Zap - Hausmynd

Zap

Metafórur Seðlabankastjóra

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri, hefur síðustu daga notað 2 metafórur til þess að réttlæta hækkun stýrivaxta. Ekki er sannfæringin fyrir gagnsemi þessara aðgerða meiri en svo að það þarf að mata rökstuðninginn ofan í landslýð með metafórum sem allir eiga að grípa og meðtaka. Svo eiga menn bara að bukta sig og kaupa sér meira va.... nei, sleppum þessari metafóru kannski.

'Með illu skal illt út reka'
Hér er þó alla vega viðurkennt illt eðli stýrivaxtahækkana.

 'Það þekkja það allir að of lítill lyfjaskammtur getur gert illt verra og því þarf að auka skammtinn til þess að lækningin náist'
En þekkja það ekki líka allir að ein tegund af lyfi getur haft aukaverkanir sem kalla á að gefin sé önnur lyfjategund til að taka á þeim aukaverkunum. Þá getur komið fram enn önnur aukaverkun, sem kallar á enn eina lyfjategund og vítahringur myndast. Að auka við skammtinn gerir aukaverkanirnar oft bara verri.

Vaxtahækkun veldur því óhjákvæmilega að það verður dýrara að eignast húsnæði, sem aftur hefur áhrif á vísitöluna og hækkar því höfuðstól verðtryggðra skulda. Því er eina von Seðlabankans til þess að stýrivaxtahækkunin virki á verðbólgu að húsnæði lækki verulega í verði og því hentar þeim ágætlega að spá 30% lækkun húsnæðis. Fjármálafyrirtæki eru ekki alveg eins hrifin af því að húsnæði lækki, því þau sitja uppi með gríðarlegt magn af óseldu húsnæði sem keypt hefur verið í heildsölu af verktökum. Ég er þeirrar skoðunar að fjármálafyrirtæki og fjárfestar sitji á tímasprengju sem á eftir að springa .... nei, afsakið enn ein metafóran. Byrjum aftur, ég er þeirrar skoðunar að fjármálafyrirtækin sitji uppi með næstu holskefluna sem eftir á að skella á íslenska efnahagslífinu (það er sennilega ekkert hægt að segja þetta öðruvísi en með einhverri myndlíkingu).  

Í dag seljast eignir ekki. Þegar þær byrja að seljast aftur má reikna með að verð eignanna þrýstist að einhverju marki niður. Hvaða áhrif hefur það á stakan banka ef t.d. þúsund íbúðir í eigu hans lækka um eina milljón að meðaltali, og seljast á 1-2 næstu árum? Bankinn situr uppi með fjármagnskostnaðinn í þennan tima og fær 1 milljarði minni framlegð af eignunum. Og hér er ég bara að leika mér með lágar tölur. Ég ber ekki skynbragð á hverjar hinar raunverulegu tölur eru, en ég tel fullvíst að þær séu skuggalegar.  Ef 30% lækkunin verður að veruleika lækkar íbúð sem í dag er metin á 30 kúlur niður í 21 kúlu. Mismunurinn 9 milljónir og þá er ég hræddur um að heildsalinn sé búinn að tapa allri sinni framlegð og meira til.

Svona getur maður málað sig út í svörtustu bölsýni. En Þorvaldur Gylfason hefur bent á nokkur skref í átt til lausnar (þ.e. í átt til aukins stöðugleika í efnahagslífinu) og að mínu mati er vert að hlusta á hans sjónarmið.

1. Leggja skal niður þá hefð að Seðlabankinn sé elliheimili þingmanna og ráðherra. Skipa á hæfasta fagfólkið í stöður Seðlabankastjóra. Sömuleiðis eiga fleiri hagsmunaaðilar að koma að skipun manna í bankaráð Seðlabankans.

2. Það á að lýsa því yfir strax að Ísland ætli í aðildarviðræður við ESB. Það jafngildir ekki því að Ísland muni ganga í ESB, en það er ekki hægt að taka ákvörðun um slíkt fyrr en sótt hefur verið um og samið. Ákvörðunina sem slíka á svo að bera undir þjóðina. Ég er reyndar á móti því að það sé borið undir þjóðina hvort sækja eigi um eða ekki. Það er óþarfi, því það ætti að vera nóg að bera ákvörðun um staðfestingu samnings undir þjóðina.

3. Jafnhliða 2 á að setja stefnuna á að ganga í myntbandalag Evrusvæðisins, en á sama hátt og í 2 á ákvörðunin að vera í höndum þjóðarinnar, ekki Seðlabankastjóra og 'vara'formanns hans og jábræðra (og ákvörðunin á ekki heldur að vera í höndum 'nei, við erum á móti' flokksins).

En ekkert af þessu leysir þó þetta yfirvofandi vandamál fasteignamarkaðarins, sem ég lýsti hér að ofan. Það eina sem ég sé að geti komið í veg fyrir algert hrun þar er að til komi innspýting fjármagns (t.d. með tilkomu erlends banka, eða að lausafjárkreppa bankanna leysist) þ.a. hægt verði að dreifa lækkun húsnæðis, ef hún verður, yfir lengri tíma. Og hér tala ég náttúrulega hálft í hvoru gegn mínum eigin hagsmunum, því lækkun húsnæðis á að lækka afborganirnar af mínum skuldum að einhverju marki. En það hagnast enginn á því að fjármálamarkaðurinn hérlendis hrynji.

Þetta er nú orðið meira bullið hjá mér. Ég er ekkert viss um hvort ég eigi að birta þetta, en ef einhver skilur hvað ég er að fara væri gaman að heyra það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband