Zap - Hausmynd

Zap

Evrópuumræðan, Evran og verðtryggingin (og það er minnst á Guð)

Hér fóru fram umræður um kosti og galla ESB aðildar í boði Hans Haraldssonar.

Ég hætti mér út í að taka þátt í þessum umræðum, en langar að geyma hér hjá mér og endurbirta einn punkt, sem mér þykir ekki hafa fengið þá umfjöllun sem hann á skilið.

Hólmgeir Guðmundsson benti á áhugaverða grein á vef Independent.ie þar sem er sá möguleiki að Írar kasti Evrunni. Þar er rakið hvernig þáttaka þeirra í Evrunni hefur tekið burtu eitt stjórntækið sem þeir höfðu áður til þess að takast á við afleiðingar ofþenslu. Ég mæli eindregið með lestri þessrarar greinar sem innlegg í ESB- og Evru-umræður hérlendis.

Eftir að ég las þessa grein setti ég inn þessa athugasemd hjá Hans:

"Hólmgeir, takk fyrir hlekkinn á þessa grein í Irish Independent. Og Gunnar, víst er hér um púðurtunnu að ræða og röksemdafærsla greinarhöfundar afar sterk. En hvernig skyldi þetta passa inn í íslenska fyrirbærið. Fljótt á litið er eins og þarna sé verið að lýsa ferlinu sem Ísland hefur gengið í gegnum og hefði gengið í gegnum hefðum við verið aðilar að Evrunni. Írar eru að mörgu leyti bara 3-5 árum á undan okkur í ferlinu. En það er einn grundvallarmunur á írska módelinu og því íslenska.

"The only way Irish people straddled with huge mortgage debts (the legacy of our stupid binge) will be able to pay these off is with a bout of massive inflation. It sounds radical but this is the truth.

Inflation in a debt crisis bails out debtors and penalises lenders -- those with savings suffer, those with debts prosper. It's simply a transfer of income from one section of the society to another. Yes, this is unpalatable but arguably, it's an obvious way out of our present dilemma."

Áttið þið ykkur á hvað það er sem verið er að segja hér? Áttið þið ykkur á að þessar róttæku ráðstafanir til að rétta af hlutina geta ekki virkað á Íslandi. Af hverju? Vegna þess að hér er verðtrygging í gangi sem tryggir, athugið TRYGGIR lánveitendum verðmæti útistandandi lána. Það er ekki til hagstjórnartæki á Íslandi til þess að rétta af hlut almúgans, skuldarans, eins og lýst er hér. Þetta tæki var til. Foreldrar okkar sem erum að nálgast miðjan aldur upplifðu slíkt.

Ef ég mætti velja um afnám verðtryggingar eða upptöku Evru vel ég hiklaust afnám verðtryggingar. Ef upptaka Evru leiðir af sér afnám verðtryggingar verður hún freistandi, en ef afnámið færi fram án upptöku Evru erum við e.t.v. aftur komin með verkfæri sem myndi virka. Stýrivaxtahækkanir hefðu önnur og e.t.v. meiri áhrif heldur en þær hafa í dag og svo mætti lengi áfram telja, en ég hef ekki hagfræðiþekkingu til þess að meta þetta til hlítar. Nú væri fróðlegt að fá innsýn hagfræðinga í þennan vinkil."

 Ekki það að almennt fæ ég ekki margar heimsóknir eða viðbrögð við færslunum mínum þar sem þær eru vissulega ekki mjög spennandi, alls ekki gáfulegar og langt frá því fyndnar (vissulega gæti maður náttúrulega narrað Dr. E hingað inn ef maður setur orðið Guð í fyrirsögnina), en ef einhver rekst inn á þetta væri gaman að fá skoðun manna á samhengi á milli áhrifa stýrivaxtahækkana, verðtryggingar, verðbólgu og gengissigs. Ef einhver áttar sig á hvert ég er að fara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Karl Ólafsson og þakkir fyrir þennan pistil


Já EN -

- stýrivextir koma í öllum stærðum en það mikilvægasta er að þeir koma eftir ÞÖRFUM! - eftir verðbólgu.

Á Íslandi er pass-through virkni hæst, þ.e. þar fara erlendar verðhækkanir hraðast út í verðlag, næstum strax. Þið verðið byrjuð að lækka stýrivexti á meðan hinir eru ennþá að hækka þá. Og þá mun fólk ekki væla eins mikið. Á haustmánuðum verður lækkunarferlið byrjað en þá sem sagt á meðan hinir eru enn að hækka sig. Ég er alveg handviss um að Seðlabanki Íslands er að gera rétta hluti, en samt örlítið of seint. En þeir eru samt að gera þá.

WORLD INTEREST RATES TABLE

Stýrivextir

Land..........Núna

Turkey 16,25

Iceland 15,50

Brazil 12,25

S-Africa 12,00

Egypt 10,50

India. 8,50

Hungary 8,50

New Zea. 8,25

China 7,47

Australia 7,25

Norway 5,75

S-Korea 5,00

UK.... 5,00

Sweden 4,50

ECB Evra 4,25

Slovakia 4,25

Czech R 3,75

Taiwan 3,6250

Hong K. 3,50

Canada 3,00

Switzerl. 2,75

USA.... 2,00

Japan 0,50

Allir nema 5 af 23 eru að hækka vexti.

Evran er í algerri sérstöðu vegna þess að hún er myntbandalag. Þessvegna munu afleiðingarnar verða hroðalegar fyrir evruland því þarfirnar og grunnvandamálin eru svo misjöfn á evrusvæðinu. Þetta er eins og að setja alla í sömu skóstærð. En þeir eiga þó eitt sameiginlegt: fasteignaverð á EFTIR að hrynja um minnst 25% í viðbót. Þetta gildir einnig um flesta nýmarkaði (emerging markets). Flugeldasýning er einungis að byrja í ESB.

Eins og ég skrifaði sem athugasemd á blogg Hans Haraldssonar fyrr í dag þá er mín skoðun á ESB þessi:

Síðustu 3 vaxtahækkanir seðlabanka evru, og sú næsta sem mun koma í haust, munu verða skráðar í bækurnar sem stærstu mistök í sögu fjármála. Afleiðingarnar fyrir evru og erm svæðið munu verða hreint skelfilegar. En þá munu Bandaríkjamenn og Íslendingar aftur verða komnir á góða siglingu á ný. En hrunið á evru og erm svæðinu er núna óumflýjanlegt. Sumir efast um að myntbandalagið muni standast þá þolraun og eru því hræddir um framtíð evru.

Hvert veit nema rykið verði dustað af prentvélum Deutsche Bundesbank? En þeir munu samt þurfa að skipta um myndmót í prentvélunum því það þarf að koma inn nýrri mynd - mynd af gömlu fólki þar sem ekkert sést til barna - mynd af gamla heiminum.

Lokaniðurstaða ALLRA vangaveltna um ESB og evru er þessi: EKKERT ÞJÓÐFÉLAG MUN STANDAST AÐ AUÐÆFI ÞESS ERU TROÐIN FÓTUM ÁRATUGUM SAMAN. 15-20% raunverulegt atvinnuleysi áratug eftir áratug mun koma hvaða þjóðfélagi sem er í gröfina, sama hvaða nöfnum myntin og efnahagsstjórnin nefnist og sama hvort fjármagn er verðtryggt eða skattar eru verðtryggðir eins og þeir eru í ESB. Þetta er loka niðurstaða mín eftir 23 ára búsetu og atvinnurekstur í ESB.

Gleðifréttir úr gamla heiminum í ESB

Aðalsmerki Íslands eru a) sterkt atvinnulíf b) full atvinna og c) sveigjanleiki. Þessvegna kæru Íslendingar munuð þið koma fyrst út úr kreppu ásamt Bandaríkjamönnum.

MUNA: atvinnuleysi og sóun á mannauði gengur ekki átatug eftir áratug án skelfilegra afleiðinga fyrir öll þjóðfélög.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 19.7.2008 kl. 08:49

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Sæll Gunnar og takk fyrir þetta innlegg. Mér þykir þessi innsýn þín í ESB heiminn og spá þín um framtíð í Evruland afar athyglisverð og ég dreg hreint ekki í efa að niðurstöður þínar og spádómar um ESB og Evru eigi við rök að styðjast. Og ég get ekki verið meira sammála þér um afleiðingar atvinnuleysis sem stendur yfir í áratugi. Þegar kynslóðir alast upp við það að atvinnuleysi sé eðlilegt ástand verður erfitt að rífa upp metnað og dugnað unga fólksins. Þetta sá ég vel á meðan ég bjó í Bretlandi.

En til viðbótar þessu þætti mér afar áhugavert að fá samt rædda ítarlegar tvo fleti sem snúa að Íslandi og þá sérstaklega þann fyrri, sem er meginatriðið sem færslan mín átti að fjalla um. Reyndar tengjast þessi tvö atriði.

Fyrra atriðið er afleiðingar þess að búa við verðtryggingu skulda á Íslandi í áratugi.  Hvaða áhrif hefur það t.d. á möguleika einstaklingsins til þess að bregðast við sveiflum og gera ráðstafanir til þess að rétta sína stöðu (og þá er ég ekki að tala um að hann hafi valkost um að setja sig ekki í þau spor með því að forðast að taka verðtryggð lán). Þetta  eru vangaveltur út frá þessum punkti sem ég klippti út úr írsku greininni.

Seinna atriðið er hvaða áhrif það mun hafa hér á landi með haustinu og e.t.v. vetrinum þegar fasteignaheildsalar fara virkilega að finna fyrir því að íbúðir þær sem þeir hafa fjármagnað síðustu misserin einfaldlega seljast ekki. Ég hef nefnilega þá kenningu að við séum ekki komin í timburmennina enn hvað varðar kreppuna og fasteignamarkaðinn. Þar er enn að renna af okkur og afleiðingarnar eiga eftir að koma fram. Ég hef áður bloggað eitthvað um þetta. Þú nefndir 25% lækkun á fasteignamarkaði innan ESB. Hver er spá þín um íslenska fasteignamarkaðinn. Davíð sagði 30% við lítinn fögnuð, en er það ekki í raun það sem ætti undir eðlilegum kringumstæðum að gerast hér? Og hvað þýðir það fyrir bankana og svo náttúrulega þann fjölda fólks sem þar með kemst í neikvæða eiginfjárstöðu? Því ekki mun þessi lækkun duga til að vega upp á móti gengislækkun og verðhækkunum þannig að verðtryggingin sjái til þess að lánahöfuðstólar lækki líka um 30% til samræmis við fasteignaverðið.

Karl Ólafsson, 19.7.2008 kl. 11:12

3 identicon

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hefur oft rætt um það á Útvarpi Sögu, að verðtrygging lána leiði til lægri vaxta hjá lántakendum. Hann vísar í athugun sem nær nokkuð langt aftur í tímann þar sem borin eru saman óverðtryggð lán og verðtryggð lán og nánast alltaf hafa verðtryggðu lánin verið hagkvæmari.

Gjaldmiðillinn, krónan, er svo veikur að lánveitendur bjóða lægri vexti ef þeir hafa tryggingu, sem er þá verðtrygging eða gengistrygging.

Varðandi það sem Gunnar Rögnvaldsson segir:  "Ég er alveg handviss um að Seðlabanki Íslands er að gera rétta hluti, en samt örlítið of seint." vill ég segja að ég er algerlega ósammála. Vandamál þjóðarinnar er einmitt stýrivaxtastefna Seðlabankans.

Það þarf að henda út í hafsauga þessari arfavitlausu hugmyndafræði, að ætla að lækka verðbólgu með stýrivöxtum. Kenningin virkar öfugt við það sem ætlað er, í opnu kerfi eins og okkar þar sem hægt hefur verið að afla lánsfjár sem er utan við stýringu Seðlabankans. Stefna Seðlabankans eykur framboð á lánsfé og og keyrir upp verðbólgu uns allt hrynur saman eins og nú er að gerast.

Bendi á lesefni hér og hér og hér.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 18:04

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Afsakaðu Karl að ég skyldi gleyma að svara þér.


Verðtrygging getur verið með til ýmsu móti og á hina ýmsu vegu. Á Íslandi er t.d. lánsfé til lengri tíma verðtryggt miðað við ákveðna vísitölu (indexing).

Í ESB eru t.d. sum laun og greiðslur úr opinberum- og skattafjármögnuðum kössum oft verðtryggðar miðað við vísitölu framfærslu. Allir sem þurfa að borga af verðtryggðum lánum þekkja verðbæturnar og vita hversu erfitt er að greiða af svona lánum ef það á sér ekki stað viss aukning í kaupmætti á sama tíma. Kaupmáttaraukning hefur haft nokkuð vel við verðbólgu á Íslandi á undanförnum mörgum árum, eða þar til núna.

En það eru fáir sem hugsa út í hversu skelfilegar afleiðingar verðbólgu geta verið fyrir opinber útgjöld í þeim löndum ESB sem þurfa að opna meira og meira lúguna á ríkiskassann þegar verðbólga fer af stað í verðtryggðum velferðarkerfum þeirra. Þetta mun næstum verðtryggja halla á fjárlögum og þar með skattahækkanir, og aukið atvinnuleysi þessara landa, því samkeppnishæfnin við útlönd mun hverfa á núll komma fimm. Þessvegna var seðlabankastjóri evru að vara löndin við þessari verðtryggingu og nánast að krefjast að hún yðri afnumin svo seint sem í síðustu viku. Þetta mun ekki falla í góðan jarðveg hjá ESB þegnum.

En stærð hins opibera geira í ESB er orðinn mjög stór og miklu stærri en á Íslandi. Þessvegna þolir ESB miklu minni verðbólgu en Ísland gerir. Hér fer allt til fjandans við 4% verðbólgu.

En persónulega er mér alltaf illa við verðtryggingu. Hún er ekki réttlát því hún firrir suma áhættu - og svo firrir hún stjórnmálamenn ábyrgð. En það góða við hana er að hún tryggir ákveðið framboð af fjármagni og eykur sparnað.

Ég veit ekki með fasteignamarkaðinn. Ísland er ungt lanf með miklu meira af ungu fólki en í ESB. Það er mikið púður í tunnunni. Ef Ísland væri til dæmis "skattaparadís" núna, á svipaðan hátt og Luxemburg eða Sviss, þá myndi ég auglýsa grimmt "Stofnun fyrirtækja (félaga) og skattalega Heimilisfestu" þar, og svo fengju þeir eina íbúð í kaupbæti ef þeir kaupa þrjár. Gengi krónunnar er svo hagstætt að þetta myndi ganga vel upp. Auglýsa í útlöndum. Gott og ríkt samfélag, ódýr okra, hlutfallslegt fámenni, friður, myrkur og norðurljós á veturna og sól á miðnætursól á sumrin - og lágir skattar!! "Náið heilsunni og sálarrónni aftur í á Íslandi". Paradís fyrir útbrunna "business menn" :)

Sveinn segir að stýrivextir virki ekki. En það er alls ekki rétt. Þeir virka, og þeir virka ALLTAF.

Seðlabankar í opnum hagkerfum geta í hlutarins eðli aldrei "ráðið við" eða "stýrt" verðbólgu. Það er ekki hægt. En þeir geta og eiga að berjast við hana, af öllum mætti og með öllum tiltækum vopnum. Afleiðingar verðbólgubaráttu eru alltaf mjög slæmar fyrir alla. Menn ættu að hætta að ímynda sér að gerþekktar hagstjórnunaraðgerðir- og aðferðir eigi ekki við á Íslandi. Þegar það skeði síðast á Íslandi þá kom óðaverðbólga og lagði efnahag þúsunda heimila og fyrirtækja í rúst. Þessi mistök kostuðu mannslíf.

Verðbólgusaga Íslands er hrikaleg, mannskæð og grátleg. Þetta veit Davíð Oddson manna best. Ef hann sæti ekki sem seðlabankastjóri núna væri sennilega komin óðaverðbólga á Íslandi - einu sinni enn! Ekki fara að ímynda ykkur einu sinni enn að þið getið gengið á vatninu og að þetta og hitt dugi ekki sem hagstjórnartæki á Íslandi. Það er rangt, alrangt!

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 19:33

5 identicon

Það væri alveg hátíð ef stýrivextir virkuðu ekki, en ég var að skrifa að þeir virkuðu öfugt við það sem kenningin segir.

Lestu í rólegheitum lesefnið sem ég var að benda á  hér og hér og hér. Ef menn leggja þetta aðeins niður fyrir sér þá liggur þetta alveg ljóst fyrir og ekki þyrfti að deila meira um það.

Hægt er að benda á fjölda hagfræðinga sem eru að segja þetta sama, en Seðlabankamenn virðast ekki geta skilið þetta. Það eru vaxtamunarviðskipti sem keyra þetta áfram, og þess meiri sem vaxtamunurinn verður, þess meira verður innflæði fjármagns.

Jón Daníelsson segir: Stýrivaxtahækkun til þess að stemma stigu við innlenda verðbólgu eða þenslu leiðir eingöngu til fjármagnsflæðis sem svo magnar upp verðbólguna og þensluna.

Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur segir stýrivexti Seðlabankans gagnslausa í efnahagsstjórninni.

Gylfi Magnússon, hagfræðingur, segir að háir stýrivextir Seðlabankans hafi hingað til ekki dugað gegn verðbólgunni. Skattahækkun gæti dregið úr verðbólgu en slíkt yrði ekki vinsælt. Gylfi segir Seðlabankann - stjórn hans og stefnu - kominn í algjört þrot.

Svona má lengi halda áfram.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 20:08

6 identicon

Aftur á móti virkar kenningin eflaust ágætlega í stórum hagkerfum eins og í Bandaríkjunum. Þar eru t.d. húsnæðislán tengd við stýrivextina + álag fyrir lánveitandann, þannig að hækki seðlabankinn stýrivexti sína þá hækka strax afborganir af nánast öllum skuldum um leið.

Það segir sig sjálft hvað þetta er miklu skilvirkara í öðrum löndum. Fjármagn er strax sogað út úr hagkerfinu. Hér eru flest lánin verðtryggð og ótengd við stýrivexti seðlabanka.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 20:28

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir Sveinn


Ég sé að ásatrúin er enn lifandi á Íslandi. Hún samt þriðja auganu og jafnvel því fjórða í gjaldmiðlaupptökumálum á Íslandi ættu að tryggja áframhaldandi samkeppnishæfa dulspeki- og miðilsstarfssemi í hagfræðum á Íslandi.

En þetta er einungs gott. Gott að menn séu ósammála á Íslandi því það sýnir að þjóðin er ennþá frjáls og lifandi á sinn gamla og góða frjálsa hátt. Allt er því eins og það á að vera. Íslendingar eru ennþá Íslendingar. Framfarir eiga nefnilega best uppdráttar í svona umhverfi. Þegar menn eru alltaf sammála þá verða engar framfarir.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 20:41

8 Smámynd: Karl Ólafsson

Þakka ykkur Gunnar og Sveinn þessi athyglisverðu innlegg. Eins og eðlilegt hlýtur að vera eru skiptar skoðanir á þessum málum.

Ég fer hins vegar ekki ofan af því að verðtrygging er af hinu illa. Ég kaupi ekki þau rök að verðtryggð lán leiði af sér lægri vexti og séu því hagstæðari óverðtryggðum lánum. Mér þætti reyndar athyglisvert ef þú átt einhverja tilvísun í þá röksemdafærslu Guðmundar Ólafssonar, því ég hlusta afar sjaldan á Sögu. Þeir útreikningar sem ég hef séð auk 26 ára reynslu minnar af klafa verðtryggðra lána hafa sýnt mér aðra hlið en þá að verðtrygging sé mér hagstæð. Jú, nafnvextir eru lágir, því verðtryggingin er bundin inn í nafnvexti óverðtryggðra lána. Jú, afborganir verðtryggðra lána eru lægri .... til að byrja með ...., og því líta þau hagstæðar út til að byrja með. Óverðtryggðu lánin lækka hins vegar, sem er nokkuð sem ég hef í raun ekki séð verðtryggðu lánin mín gera nema e.t.v. 2-3 á aldarfjórðungi. Ég eiginlega nenni satt að segja ekki að fara nánar út í þetta eða tína til dæmin sem ég á í safni mínu, en mér þætti athyglisvert að sjá hvernig Guðmundur Ólafsson kemst að þessari niðurstöðu sem þú nefnir.

En nú bíðum við haustins með spenningi og sjáum hvað gerist þegar Seðlabanki Evrópu gerir sín stóru mistök, þau sem Gunnar hefur boðað og hvort Seðlabanki Íslands, fyrirgefið, Davið Oddsson ákveða að stærri meðalaskammt þurfi til að kljást við 14% verðbólguna sem við stöndum frammi fyrir núna og hækki okkar stýrivexti enn frekar (sem aftur leiðir af sér meiri verðbólgu og meiri hækkanir á mínum blessuðum lánahöfuðstól .... and on and on we go .... ) 

Karl Ólafsson, 23.7.2008 kl. 21:54

9 identicon

Það virðist vera ósköp fátt eftir Guðmund Ólafsson á netinu og ekki tekst mér að gúggla þetta svona í fljótheitum, þannig að ég get ekki vísað í neitt nema eigið mynni. Ég mæli eindregið með þætti þeirra á Fm 99,4 kl. 9-11 á föstudögum sem einnig er endurfluttur um helgar.

Þeir eru að fjalla um Rússland í 1 klst og Íslensk efnahagsmál í 1 klst. Alveg meiri háttar skemmtilegir og einnig er þeirra greining á efnahagsmálum ansi sannfærandi.

Varðandi þennan samanburð, þá er hægt að gera hann á hverjum tíma með því að bera saman vexti + verðbætur á verðtryggðum lánum við vexti á óverðtryggðum lánum, því hvort tveggja hefur verið í boði samtímis í áratugi. Oftast hefur verið ódýrara að taka verðtryggð lán, enda er það rökrétt, þess tryggara sem lánið er, þess lægri geta vextirnir verið.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 18:25

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já Sveinn, ég hugsa þessi rýrnunartrygging lækki nafnvexti því hún tryggir jú fjármagnseigandann fyrir skakkaföllum vegna verðbólgu. Afleiðingin er sú að þetta mun virka eins og svefnmeðal fyrir þá sem stýra landinu. Þeir vita að þó svo að þeir klúðri efnahagsstjórn að þá eru lánveitendur og sparifjáreigendur tryggðir. Þessvegna er hætta á að verðtryggingin virki sem koddi fyrir lélega hagstjórn. Geymsla fyrir mistök.

Þegar ég tek 30 ára húsnæðislán hérna í Danmörku þar sem vextir á svona lánum eru 7% í þeirri 4% veðbólgu sem er núna, þá fæ ég undirritaðan pappír uppá að þessir vextir eru einmitt fastir á 7% í öll þessi 30 ár. Ég get reiknað 100% með því. Stjórnmálamenn vita að ef þeir klúðra efnahagsstjórn landsins þá munu fjármagnseigendur fara á hausinn og þjóðfélagið mun stoppa því enginn fær lán því framboð á fjármagni mun stoppa. Ef hinsvegar að verðbólgan mun lækka, og þar með einnig vextir, þá mun ég innleysa lánin og endurfjármagna uppá nýtt á lægri vöxtum. Þetta kostar mig að vísu þó nokkuð fé og er alls ekki alltaf þess virði nema maður sé viss um að afföllin á nýjum bréfum á lægri vöxtum verði ekki of stór þannig að höfuðstóllinn vaxi ekki of mikið við endurfjármögnun á lægri vöxtum. En áhættan er semsagt eins og hún á að vera: henni er dreift á báða aðila - og ekki bara á annan aðilann. Þegar viðskipti fara fram veða báðir aðilar að taka áhættu. Annað er ekki sanngjarnt.

Íslenska verðtryggingin var upphaflega sett á með það fyrir augum að bæði lánsfé og tekjur lántaka væru verðtryggðar. En núna er einungis lánsfé verðtryggt því hitt var geggjun, og því mun verðbólga skrúfa enn frekar upp launakröfur í kjarasamningum.

Það þarf að afnema verðtryggingu. Það er ekki hægt eins og er en það er vel hægt þegar það er aftur komið á jafnvægi í efnahagsmálum og böndum komið á þá verðbólgu sem er núna. Þetta er vel hægt, og mun svo veita stjórnmálamönnum nauðsynlegt aðhald. Ég vil ganga svo langt að halda því fram að verðtrygging á lánsfé sé verðbólguhvetjandi því hún er koddi.

Gunnar Rögnvaldsson, 24.7.2008 kl. 19:59

11 Smámynd: Karl Ólafsson

Gunnar, takk fyrir þetta svar til Sveins. Ég gæti ekki verið þér meira sammála og ég hefði ekki getað sagt þetta með betri rökum en þú gerir hér. Ég hef einnig kynnst 'eðlilegum' fasteignalánamarkaði eins og þú lýsir honum þegar ég bjó í Englandi. Þar gat maður valið um fasta vexti, eða breytilega markaðsvexti. Ég skipti einmitt frá breytilegu láni sem leit hagstæðast út þegar ég tók það, fyrir fastvaxtalán, sem var heldur óhagstæðar á þeim tíma sem ég skipti. Það varð mér hagstæðara innan 2ja ára frá því að ég tók lánið, vegna þess að þá voru breytilegu lánin komin upp fyrir í vöxtum.

Hér upplifir maður hins vegar eilíft misgengi sem minnir mann á þann tíma sem maður sá verðtryggða lánið sitt hækka um 17% á hálfu ári á meðan laun hækkuðu um 3%. Og það var á þeim tíma sem heita átti að launin væru vísitölutryggð líka. Það var nefnilega ekki sama vísitalan notuð á lánsfjárvísitölu og launavísitölu. Síðan var launavísitölunni kippt úr sambandi.

Sveinn, ég skil ekki enn hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að verðtryggð lán séu hagstæðari vegna lægri nafnvaxta. Fyrir hvern eru þau hagstæðari?

Skoðum lítillega dæmi um 20 milljóna króna íbúðalán til 20 ára og berum saman kjörin miðað við útreikninga Lánareiknis LÍ. Til þess að gera þetta verður maður að gefa sér ákveðnar forsendur og ég vel hér að ég tel tiltölulegar hófsamar forsendur.

Verðtryggt:

Andvirði

19.297.200 kr.
  
Heildarlántökukostnaður40.079.024 kr.
Heildarupphæð sem greiða á59.376.224 kr.
Árleg hlutfallstala kostnaðar13,07 %

Afborganir af þessu láni byrja í 168þkr, en enda í 325þk. 

Skoðum síðan lán sem ætti að vera hægt að leggja að jöfnu, sem óverðtryggt jafngreiðslu lán (annuitet):

Andvirði

19.297.200 kr.
Heildarlántökukostnaður33.697.773 kr.
Heildarupphæð sem greiða á 52.994.973 kr.
Árleg hlutfallstala kostnaðar13,37 %
 

Hér eru afborganir allan tímann ca. 220.800, en þeirri afborgunarupphæð er náð og aðeins betur á 83. afborgun verðtryggða lánsins (eftir ca. 7 ár af 20).

Að lokum skulum við bera þetta saman við óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum. Þá lítur dæmið svona út:

Andvirði

19.297.200 kr.
Heildarlántökukostnaður 24.945.631 kr.
Heildarupphæð sem greiða á44.242.831 kr.
Árleg hlutfallstala kostnaðar13,53 %
 

Hér byrja afborganir í 284þkr, en lækka niður í tæp 85þkr í síðustu afborgun. Afborgun er komin niður í 220þkr í afborgun 77, en 168þkr í afborgun 140. Þetta væri náttúrulega allt hægt að setja upp í grafíska framsetningu ef maður nennti því eða hefði tíma til þess að fá af þessu skírari mynd, en ég vildi endilega heyra af því hvernig hægt er að fá út úr þessu að verðtryggða lánið geti verið hagstæðara, nema ef vera skyldi að verðbólga væri nálægt núllinu. Þegar allir þurfa að búa við verðtryggð lán, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, er þá ekki augljóst að verðtryggingin er verðbólguhvetjandi eins og Gunnar bendir á og því draumsýn ein að reikna með því að hækkun höfuðstóls verðtryggðs láns geti að jafnaði verið undir því að vera á bilinu 4-7%?

Verðtryggingin verður að fara. Því miður höfum við sennileg misst af tækifærinu til þess að afnema hana í bili, til stórtjóns fyrir meðaljóninn. Ég hef áður sagt að ef maður hefur tækifæri til þess að fá laun sín greidd í EUR, GBP, CHF, eða jafnvel USD og hefur haft aðstöðu til þess að taka lán sín í þeirri mynt sem maður fær launin í, þá væri maður til lengri tíma sennilega best settur, þrátt fyrir ákveðna áhættu í því að okkar kæra ISK næði (óeðlilegum) styrk aftur eins og hún hefur gert síðustu fáu árin.

Karl Ólafsson, 24.7.2008 kl. 23:39

12 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég sé að ég gleymdi í síðustu athugasemd að tiltaka þær forsendur sem ég gaf mér í lánareikninum. Á verðtryggða láninu reiknaði ég með 5% nafnvöxtum og 7% verðbólgu, en í báðum óverðtryggðu tilfellunum reiknaði ég með 12% vöxtum.

Karl Ólafsson, 24.7.2008 kl. 23:41

13 identicon

Ég er alveg sammála ykkur með það best væri að afnema verðtrygginguna og helst þyrfti að fastnegla vextina líka með lögum, því annars hafa bankarnir vextina svo háa að þeir dekki bæði verðbætur og vexti. Öll þjóðin væri sammála þannig tillögum. Hér hafa reyndar verið í boði EVRU lán með föstum óverðtryggðum 5 til 7% vöxtum. Þetta virðist því snúast um traust á gjaldmiðlinum.

Varla er hægt að ætlast til þess að bankarnir láni út á föstum 7% óverðtryggðum vöxtum þegar heildsöluvextirnir (stýrivextirnir) eru 15,5%. Mér sýnist Gunnar vera nokkuð ánægður með stýrivextina, þannig að bankarnir þyrftu að niðurgreiða vextina um 8,5%. Ég á ekki alveg von á því.

Varðandi þessi dæmi sem þú reiknar þá virðast þessir kostir allir vera jafn dýrir, eins og kemur fram í "Árlegri hlutfallstölu kostnaðar" sem er ca. 13% í öllum tilfellum. Afborganir virðast vera mis brattar eftir hvaða leið þú velur. Bankinn passar sitt. Þeir gæta þess að fá það sama út úr lánunum hvaða leið sem menn velja.

Þú ert með vextina í öllum tilfellum 12%. Bankarnir gera þetta ekki þannig, heldur hafa þeir óverðtryggðu vextina hærri en summu nafnvaxta og verðbólgu. Í þessu dæmi sem þú ert að reikna þá ættirðu að prufa að reikna með 5% nafnvöxtum og 7% verðbólgu, en í báðum óverðtryggðu tilfellunum að hafa 15% vexti. Eins og Guðmundur hefur bent á þá hafa bankarnir undanfarna áratugi haft þetta þannig að hagstæðara hefur verið, fyrir lántakandann, að taka verðtryggð lán. Þetta er einfaldlega hin tölulega staðreynd.

Ef ég ætti að benda á raunhæfan kost í stöðunni, þá þarf að fá sterkan erlendan banka til Íslands, sem myndi lána út með sömu kjörum og hann gerir annar staðar. Eini gallinn við þetta er að almenningur flytti öll sín viðskipti yfir í þennan banka og hinir færu fljótt á hausinn.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 09:26

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég er alveg sammála ykkur með það best væri að afnema verðtrygginguna og helst þyrfti að fastnegla vextina líka með lögum, því annars hafa bankarnir vextina svo háa að þeir dekki bæði verðbætur og vexti. Öll þjóðin væri sammála þannig tillögum. Hér hafa reyndar verið í boði EVRU lán með föstum óverðtryggðum 5 til 7% vöxtum. Þetta virðist því snúast um traust á gjaldmiðlinum.

---------------

Nei vextir verða vonandi aldrei festir með lögum, því þá myndu allir fjármunir Íslendinga flytja til annarra landa og þú sitja í draugalandi.


Varla er hægt að ætlast til þess að bankarnir láni út á föstum 7% óverðtryggðum vöxtum þegar heildsöluvextirnir (stýrivextirnir) eru 15,5%. Mér sýnist Gunnar vera nokkuð ánægður með stýrivextina, þannig að bankarnir þyrftu að niðurgreiða vextina um 8,5%. Ég á ekki alveg von á því.

----------------

Bankarnir munu alltaf lána á þeim kjörum sem stýrivextir seðlabanka munu leyfa þeim plús þeirra eigin þénustuálag. Ef það er engin verðtrygging þá munu bankar og lánastofnanir halda að sér höndum á verðbólgutímum og því mun mikil verðbólga eiga sér erfiðara uppdráttar og falla hraðar því hjólin munu hægja hraðrar á sér.

Eins og er þá eru eignlega tvö hagkerfi í gangi á Íslandi: a) hið verðtryggða og svo b) hið óverðtryggða. Hvort hagkerfið heldur þú að sé fljótara að hægja á sér þegar verðbólga fer upp fyrir þolmörk neytenda og lánveitenda. Það er náttúrlega hið óverðtryggða sem stoppar fyrst því þar getur þú ekki velt vandanum á undan þér. Þú verður að greiða bólguna við kassa eitt, strax. Í hinu verðtryggða hagkerfi er þér gefinn kostur á að ýta vandanum á undan þér til þess eins að þurfa að glíma við hann seinna, og þetta ýtir því undir að sé hægt að troða marvaðann marrandi í hálfu kafi þegar þú ættir alls ekki að vera að fara í bankann til að biðja um lán fyrir húsnæði. Bæði bensíngjöf og bremsur þurfa að virka í hagkerfum, allt efir þeim aðstæðum sem gilda þá stundina.

En semsagt, það eru alltaf kostir og gallar við allt. Verðtyggingin var nauðsynleg á sínum tíma þegar það þurfti að ná niður 120% óðaverðbólgu í lokuðu hagkerfi þar sem fjármagn og sparifé allra brann upp á verðbólgubálinu í þjóðfélagi sem var hálf-kommúnistískt, og þar sem frelsi fjármagns mjög takmarkað og flestir bankar í eigu ríkisins.

En aðstæðurnar eru sem betur fer allt aðrar í dag.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 25.7.2008 kl. 11:18

15 identicon

Þetta eru einfaldlega útúrsnúningar hjá þér Gunnar.

Það sem ég er að segja, er að til afnám verðtryggingar skili einhverju þá þarf að festa vextina, annars hafa bankarnir þá einfaldlega miklu hærri ef þeir geta ekki verðtryggt.

Afnám verðtryggingar mun því skila almenningi verri kjörum en það hefur í dag, nema vextir séu fastir líka. Ef þú vilt það ekki þá gengur ekki að afnema verðtryggingu.  

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband