygginguna að svo stöddu (GH ágúst eða september, 2008 ef ég man rétt og svo aftur í október)

- Það er mat íbúðalánasjóðs og Félagsmálaráðuneytisins að afnám verðtryggingar að svo stöddu yrði of íþyngjandi fyrir íbúðalánasjóð (ISG, ef ég heyrði rétt, 17.11.2008)

Svona eru svörin iðulega, lífeyrissjóðirnir og ILS myndu ekki þola niðurfellingu verðtryggingar. Og síðan er umræðan engin, enginn rökstuðningur, engum orðum eytt í hvort heimili landsins og fyrirtæki þoli að bera verðtrygginguna. Eini valkosturinn sem boðið er upp á eftir 6 vikna yfirlegu og eftir að búið var að vekja upp ákveðnar væntingar um að til einhverra raunhæfra ráðstafana yrði gripið, er ný vísitala sem enn og aftur tryggir það að skuldarinn (glæpamaðurinn sem tók allt of stórt lán) ber alla áhættu lánsins, en skuldareigandinn er 100% tryggður gegn því að verðmæti þess sem hann lánar geti rýrnað, alveg sama hvað gengur á í efnahagslífi landsins (því hvenær höfum við séð, eða munum við sjá viðvarandi verðhjöðnun á öllum sviðum sem koma til útreiknings vísitölu?)

Nýja greiðslujöfnunarvísitalan verður með þeim hætti að verbætur sem dregið er að leggja beint við höfuðstól lánsins til útreiknings á afborgun lánsins bætist engu að síður við höfuðstól lánsins, en geymist einhvern veginn til hliðar þar til hægt verður að smyrja honum beint inn á höfuðstól þess. Mér er reyndar ekki ljóst eftir lestur þessara útskýringa hvernig vaxtaútreikningi verður háttað, en mig grunar þó að þessi nýi angi höfuðstólsins beri sömu vexti og verði á sama hátt og áður reiknaður inn í höfuðstól fyrir næsta verðbótaútreiking og svo næsta, o.s.frv.

Svo er sagt að EF skuld er á þessum jöfnunarhöfuðstól lánsins við lok lánstíma lengist lánið og hefst þá niðurgreiðlsla þess höðuðstóls þar til hann er uppgreiddur (nú eða lántaki ellidauður, en þá verður væntanlega lánveitandinn sjálfkrafa aðalerfingi hinnar veðsettu 'eignar' hans, nema hvað?).

Er þetta framtíðin sem við viljum búa við og er þetta framtíðin sem við viljum búa afkomendum okkar? Höfum við trú á því að ástandið hér á landi verði með þeim hætti næstu 10, 20 árin að þessi nýi höfuðstóll lána okkar verði ekki í bullandi skuld þegar lán okkar verða uppgreidd?

Í mörg ár hefur mér verið sagt að ég hafi einfaldlega tekið of stór lán og farið offari í mínum peningamálum. Ég hef hingað til svo sem tekið það á mig og oft hef ég óskað þess að ég hefði farið rólegar í tiltekna hluti, en ég tek þó fram að ég er ekki fjárhættuspilari og hef aldrei verið, ég hef aldrei tekið lán til sumarleyfisferða erlendis, ég hef aldrei tekið lán fyrir nýjum bíl (ég er þó sekur um að hafa tekið bíl af 2004 árgerð á kaupleigu árið 2007 á 1400þkr erlendu láni, en sá bíll stendur nú í tvöföldu því verði og er hann nú kominn í vörslu fjármögnunarfyrirtækisins). En jú, ég keypti vissulega raðhús sem rúmaði fjölskyldu mína á 80% láni sem nú stendur líklega í a.m.k. 110% og er vaxandi á meðan verðmæti húsnæðisins fer minnkandi. Ég stend í þeirri meiningu að ég sé búinn að borga húsverð húss míns 2-3 sinnum á síðustu 25 árum, en enn er ég kominn í þá stöðu að verðtryggingin nær að éta upp allan minn litla eignarhluta. Ég hef séð það gerast áður. Þessi barátta er algerlega vonlaus en það sorglegasta er að það er ekki að sjá að það sé nokkur kjarkur til í nokkrum stjórnmálamanni til þess að hreyfa við þessum málum.

Þegar ég réðst í þessu húsakaup sá ég fyrir mér að ég gæti bakkað út úr þessu og selt húsið, ef ég sæi fram á að dæmið gengi ekki upp. Þetta reyndi ég fyrir ári síðan, en það var um það leyti sem markaðurinn fyrir stærri eignir hreinlega botnfraus, alveg sama hvað formaður félags fasteignasala segði oft í sjónvarpinu að markaðurinn væri ekki frosinn.

Er verðtryggingin þá náttúrulögmál sem ekki er hægt að hrófla við? Hefði það skelfilegar afleiðingar fyrir ILS og lífeyrissjóðina, ef verðtrygging yrði afnumin og lánamarkaður látinn þróast í áttir sem nálgast það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar? Er það náttúrulögmál að vaxtastig á Íslandi verði að vera svo hátt um aldur og ævi að það þurfi verðtryggingu til að hægt sé að plata almúgann út í það að taka verðtryggð lán af því að greiðslubyrðin kemur þá bara seinna? Þá er náttúrulega hægt að láta svo líta út að fólk hafi efni á að kaupa sér stærra og dýrara húsnæði fyrr. Er það líka náttúrulögmál að ekki sé hægt að halda verðbólgu innan 2-4% marka til lengri tíma til þess að bit verðtryggingarinnar marki ekki dýpra en svo á 20-40 ára lánstíma að möguleiki sé að greiða niður höfuðstól slíkra lána. Má ekki e.t.v. gera ráð fyrir því að það sé náttúrulögmál að með verðtryggingu sé fræðilega ekki hægt að halda verðbólgu undir ca. 3-4% vegna sjálfvirkra verðbólguhvetjandi áhrifa verðtryggingarinnar sjálfrar? Má ekki halda því fram að verðtrygging sé falin aðferð til þess að prenta peninga sem ekki eru í raun til í hagkerfi landsins?

Ég lofaði í athugasemd við athugasemd fyrir nokkru að ég skyldi svara rökum sem fram komu með verðtryggingu. Ég hef ekki enn staðið við það loforð, en ég endurnýja það loforð hér með. Ég er ekki hættur. 'I'm down, but not out'! 

Ég hvet eindregið alla þá sem telja að nauðsynlegt sé að endurskoða kerfi verðtryggingar á Íslandi að láta í sér heyra.

Meira síðar.


Til minnis (eða gleymdi ég að taka inn einhverja pillu?)

Nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að höfð séu í minnum nú og í framtíðinni.

1. Góð grein sem bent er á hjá mbl.is: http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/7658908.stm eftir Jón Daníelsson. Hér er á mannamáli útskýrt hvers vegna stýrivaxtastefna SÍ/DO virkaði öfugt og beinlínis jók á þensluna.

2. Þrjóska Seðlabankastjóra þegar hann hélt því fram að ef meðal væri ekki að virka þyrfti stundum að auka við skammtinn. Afleiðingin varð dauði sjúklingsins vegna ofskömmtunar og aukaverkana.

3. Dauðahald lífeyrissjóðanna og stjórnmálamanna í verðtrygginguna. Á meðan peningakerfi Íslands hrynur með þúsund milljarða afskriftum skulda og tapi fjármagnseigenda sitja smáskuldarar eftir í súpunni með himinhá gjaldeyrislán og sívaxandi höfuðstól verðtryggðra lána langt umfram veðtryggingar. Hvað er annars verðmæti húseignar í dag?

4. Núna fyrst erum við að sjá byrjunina á sprengingu fasteignabólunnar. Menn héldu að við værum að fá timburmenn í vor, en þá var ennþá að renna af okkur. Samt hafa stærri eignir varla selst í heilt ár.

5. Það er sagt núna að þjóðin öll hafi verið á fylleríi, en samt voru nú all nokkrir sem spurðu hvernig stæði á því að t.d. Sterling gæti farið úr núllvirði í 4 milljarða, í 15 milljarða, í 20 milljarða ... og svo á hausinn (gleymum heldur ekki að það fengust aldrei svör við því hvernig greiðsla upphaflegu kaupanna á Sterling fór fram). Það voru líka all nokkrir sem spurðu hverjir ættu að búa í öllum þessum húsum og íbúðum sem byggð voru, eða hverjir ættu að versla í öllum þessum byggingaverslunum og verslunarkjörnum, eða hvaða fyrirtæki ættu að vera í þessum skrifstofuturnum, eða hvaðan peningarnir kæmu eiginlega sem gerðu allar þessar nýju höfuðstöðvabyggingar mögulegar, .... Nú eða bara hvernig hægt væri að réttlæta það að tilteknir menn gætu ákveðið nánast sjálfir, án athugasemda frá hluthöfum, að þeir skyldu njóta kaupauka ofan á kauprétti og svo starfslokasamninga ef þeir væru beðnir að taka pokann sinn, eða ef þeir sáu gróðavon annars staðar og buðust til að fara. Og hvaðan komu þeir peningar sem þeir tóku sér?

6. Munum líka þá staðreynd að það var ekki íbúðalánasjóður sem olli því að hús hækkuðu úr 30 milljónum í 60-70 milljónir þegar hæsta mögulega lánið úr sjóðnum var 18 milljónir.

7. Eigum við e.t.v. að stofna til veðmála um það hvort það verða 10, 20 eða 30 þúsund innfæddir Íslendingar (fyrir utan allt erlenda vinnuaflið) sem flytja munu af landi brott í atvinnuleit? Er ekki betra að byrja á núllpunkti erlendis heldur en að byrja með hálft hús í skuld hérlendis eftir að húsið er farið?

8. Hvað gerist ef nokkur þúsund manns skila bílum sínum inn til kaupleigufyrirtækjanna og hætta einhliða að borga af lánum sínum? Ástandið lítur ekkert vel út þegar friðsamt fólk er farið að tala um af fúlustu alvöru að byltingar er þörf.

9. Gleymum ekki að Bretar sýndu okkur smánarlega vanvirðingu með því að beita á okkur hryðjuverkalögum. En gleymum heldur ekki að þeir bjuggu ekki til vandamál okkar, þeir aðeins gerðu þau erfiðari úrlausnar og hröðuðu hruninu.

Ég stefni enn að því að skrifa meira gegn verðtryggingunni í kringum helgina, ef mér gefst tími til.


Holl lesning

Mæli með þessari færslu Marinós G. Njálssonar um verðbólguna sem hefði getað orðið.

http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/690139/

Sjá líka:

http://gesturgudjonsson.blog.is/blog/gesturgudjonsson/entry/689033/


Auglýsi eftir rökstuðningi með og á móti verðtryggingu ...

Í þessari færslu auglýsi ég eftir rökstuðningi með og á móti því að haldið sé í verðtrygginguna.

http://karlol.blog.is/blog/karlol/entry/682878/

 


mbl.is Verðbólgan nú 15,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um verðtryggingu

Ég heyrði af útvarpsviðtali við hagfræðing á einhverri útvarpsstöðinni í morgun þar sem hann færði einhver rök fyrir því að ekki væri skynsamlegt, tímabært eða gerlegt að afnema verðtrygginguna. Ég tek fram að ég hef ekki heyrt þetta viðtal, þ.a. ég get ekki vitnað í orð hagfræðingsins eða rök með beinum hætti.

(Leiðr. 23.10.2008: Fyrstu upplýsingar sem ég hafði um hver þessi hagfræðingur væri bentu til að um væri að ræða Guðmund Ólfasson. Sennilega hefur þó umrætt viðtal verið við Ólaf Ísleifsson, en ég hef ekki öruggar upplýsingar um þetta. Tilvísun í Ólaf á Visir.is í dag bendir þó til þess. ) 

Ég vil því gera tilraun til þess að tína til þau rök sem færð hafa verið fyrir því að verðtryggingin eigi að halda sér og síðan er spurning hvort hægt er að tína til mótrök. Öll hjálp við þessa samantekt þegin, önnur en upphrópanir um að verðtryggingin sé náttúrulega bara glæpur eða að verðtryggingin sé algerlega nauðsynleg til þess að tryggja að verðgildi lífeyris okkar étist ekki upp þegar fram líða stundir.

1. Ef verðtrygging er afnumin af verðtryggðum innlánsreikningum er hætta á að sparnaður í landinu leggist að miklu leyti af þar sem sparifjáreigendur myndu heldur kjósa að eyða peningum sínum en sjá þá brenna upp í verðbólgubáli. Hefur mönnum sýnst að sparifjáreigendur hafi verið feimnir að eyða peningum sínum síðustu mánuði og ár í flatskjái, jeppa og utanlandsferðir að ógleymdum sumarbústöðum og líkamsræktarkortum? Hefur neyslumynstur breyst vegna þess að innlán eru verðtryggð? Ég hefði haldið að ef einhver býr svo vel að eiga fjármagn, þá leitist sá hinn sami við að tryggja að það nýtist honum sem best með því að velja bestu ávöxtunarleiðina. Ef ekki býðst verðtrygging hlýtur féð að leita í arðbærar fasteignir eða fjárfestingar í hlutabréfum, ríkisskuldabréfum, peningasjóðsbréfum (geri ekki ráð fyrir að þau leggist af til eilífðar) og ef geyma þarf fé til skamms tíma með góðri tryggingu og aðgengileika (liquidity), á lágvaxta innlánsreikningum. Jú, eflaust freistast einhverjir svo til að brenna fénu í einhverja bruðlvitleysu, en hefur það ekki gerst hvort eð er hingað til? Auðvitað brennur fé upp í verðbólgu ef innlánsvextir eru 0,5% en verðbólga 15%, en er það ástand sem við ætlum að sætta okkur við eða búumst við að verði viðvarandi hér?

2. Ef verðtrygging er afnumin geta lífeyrissjóðir ekki lengur hætt á að lána út fé til fasteignakaupa þar sem slík lán stæðu ekki undir sér og brynnu auk þess upp í verðbólgunni. Ég hef bent á í þessu sambandi að ástæða þess að lífeyrissjóðslán sem foreldrar okkar og afar og ömmur tóku brunnu upp í verðbólgu var að þau báru fasta 2-3% vexti allan lánstímann. Sama gilti um Húsnæðisstjórnarlán þess tíma. Í dag eru lán með breytilega vexti oft á tíðum, en bera nokkuð hærri vexti ef boðið er upp á fasta vexti, t.d. ca. 5,5% nokkur munur er á 2-3% og 5,5% að viðbættri verðtryggingu. Ef verðtryggingar nyti ekki við, yrðu lán að bera nokkru hærri vexti vænti ég, en þó færi það eftir undirliggjandi verðbólgu. Verðbólgu sem þó ætti að fara sér hægar þegar verðtryggingin er ekki til að kynda undir henni.

Sagt er að markaðurinn eigi að ráða. Þannig mætti ímynda sér að þegar fasteignamarkaðurinn kemst af stað aftur hér á landi og byrjað verður að lána fólki til fasteignakaupa geti vextir legið á bilinu 7-9%, jafnvel upp í 11% sem er auðvitað fáranlega hátt. Nema stýrivextir hangi enn í 12%, en þá má væntanlega gera ráð fyrir að útlánavextir geti ekki verið undir 15%. Slíkir okurvextir hljóta að leiða af sér að venjulegt launafólk stendur ekki undir vaxtabyrðinni. En hagfræðingar, vinsamlega skýrið út fyrir mér hvernig launafólk væri betur sett ef því byðist verðtryggt lán á kannski 6-7% vöxtum, þegar nokkurn veginn má treysta því að höfuðstóll lánsins hækki það mikið á 3-5 árum að afborganir væru komnar upp í það sem þær hefðu orðið á t.d. 9-11% óverðtryggðu láni í upphafi að því ógleymdu að afborganir þess láns hefðu á sama tíma lækkað? Og tökum þá inn í dæmið að launaþróun hefur ekki haldist í hendur við verðtryggingu í langan tíma.

Annað sem verður að hafa í huga ef vextir af fasteignalánum koma til með að liggja hærra en kannski 7%. Þetta mun eins og áður segir hafa áhrif á hversu háum lánum launafólk getur staðið undir og þannig mun þetta hafa áhrif á hversu dýrt húsnæði fólk getur keypt sér. Ef ekki eru kaupendur að húsnæði á ásettu verði, hlýtur markaðurinn að sjá til þess að verð lækkar, eða það er okkur alla vega talin trú um. Því held ég því enn og aftur fram hér að húsnæðisverð á Íslandi hlýtur að vera við það að taka mikla dýfu, en sú dýfa kemur væntanlega ekki í ljós fyrr en markaðurinn skríður eitthvað af stað. Ekki gleyma því heldur að 7-8% eru ca. þeir vextir sem menn stóðu frammi fyrir við endurskoðun vaxta á lánum sem voru komin að endurskoðunartímapunkti skv. skilmálum. Og það eru vextir ofan á verðtryggingu. Sér einhver glóru í því að hægt sé að standa undir slíku? Og hvað, átti fólk sem sagt ekkert að taka þessi lán, úr því að það átti að geta sagt sér sjálft að þetta mundi geta gerst?

3. Áðurnefndur hagfræðingur mun hafa lýst því hvernig verðtrygging væri í raun innbyggð á einhvern hátt inn í breska fasteignalánamarkaðinn. Þess vegna ættum við ekki að vera að velta fyrir okkur afnámi verðtryggingar hér. Ég hef ekki nánari skýringu á þessari staðhæfingu, en ég væri til í að fjalla nánar um þetta ef einhver getur vísað mér á viðtalið, eða komið með útskýringu á hvað átt var við hér. Ég bjó í Bretlandi í 4,5 ár og átti þar hús á veðláni. Vextir af láni þessu flöktu nokkurn veginn í samræmi við vaxtaákvarðanir breska Seðlabankans og þróun og samkeppni á fjármagnsmarkaði, en ég kannast ekki við neins háttar vísitölutengingu og höfuðstóll láns hækkaði að sjálfsögðu aldrei! Þar með komu heldur ekki til vaxtavextir, þ.e. vextir á verðbætur, eins og hér gerist. Ég held að þessu uppreikningur höfuðstóls lána þekkist hvergi á byggðu bóli nema á Íslandi, en ég skal leiðrétta þessa fullyrðingu ef ég reynist hafa rangt fyrir mér með þetta.

4. Mér skilst að eina leiðin til að afnema verðtryggingu sé að taka upp aðra mynt. Duh, ok. Ef það er það sem þarf, þá það.  

5. Verðtrygging er ástæða viðsnúnings lífeyrissjóðanna og afnám hennar er skaðleg lífeyrissjóðunum. Ég dreg ekki í efa að verðtryggingin var helsta ástæða viðsnúnings lífeyrissjóðanna, en ég hafna því að þar með sé ekki ástæða til eða ekki hægt að afnema verðtrygginguna í gerbreyttu hagkerfi. Ég hef annars staðar fært rök fyrir því að það verður að krefjast þess að lífeyrissjóðirnir ávaxti sig á markaði á bestu (öruggu) kjörum sem bjóðast. Eins og er hljóta verðtryggð útlán að vera besti kosturinn, en þann kost verður að afnema sökum þess vítahrings sem hann skapar heilum kynslóðum húsnæðiskaupenda. 

6. Auglýsi hér með eftir fleiri rökum fyrir því að viðhalda verðtryggingu. Óska líka eftir betri rökum fyrir að leggja hana niður. Ég er til í að uppfæra þessa grein eftir því sem ábendingar berast.

 

 


Er Ísland fórnarlamb spunameistara?

Peter Mandelson er meistari spunameistaranna og er reyndar líklega fyrsti maðurinn sem hlaut þann vafasama titil 'Spin-Doctor' í Bretlandi.

Mandelson hefur tvisvar hrökklast úr ríkisstjórn Tony Blairs síðan 1997 vegna hneykslismála, eða alla vega mála sem þóttu nógu vandræðaleg fyrir Blair til að Mandelson yrði að víkja. Ekki að sambærileg mál hefðu nokkurn tímann orðið til þess að íslenskur starfandi stjórnmálamaður, nú eða ímyndaður afdankaður stjórnmálamaður í sæti Seðlabankastjóra þyrfti svo mikið sem að hugsa um að segja af sér. Enn á ný hefur Mandelson verið kallaður inn í ríkisstjórn Bretaveldis. Það varð honum sjálfum reyndar til nokkurrar undrunar og má því velta fyrir sér hvað olli þessu kalli.

Mandelson kom inn í ríkisstjórnina 3. október. Örfáum dögum síðar braust út 'Wad war' milli Íslands og Bretlands og getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort þetta sé ekki einum of mikil tilviljun. Það skyldi þó ekki vera að kalla hafi þurft spin-doctor til þess að takast á við efnahagsvandamál Breta? Það skyldi þó ekki vera að spin-doctorinn hafi lagt til að hart yrði tekið á Íslendingum fyrir klúður þeirra í bankamálum til þess að dreifa athyglinni frá þeirri staðreynd að þjóðnýta þurfti nokkra banka í þeirra eigin bakgarði? Með því að kenna Íslendingum um og beita þá hörðum aðgerðum mætti e.t.v. lágmarka skammirnar sem bitnuðu á stjórnvöldum fyrir aðgerðaleysi.

Ekki að ég sé að verja þá stöðu sem íslensku útrásarvíkingarnir, afsakið útrásarkverúlantarnir, hafa komið þjóðarbúinu í. Maður spyr sig hver endanleg tala þess tjóns verður sem við stöndum frammi fyrir. Í dag heyrði ég frá gömlum vinnufélaga búsettum í Austurríki að þarlendir bankar teldu sig hafa orðið fyrir 3ja milljarða evra tjóni vegna bankahrunsins á Íslandi. Ég hef ekki orðið var við að minnst hafi verið á Austurríki í fréttum hér heima af ósköpunum þ.a. maður spyr sig hvort fleiri lönd eigi enn eftir að bætast í hópinn og allt í einu byrjar sú tala sem einhvers staðar var nefnd sem 1000 milljarðar að hljóma of lág!


Eiga börnin okkar að búa við verðtryggingu? Nei takk!

Eins og ég hef margítrekað og tek fram hér til hliðar er ég afspyrnu lélegur bloggari. Síðasta færsla mín fjallaði um Evruna og verðtrygginguna, en þegar hún var skrifuð átti ég ekki von á að upplifa þá stöðu sem við erum í núna. En einhvern veginn þykir mér þessi síðasta færsla mín eiga enn betur við núna en þegar hún var skrifuð.

Ég sakna þess mjög þessa dagana að enginn virðist þora að hreyfa umræðum um afnám verðtryggingar og því ríð ég hér á vaðið. Ég KREFST þess að þetta tækifæri sem við stöndum frammi fyrir núna til endurskipulagningar á öllum fjármagnsmarkaði okkar verði ekki látið ónotað til þess að afnema með öllu verðtrygginguna, a.m.k. hjá næstu kynslóð fasteignakaupenda. Látum vera þó okkar kynslóð þurfi að bera klafann og missa eignir okkar, eða kannski frekar þó við eignumst aldrei neitt, en viljum við virkilega að börnin okkar festist líka í klafa verðtryggingar?

Ég krefst líka þess að þeir sem eru með verðtryggð fasteignalán verði ekki skildir alfarið eftir í björgunarráðstöfunum sem boðaðar hafa verið, en engin útfærsla er komin á. Megin áherslan í augnablikinu virðist vera á að hjálpa þeim sem eru með erlend lán vegna snöggrar hækkunar sem orðið hefur á þeim. En verðtryggðu lánin hafa verið að hækka (34 mkr lán hefur hækkað um 7 mkr á 2,5 árum!) smám saman og munu heldur betur taka á sig skell í 50-100% verðbólgu sem verið er að spá þessa dagana. Ég fullyrði hér og nú að allar forsendur þeirrar hækkunar sem mitt lán (innan svigans hér á undan) hefur tekið á sig eru brostnar frá og með 1. október 2008 og ég krefst þess að höfuðstóll þess verði endurreiknaður.

Eins og staðan er í dag er ekki til neitt markaðsvirði á húseigninni 'minni' þar sem slíkar eignir hafa nánast ekki hreyfst nema í makaskiptum í heilt ár (raðhús). Þegar markaðurinn skríður af stað á eftir að koma í ljós hversu mikið verð hefur lækkað, en það er tóm tjara að tala um einhverja 0,2 prósenta lækkun og lítilsháttar hækkun á fasteignaverði síðustu tólf mánaða, þegar eignir eru óseljanlegar í stórum stíl. Mér er ljóst að 80% lánið mitt er sennilega í 110% í dag og verður í 150% þegar næsti uppreikningur vísitölunnar kemur inn í það. 

Ég á ekki von á því að ríkisstjórnin leysi mín mál eða annarra í sömu stöðu og ég sé ekki fram á annað en að leigja húsnæði mitt okurleigu af ríkisbanka um langa framtíð, en ég  kæri mig ekki um að þetta brenglaða umhverfi verði það sem börnin mín þurfa að búa við. Ég vil sjá aukna valkosti í boði í fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Einfaldar viðmiðanir og sanngjörn kjör. Samkeppni væri líka ágæt, innan skynsamlegra marka, en fyrst og fremst í stöðugu umhverfi sem býður upp á að hægt sé að gera áætlanir til lengri tíma en 3ja mánaða.

Í Bretlandi (alla vega á meðan allt var í lagi) var boðið upp á nokkurt úrval fasteignalána. Viðmiðun var gjarnan að þú gætir fengið að láni sem nemur þreföldum árslaunum þínum. Vextir rokkuðu á árunum 1997-2002 á milli 4,9 og 7,2% ef ég man rétt. Þá gat maður tekið lán til t.d. 25 ára sem maður greiddi einungis vexti af. Síðan greiddi maður inn á tiltekinn skyldusparnað (ISA eða PEP, misgóðir kostir en ég man ekki smáatriðin) á lánstímanum með það að markmiði að þegar lánið félli á gjalddaga 25 árum síðar ætti maður einfaldlega höfuðstól til að greiða það upp. Ef mismunur var í plús, átti maður það, en í mínus skuldaði maður það. Síðan er náttúrulega fylgst vel með ávöxtun safnreikningsins og bætt í eða dregið úr eftir aðstæðum hvers tíma (nú um stundir þurfa menn væntanlega að gefa duglega í, en það fer eftir áhættustýringu þeirra safnreikninga sem maður velur sér).  Trygging lánsins felst í veðinu í húsinu, þ.a. ef það t.d. vantar verulega upp á höfuðstólinn má hugsa sér að fasteignin standi vel undir endurfjármögnun eftirstöðvanna, eða eftir aðstæðum mætti selja eignina og kaupa minni. Á lánstímanum má líka skipta um lánadrottinn, skipta um safnáætlun o.s.frv. allt eftir vaxtakjörum og ávöxtunarkjörum sem í boði eru. Þar kemur inn samkeppnin. Að sjálfsögðu er breska kerfið ekkert fullkomið frekar en það íslenska, en þar er þó hægt að setja sér langtímamarkmið sem reikna má með að standist nokkurn veginn.

Verðtrygging einfaldlega gengur ekki upp, ef verið er á annað borð að setja sér það markmið að halda verðbólgu í skefjum. Verðtrygging er eldsneyti verðbólgu og getur aldrei virkað öðruvísi. Börnin okkar verða einfaldlega að læra það að það þurfi að safna sér fyrir útborgun og síðan þurfi að standa undir einhverju hærri vaxtabyrði á fyrstu árum húsnæðiskaupa. Ég fullyrði að það verður léttbærara til lengdar fyrir þau heldur en að pissa í skóinn eins og ég hef gert alla þá hundstíð sem ég hef verið að reyna að eignast einhvern hlut í einhverju húsnæði, eingöngu til þess að sjá bankann eignast það svo allt saman.

Verðtrygging er gengin sér til húðar og forsendur hennar hrundu með bankakerfi Íslands! Amen!!

Og ef einhver ætlar að koma hér með tugguna um að við þurfum verðtrygginguna til þess að tryggja lífeyri okkar, þá segi ég BS! Lífeyrissjóðirnir verða að ávaxta fé okkar á markaði á vöxtum sem dekka verðbólguna. Það þýðir að þeir verða að lána út á breytilegum markaðsvöxtum, ekki á föstum 2-3% vöxtum til 20-25 ára eins og þeir gerðu á árum áður þegar foreldrar okkar og afar og ömmur tóku sín lán sem brunnu upp í óðaverðbólgu þess tíma. Þetta er líka minn lífeyrir sem ég er að tala um þarna, en þetta er einfaldlega sú staða sem við erum í. Sá lífeyrir sem ég mun fá greiddan út úr mínum sjóði mun ekki standa undir afborgunum af skrilljón króna eftirstöðvum af 40 ára húsnæðisláninu mínu þegar ég fer á eftirlaun, það er ljóst.


Evrópuumræðan, Evran og verðtryggingin (og það er minnst á Guð)

Hér fóru fram umræður um kosti og galla ESB aðildar í boði Hans Haraldssonar.

Ég hætti mér út í að taka þátt í þessum umræðum, en langar að geyma hér hjá mér og endurbirta einn punkt, sem mér þykir ekki hafa fengið þá umfjöllun sem hann á skilið.

Hólmgeir Guðmundsson benti á áhugaverða grein á vef Independent.ie þar sem er sá möguleiki að Írar kasti Evrunni. Þar er rakið hvernig þáttaka þeirra í Evrunni hefur tekið burtu eitt stjórntækið sem þeir höfðu áður til þess að takast á við afleiðingar ofþenslu. Ég mæli eindregið með lestri þessrarar greinar sem innlegg í ESB- og Evru-umræður hérlendis.

Eftir að ég las þessa grein setti ég inn þessa athugasemd hjá Hans:

"Hólmgeir, takk fyrir hlekkinn á þessa grein í Irish Independent. Og Gunnar, víst er hér um púðurtunnu að ræða og röksemdafærsla greinarhöfundar afar sterk. En hvernig skyldi þetta passa inn í íslenska fyrirbærið. Fljótt á litið er eins og þarna sé verið að lýsa ferlinu sem Ísland hefur gengið í gegnum og hefði gengið í gegnum hefðum við verið aðilar að Evrunni. Írar eru að mörgu leyti bara 3-5 árum á undan okkur í ferlinu. En það er einn grundvallarmunur á írska módelinu og því íslenska.

"The only way Irish people straddled with huge mortgage debts (the legacy of our stupid binge) will be able to pay these off is with a bout of massive inflation. It sounds radical but this is the truth.

Inflation in a debt crisis bails out debtors and penalises lenders -- those with savings suffer, those with debts prosper. It's simply a transfer of income from one section of the society to another. Yes, this is unpalatable but arguably, it's an obvious way out of our present dilemma."

Áttið þið ykkur á hvað það er sem verið er að segja hér? Áttið þið ykkur á að þessar róttæku ráðstafanir til að rétta af hlutina geta ekki virkað á Íslandi. Af hverju? Vegna þess að hér er verðtrygging í gangi sem tryggir, athugið TRYGGIR lánveitendum verðmæti útistandandi lána. Það er ekki til hagstjórnartæki á Íslandi til þess að rétta af hlut almúgans, skuldarans, eins og lýst er hér. Þetta tæki var til. Foreldrar okkar sem erum að nálgast miðjan aldur upplifðu slíkt.

Ef ég mætti velja um afnám verðtryggingar eða upptöku Evru vel ég hiklaust afnám verðtryggingar. Ef upptaka Evru leiðir af sér afnám verðtryggingar verður hún freistandi, en ef afnámið færi fram án upptöku Evru erum við e.t.v. aftur komin með verkfæri sem myndi virka. Stýrivaxtahækkanir hefðu önnur og e.t.v. meiri áhrif heldur en þær hafa í dag og svo mætti lengi áfram telja, en ég hef ekki hagfræðiþekkingu til þess að meta þetta til hlítar. Nú væri fróðlegt að fá innsýn hagfræðinga í þennan vinkil."

 Ekki það að almennt fæ ég ekki margar heimsóknir eða viðbrögð við færslunum mínum þar sem þær eru vissulega ekki mjög spennandi, alls ekki gáfulegar og langt frá því fyndnar (vissulega gæti maður náttúrulega narrað Dr. E hingað inn ef maður setur orðið Guð í fyrirsögnina), en ef einhver rekst inn á þetta væri gaman að fá skoðun manna á samhengi á milli áhrifa stýrivaxtahækkana, verðtryggingar, verðbólgu og gengissigs. Ef einhver áttar sig á hvert ég er að fara.

 


Metafórur Seðlabankastjóra

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri, hefur síðustu daga notað 2 metafórur til þess að réttlæta hækkun stýrivaxta. Ekki er sannfæringin fyrir gagnsemi þessara aðgerða meiri en svo að það þarf að mata rökstuðninginn ofan í landslýð með metafórum sem allir eiga að grípa og meðtaka. Svo eiga menn bara að bukta sig og kaupa sér meira va.... nei, sleppum þessari metafóru kannski.

'Með illu skal illt út reka'
Hér er þó alla vega viðurkennt illt eðli stýrivaxtahækkana.

 'Það þekkja það allir að of lítill lyfjaskammtur getur gert illt verra og því þarf að auka skammtinn til þess að lækningin náist'
En þekkja það ekki líka allir að ein tegund af lyfi getur haft aukaverkanir sem kalla á að gefin sé önnur lyfjategund til að taka á þeim aukaverkunum. Þá getur komið fram enn önnur aukaverkun, sem kallar á enn eina lyfjategund og vítahringur myndast. Að auka við skammtinn gerir aukaverkanirnar oft bara verri.

Vaxtahækkun veldur því óhjákvæmilega að það verður dýrara að eignast húsnæði, sem aftur hefur áhrif á vísitöluna og hækkar því höfuðstól verðtryggðra skulda. Því er eina von Seðlabankans til þess að stýrivaxtahækkunin virki á verðbólgu að húsnæði lækki verulega í verði og því hentar þeim ágætlega að spá 30% lækkun húsnæðis. Fjármálafyrirtæki eru ekki alveg eins hrifin af því að húsnæði lækki, því þau sitja uppi með gríðarlegt magn af óseldu húsnæði sem keypt hefur verið í heildsölu af verktökum. Ég er þeirrar skoðunar að fjármálafyrirtæki og fjárfestar sitji á tímasprengju sem á eftir að springa .... nei, afsakið enn ein metafóran. Byrjum aftur, ég er þeirrar skoðunar að fjármálafyrirtækin sitji uppi með næstu holskefluna sem eftir á að skella á íslenska efnahagslífinu (það er sennilega ekkert hægt að segja þetta öðruvísi en með einhverri myndlíkingu).  

Í dag seljast eignir ekki. Þegar þær byrja að seljast aftur má reikna með að verð eignanna þrýstist að einhverju marki niður. Hvaða áhrif hefur það á stakan banka ef t.d. þúsund íbúðir í eigu hans lækka um eina milljón að meðaltali, og seljast á 1-2 næstu árum? Bankinn situr uppi með fjármagnskostnaðinn í þennan tima og fær 1 milljarði minni framlegð af eignunum. Og hér er ég bara að leika mér með lágar tölur. Ég ber ekki skynbragð á hverjar hinar raunverulegu tölur eru, en ég tel fullvíst að þær séu skuggalegar.  Ef 30% lækkunin verður að veruleika lækkar íbúð sem í dag er metin á 30 kúlur niður í 21 kúlu. Mismunurinn 9 milljónir og þá er ég hræddur um að heildsalinn sé búinn að tapa allri sinni framlegð og meira til.

Svona getur maður málað sig út í svörtustu bölsýni. En Þorvaldur Gylfason hefur bent á nokkur skref í átt til lausnar (þ.e. í átt til aukins stöðugleika í efnahagslífinu) og að mínu mati er vert að hlusta á hans sjónarmið.

1. Leggja skal niður þá hefð að Seðlabankinn sé elliheimili þingmanna og ráðherra. Skipa á hæfasta fagfólkið í stöður Seðlabankastjóra. Sömuleiðis eiga fleiri hagsmunaaðilar að koma að skipun manna í bankaráð Seðlabankans.

2. Það á að lýsa því yfir strax að Ísland ætli í aðildarviðræður við ESB. Það jafngildir ekki því að Ísland muni ganga í ESB, en það er ekki hægt að taka ákvörðun um slíkt fyrr en sótt hefur verið um og samið. Ákvörðunina sem slíka á svo að bera undir þjóðina. Ég er reyndar á móti því að það sé borið undir þjóðina hvort sækja eigi um eða ekki. Það er óþarfi, því það ætti að vera nóg að bera ákvörðun um staðfestingu samnings undir þjóðina.

3. Jafnhliða 2 á að setja stefnuna á að ganga í myntbandalag Evrusvæðisins, en á sama hátt og í 2 á ákvörðunin að vera í höndum þjóðarinnar, ekki Seðlabankastjóra og 'vara'formanns hans og jábræðra (og ákvörðunin á ekki heldur að vera í höndum 'nei, við erum á móti' flokksins).

En ekkert af þessu leysir þó þetta yfirvofandi vandamál fasteignamarkaðarins, sem ég lýsti hér að ofan. Það eina sem ég sé að geti komið í veg fyrir algert hrun þar er að til komi innspýting fjármagns (t.d. með tilkomu erlends banka, eða að lausafjárkreppa bankanna leysist) þ.a. hægt verði að dreifa lækkun húsnæðis, ef hún verður, yfir lengri tíma. Og hér tala ég náttúrulega hálft í hvoru gegn mínum eigin hagsmunum, því lækkun húsnæðis á að lækka afborganirnar af mínum skuldum að einhverju marki. En það hagnast enginn á því að fjármálamarkaðurinn hérlendis hrynji.

Þetta er nú orðið meira bullið hjá mér. Ég er ekkert viss um hvort ég eigi að birta þetta, en ef einhver skilur hvað ég er að fara væri gaman að heyra það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband