Zap - Hausmynd

Zap

Krónan styrktist ekki, Pundið veiktist ...

Í Bretlandi er gengi Evrunnar á móti Sterlingspundinu nú 1:1 í fyrsta sinn í sögunni og búist er við áframhaldandi falli á gengi pundsins.

Án þess að ég hafi lagst yfir gröf og upplýsingar um innbyrðis gengisbreytingar sem standa á bak við þessa fullyrðingu í fyrirsögn þessarar fréttar ætla ég að halda því fram hér að mín fyrirsögn sé réttari.


mbl.is Krónan styrktist í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég minni enn á að ...

þessir 6-7 milljarðar sem Gylfi talar um að bætist ofan á verðtryggðan höfuðstól íbúðalána landsmanna eru peningar sem ekki eru til í hagkerfinu!! Hagfræðin kallar slíkt peningaprentun að ég held, en peningaprentun leiðir af sér meiri .... jú verðbólgu aftur.
mbl.is Forsætisráðherra fer ekki með rétt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að skoða frekari lausnir?

Í Kastljósi kvöldsins reyndu þau Hallur Magnússon ráðgjafi og Guðrún Johnsen hagfræðingur að höfða til samkenndar hjá fólki í þeirri stöðu sem lýst var í máli Vésteins Gauta Haukssonar í þættinum í gær. Hallur og Guðrún lýstu samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum þess ef fjöldi fólks færi þessa leið sem Vésteinn hyggst gera. Sigmar spurði á móti eitthvað á þá leið hvort fólk geti verið að hafa áhyggjur af slíku í þeirri stöðu sem það er.

Mér þótti ágætt að hlusta á rök Halls og Guðrúnar og vitanlega vöktu þau mann til enn frekari umhugsunar um hvaða möguleikar eru í stöðunni eins og hún er. Vandamálið er hins vegar það að það er fullt af fólki að leggja fram fullt af hugmyndum um hvernig hægt sé að vinna úr þessum málum, en að mínu mati er ekki að sjá að til þess sé raunverulegur vilji hjá stjórnvöldum að grípa til raunhæfra aðgerða. Greiðslujöfnunarvísitalan tel ég að geymi ekki lausnina og því fer fjarri að allar lausnir sem stungið er upp á geti mögulega virkað.

En, engu að síður, þær hugmyndir Guðrúnar og annarra hagfræðinga sem ræddar voru í kvöld geta e.t.v. skilað einhverju, þ.e. að settur verði á stofn fjárfestingasjóður sem kæmi inn sem meðeigandi með húseigendum, tímabundið. Spurningin er hvernig þetta yrði útfært og hvaða kröfur yrðu gerðar þegar að því kæmi að húseigandinn vildi reyna að eignast alla eignina aftur. Guðrún sagði að hún aðhylltist þá stefnu að láta markaðslögmálin vinna úr því og það ætti að vera hægt að fallast á það, en ég skil það þannig að ekki  verður þá einfaldlega sett uppfærð verðtryggð skuld beint á höfuðstól skuldarans aftur, eins og greiðslujöfnunarvísitölunni er ætlað að gera. Ef markaðurinn ræður á að vera að hægt að bjóða í eignarhlutinn á metnu markaðsverði og fjármagna kaupin á íbúðalánamarkaði sem vonandi verður kominn í heilbrigðari skorður. Hallur endurtók nokkrum sinnum að hann liti svo á að endurskoða ætti ráðstafanir og taka á málunum eftir mætti eftir t.d. 3 ár.

Tvö atriði stóðu síðan aðeins upp úr að mínu mati í þessari umræðu. Fyrra atriðið er nokkuð sem margir hafa verið að reyna að benda á upp á síðkastið. Guðrún minntist á það að eignir rýrni í kreppuástandi eins og nú ríkir. Hún sagði, allar eignir rýrna: fasteignir og hlutabréf falla í verði og ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkar. En hér er ekki öll sagan sögð, því ekki er að sjá að ávöxtunarkrafa verðtryggðra fasteignaveðskulda lækki hætishót. Hún stendur heldur ekki í stað, heldur einfaldlega hækkar bara sjálfvirkt. Það er eitthvað skakkt í þessu öllu.

Seinna atriðið var það hvað gerist ef við skiptum um gjaldmiðil. Það var ekki farið nógu djúpt í þetta atriði, en Hallur minntist á að ef höfuðstóll er umreiknaður í t.d. Evru á því lága gengi sem við búum við í dag verður lánið í raun tiltölulega lágt í Evrum talið og möguleiki til eignarmyndunar eykst með hækkun húsnæðis á markaði, eins og búast mætti við. Þetta er áhugavert, en við þetta bætist síðan að allar líkur eru á því að verðtryggingin flytjist ekki með yfir á nýja mynt. Stefnum að þessu!!!

Spurningin í mínum huga er hins vegar hvort einhverjir í stjórnkerfinu séu að hlusta á þessar hugmyndir og velta þeim fyrir sér. Á því getur oltið hvort hundruð eða þúsundir húseigenda grípa til þeirra ráðstafana sem Vésteinn boðaði, með þeim afleiðingum sem það hefði. Ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér upp á síðkastið, án niðurstöðu, en hallast að því þessa stundina að rétt sé að bíða aðeins og sjá hvort einhverjar raunhæfar lausnir til viðbótar skjóti upp kollinum. Verst að biðin kostar líklega um hálfa milljón á mánuði.

 


Eru bankarnir tilbúnir til þess að leysa til sín fasteignir - Strax?

Vésteinn Gauti Hauksson lagði fram í Kastljósinu í kvöld góð rök fyrir því að það myndi henta hans hagsmunum best að hætta að borga af íbúð sinni strax og fá fram nauðungarsölu hið fyrsta. Þetta myndi spara honum milljónir miðað við að þessi sama niðurstaða fengist í gegn að ári liðnu, miðað við núverandi forsendur.

Ég get ekki annað en tekið undir röksemdir Vésteins, því ég þekki þessar tölur sem hann nefnir allt of vel úr mínu eigin bókhaldi, nema hvað mínar tölur eru öllu hærri. Ég reyndi að selja mína eign fyrir rúmu ári síðan, árangurslaust. Hefði líklega betur tekið eina tilboðinu sem barst, því það hefði munað líklega einum 8 milljónum miðað við stöðuna í dag, fyrir utan að verðmat hússins er óþekkt og miklu lægri stærð í dag ef að líkum lætur.

Vésteinn treystir sér engu að síður ekki til þess að dæma um það hvort verðtryggingin sé bölvaldurinn hér. Ég treysti mér til þess að segja að svo sé, eins og sjá má af nýlegum færslum mínum. En ég ætla ekki að eyða púðri í þá umræðu hér í kvöld. Mig langar hins vegar að vita hversu margar fjölskyldur eru í þessari sömu aðstöðu?

Ég tel reyndar að hér sé ekki um tugi eða hundruðir fjölskyldna að ræða, en spurningin er hversu mörg þúsund fjölskyldur þetta eru? Stöðugt er klifað á því að ekki verði þeim öllum bjargað og ekki megi gefa eftir og afskrifa svo mikið sem krónu af fólki sem vitandi vits skrifaði undir þær skuldbindingar sem það nú vill losna undan. Gott og vel, en hversu lengi á þá að herða hengingarólina á þeim og skrifa inn á fjölskyldurnar nýjar milljónir í skuld sem ekki er til í hagkerfinu í dag og verður ekki til næstu árin hjá þessu fólki? Eins og Vésteinn benti á er í lánasamningum ákvæði um það hvað gerist ef greiðslufall verður. Eignin verður tekin af skuldaranum. Nú þarf að láta reyna á hvort ekki sé hreinlega hægt að fá flýtimeðferð á slíkum úrlausnum með gagnkvæmum samningum, þ.a. unnt verði að lágmarka óhjákvæmilegt tjón fjölskyldnanna. Eða eru það bara skuldareigendur sem eiga rétt á því að verja hagsmuni sína með beltum og axlaböndum? ILS hefur leyfi til að leysa til sín húsnæði og leigja þeim sem þar búa, en eru bankarnir tilbúnir til þess líka?


Hvað hefur Styrmir á móti Maastricht skilyrðunum fimm?

(Færsla uppfærð eftir að Haraldur Hansson leiðrétti skilning minn á ónákvæmri frétt um ræðuefni Styrmis) 

Styrmir Gunnarsson reynir nú að stýra fyrirfram niðurstöðu landsfundar Íhaldsins varðandi ESB aðildarmálið. Hann boðar baráttu gegn aðild og telur að Sjálfstæðisflokkurinn muni styrkjast og sameinast í þeirri baráttu.

Þó er haft eftir Styrmi að þjóðin muni hafa lokaorðið um þá ákvörðun hvort gengið verði í sambandið eða ekki. Mér er því spurn hvort ekki væri rétt að flokkurinn sem slíkur legði fram sína skoðun á málinu, sem samþykkt væri með meirihlutakosningu á þessum væntanlega landsfundi, en tæki fram að flokkurinn rúmaði skiptar skoðanir um málið og flokksmenn skyldu greiða atkvæði með eigin sannfæringu þegar að aðildarkosningu kemur. Er ekki líklegt að einungis þannig geti flokkurinn varist hugsanlegum klofningi og gildir það reyndar líklega um flesta núverandi flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi.

 Styrmir gerir einnig að umtalsefni yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar og Maastrichtskilyrðin fimm. Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér eftir umræður helgarinnar í Silfri Egils, hverjir eigi í dag stærstu veðin í veiðiheimildum á Íslandsmiðum? Íslendingar eða erlendir bankar og fjárfestar? Ef erlendir aðilar eiga stór veð í veiðiheimildunum, hvar stendur þá vald okkar yfir auðlindum okkar nákvæmlega? Og hvað verður um það litla sem eftir er af orðspori okkar þegar neyðarlög verða sett að nýju til að afnema veiðiheimildir til þess að verjast því að þær fari frá okkur vegna lögtaks erlendra aðila í þeim?

Og hver eru svo þessi Maastrichtskilyrði sem Styrmir gerði að umtalsefni? Skv. t.d. þessari heimild, eru skilyrðin í grófum dráttum þessi:

  1. Verðstöðugleiki. Verðbólga þess ríkis sem ætlar að ganga í myntsamstarfið má ekki fara meira en 1,5 prósentustigum fram úr meðalverðbólgu þeirra þriggja ríkja innan samstarfsins sem minnsta verðbólgu hafa á (að mig minnir) þriggja eða fimm ára tímabili.
  2. Stöðugleiki langtíma vaxtastigs. Sama kerfi og í 1. með 2 prósentustiga fráviki. Á sínum tíma þýddi þetta að stýrivextir hefðu ekki mátt fara upp fyrir 9,8%.
  3. Stöðugleiki gjaldmiðils. Gjaldmiðill má ekki sveiflast meira en 2,5% miðað við hæstu og lægstu gildi Evrunnar innan ársins. Reyndar leyfir samningurinn aðgerðir sem eiga að hjálpa til við að halda þetta skilyrði.
  4. Fjárlagahalli má ekki vera meiri en 3% af þjóðarframleiðslu (GDP).
  5. Síðasta skilyrðið er að sögn það erfiðasta að uppfylla, en það snýr að uppsöfnuðum opinberum skuldum, sem ekki mega nema meira en 60% af þjóðarframleiðslu.
Nú er mér spurn, hvert af þessum skilyrðum er andstætt, óásættanlegt og hættulegt íslenskum hagsmunum? Eða er kannski vandamálið sem Styrmir sér í þessum 5 skilyrðum það að hann treystir ekki íslenskum stjórnmálamönnum til þess að stýra þjóðarbúinu með þeim hætti að þessi skilyrði geti náðst?
(Hér kemur aðalleiðréttingin: Styrmir talaði víst ekki um þessi skilyrði sem vandamál, nema að því marki að það mun taka Íslendinga 5-10 ár að uppfylla þau. Þess vegna er einhliða upptaka Evru strax í besta falli óráðleg. Ég get í sjálfu sér tekið undir það sjónarmið, en að öðru leyti tel ég að grein mín standi óhögguð og þá sér í lagi það sem hér kemur á eftir. Vegna þessarar leiðréttingar lagaði ég örlítið til textann á undan upptalningunni á skilyrðunum (feitletrað))

Ég hefði haldið að óháð því hvort við gengjum í EMU myntbandalagið eða ekki, þá væri okkur hollt að setja okkur það markmið að uppfylla öll þessi 5 skilyrði. Hvað finnst ykkur?

En hvernig halda menn að það væri hægt að stýra okkur inn í þessi markmið og uppfylla þessi skilyrði ef við höldum okkur áfram við hina verðtryggðu íslensku krónu? Verðtryggingin vinnur óneitanlega beinlínis gegn sumum þessara skilyrða og gerir önnur erfiðari viðureignar.


Leiðindasiður

Í leti minni ætla ég að leyfa mér að taka hér upp þann leiðindasið að geyma í sér færslu tilvísanir í umræður annars staðar þar sem ég hef skellt inn athugasemdum.  

Byrjum á þessari færslu Púkans, en skarpskyggn sem hann oft er get ég ekki fallist á hans sjónarmið og það sem er ekki hægt að kalla annað en fordóma gagnvart fólki sem af einhverjum ástæðum hefur komið sér í skuldir sem nú eru orðnar þeim ofviða. Þessi færsla er hér.

Síðan er það færsla Hrannars Björns Arnarssonar, en hann er aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Í færslu sinni telur hann að menn séu að krefjast skottulækninga í stað raunhæfra aðgerða til bjargar heimilum landsins. Hans færsla er hér.

Það sem fer mest í taugarnar á mér í málflutningi þeirra sem verja verðtrygginguna fram í rauðan dauðann eru smjörklípuröksemdir þeirra og hvernig þeir tala niður til þeirra sem vilja raunhæfa endurskoðun verðtryggingakerfisins og þeirra sem benda á leiðir sem hægt væri jafnvel að fara í átt að afnámi kerfisins.

Ég hef ekki nennu til þess í kvöld að taka þetta saman eina ferðina enn, en áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að gera það síðar, sér í lagi ef umræðan í þjóðfélaginu heldur áfram á þeim nótum sem hún hefur verið. Það er ekki að sjá að það sé til þess nokkur vilji meðal ráðandi afla að breyta nokkru sem gæti komið sér vel fólk sem er að reyna að eignast húsnæði. Það verður ekki nóg að ganga í gegnum þingkosningar til að ná fram breytingu þar á, heldur mun verða nauðsynlegt að skipta út forystufólki í verkalýðshreyfingunni líka til þess að hægt verði að koma nýjum sjónarmiðum að innan lífeyrissjóðanna.


Frábær málflutningur Benedikts

Það er ekki lengur hægt að afgreiða þetta mál með því að segja að það sé ekki hægt að hreyfa við verðtryggingunni. Það hafa komið fram margar hugmyndir um hvernig það mætti gera. Það hafa ekki komið fram sterk rök fyrir því að þetta sé ekki hægt.

Ekki voru mótrök Árna Matt að mínu mati sterk. Enn er klifað á því að verðtryggingin standi undir frekari lánveitingum. Ef það er satt er um stórhættulegt bólukerfi að ræða, en eins og við ættum að vera farin að þekkja af reynslunni springa allar bólur. Allar! Það er ekki hægt að búa til bólukerfi sem bara heldur áfram að bólgna og bólgna án þess að nokkru sinni sé hleypt af þrýstingi. Annars bara springur kerfið og það er það sem verðtryggingin er að gera núna. Hún springur með því að fjöldinn allur af fjölskyldum mun missa eignir sínar og mikill fjöldi þeirra mun yfirgefa landið.

Hvet alla til að kynna sér betur rök með og á móti verðtryggingu með opnum huga. Verðtrygging er ekki náttúrulögmál og það er ástæða fyrir því að þetta er nánast séríslenskt fyrirbæri!


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjakkað í farinu (verðtryggingarumræða)

Ég sé það betur með hverjum deginum að verðtryggingarumræðan er enn á byrjunarstigi hér á landi. Mér þykir ótrúlegt að horfa upp á sum réttlætingarrökin fyrir því að viðhalda þessu kerfi sem fundið var upp hér á landi seint á áttunda áratugnum. Nú má vel vera að þetta kerfi hafi verið hannað eftir einhverri erlendri fyrirmynd, því mér hefur skilist að kerfið þekkist á tveimur öðrum stöðum í heiminum. Tveimur stöðum! Kannski felst næsta útrás Íslendinga í því að selja þetta frábæra kerfi til annarra hagkerfa í heiminum, því þetta er svo frábært og virkar svo vel. "Tryggðu aurinn þinn fyrir rýrnun með íslenska verðtryggingarkerfinu! NSÍ." gæti auglýsing nýja útrásar(seðla)bankans hljómað.

Tökum nú fyrir örfá atriði sem nefnd hafa verið sem rökstuðningur fyrir því að við getum ekki afnumið verðtrygginguna núna (og reyndar er þá aldrei sagt hvenær það yrði hægt).

Ríkið verður af 60-120, jafnvel 200 milljarða tekjum næsta hálfa árið.
Hér er átt við það að eign ILS í útlánum nemi 1200 milljörðum og mun eiga að hækka um a.m.k 60-120 milljarða næsta hálfa árið miðað við mjög varlega áætlaðar verðbólgutölur. E.t.v. verður um að ræða 200 milljarða. Sjá menn virkilega ekki hvað þetta er mikil rökvilla? Þegar 200 milljörðum er bætt inn í hagkerfið hlýtur að vakna spurningin um hvaðan þeir peningar komi, eða ? Þessir 200 milljarðar eru í dag ekki til í hagkerfinu, en þarna verða þeir til, án þess að til komi verðmætamyndun á móti. Þetta er að ég held það sem Jón Daníelsson, hagfræðingur hjá LSE, mundi kalla peningaprentun. 
Og menn gerðu hálfpartinn grín að Jóni þegar hann stakk upp á því að SÍ ætti e.t.v. að íhuga það að prenta smáslatta af peningum. Hann tók skírt fram að það myndi vissulega valda verðbólguskoti, sem óneitanlega kæmi þá óþægilega inn í verðtrygginguna. En ef þetta er rétt hjá honum, hverju valda þá 200 milljarðar sem verða til í hagkerfinu með tilstilli verðtryggingarinnar vegna hinnar væntu verðbólgu næstu 6 mánuðina (sem spáð er án þess að SÍ prenti peninga)? Ó, verðbólguskoti til viðbótar, sem aftur fer inn í verðtrygginguna ... og svo aftur ... Hvernig halda menn að það sé hægt að stöðva þetta? Og hvernig halda menn að þetta fari með heimilin og fyrirtækin?
Svo er bætt um betur og sagt að þetta séu peningarnir sem sjái fyrir veltunni þ.e. viðhaldi útlánagetu ILS. Í alvöru? ILS er sem sagt rekið svona nánast eins og pýramídakerfi, eða ?
Ég er farinn að líkja verðtryggingunni við önnur keimlík bólukerfi (eða blöðru). Erum við ekki enn farin að viðurkenna það að allar bólur og blöðrur sem haldir er áfram að blása í, springa á endanum? Hvar ætlum við að láta verðtryggingarblöðruna springa?

Verðtrygging er sanngjörn því hún viðheldur verðmæti þess fjár sem lánað er út. Þannig fær lánveitandi til baka sömu verðmæti og hann lánaði út, auk leigugjaldsins af fénu (vaxtanna).
Ok, þetta eru rök sem eru dálítið erfið hvað varðar að snúa sannfæringu manna. En, ég hef mína sannfæringu hér. Ég óska hins vegar innilega eftir innleggi og útskýringum hagfræðinga hér.
Sjóður eða einstaklingur sem á fé, ber ábyrgð á þessu fé. Hann hlýtur að leitast við að varðveita sitt fé og ávaxta það, ef kostur er. Í tilfelli sjóðs ber honum beinlínis skylda til að ávaxta féð, vegna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Til þess að varðveita og ávaxta fé þarf stöðugt að vega og meta áhættuþætti og ávöxtunarkjör sem í boði eru með mismunandi ávöxtunarleiðum. Í þessu felst að fjárfest er í steinsteypu, hlutabréfum, skuldabréfum, hrávöru (ekki mikill markaður með slíkt hérlendis) o.s.frv. Ef í boði er síðan einn valkostur enn sem er 100% tryggður gegn rýrnun, er eðlilegt að slíkur kostur sé álitinn álitlegur og jafnframt eðlilegt að tregða sé til þess að sleppa taki á slíkum kostakjörum. Sé þessi kostur hins vegar útilokaður af markaðinum hljóta fjárfestingar að leita í og dreifast á hina hefðbundnari kosti.
Það virðist vera dálítið ríkjandi sjónarmið talsmanna verðtryggingarinnar að fjármagnseigandinn eigi rétt á því að fé hans rýrni ekki. Það er að mínu mati ekki réttmætt sjónarmið. Ef fé er geymt undir kodda, rýrnar verðgildi þess í verðbólgu. Ef fé er lánað út, fást af því leigutekjur (vextir) sem skapa gróða, eða í versta falli, ef verðbólga er meiri en sem nemur vaxtastigi, rýrnar það minna en ella. Sé féð lagt í áhættusama fjárfestingu er alltaf sú hætta fyrir hendi að það glatist. Hér þarf fjármagnseigandinn einfaldlega að ná jafnvægi í dreifingu áhættu þ.a. fé hans rýrni ekki og ávöxtun náist. Þetta getur verið mikil vinna, en þetta er það sem fjárstýring gengur út á. Verðtrygging er ekkert annað en sjálfstýring.

Lífeyrissjóðirnir og ILS myndu ekki geta borið afnám verðtryggingarinnar.
Hér vísa ég til punktanna tveggja hér á undan. Þar fyrir utan þykja mér þessi rök bera vott um vonleysi, hræðslu og kjarkleysi til þess að taka á hlutum og breyta þeim. Ef það er rétt að sjóðirnir þoli ekki afnám verðtryggingar, þá eru þeir í svipaðri afneitun núna og bankarnir voru í alveg fram á síðasta dag. Munurinn er sá að bankarnir fengu ekki 'fixið' sitt frá erlendum bönkum, en það styttist í þann tíma að sjóðirnir fái ekki 'fixið' sitt vegna þess að fasteignaverð er hrunið og lánþegar þeirra sitja uppi með höfuðstól lána sem vaxinn er þeim langt yfir höfuð. Tap og hrun (sprenging blöðrunnar) eru óhjákvæmilegt. Bara spurning um tíma.

Ef verðtrygging er tekin af yrðu vextir óbærilega háir.
Vissulega! Í byrjun alla vega. En það sér það hver maður að það getur ekki verið viðvarandi ástand. Í þessari staðhæfingu felst uppgjöf fyrir því að þetta vaxtastig verði að vera hátt hér á Íslandi og þá mörgum sinnum hærra en alls staðar í kringum okkur. En veltum fyrir okkur tækifærinu núna. Það eru engin útlán í boði. Afnemum verðtryggingu af nýjum lánum og sjáum hvað gerist. Þegar útlán fara að bjóðast á ný, munu þau verða á fáranlega háum vöxtum þ.a. lánþegar hafa ekki efni á háum lánum. Því verður lítill hraði í fjárfestingum til að byrja með. Það ætti að verða til þess að verðbólga hjaðnaði hratt (að því gefnu að stöðugleiki sé kominn á í gengi og öðrum þáttum) og vaxtastig yrði lækkað hratt til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik. Jafnvægi á að geta náðst á viðráðanlegu vaxtastig og með viðráðanlegri verðbólgu á einhverjum punkti. Draumórar? Ef til vill, en heilbrigðari draumur en sú tálsýn að verðtrygging sjái til þess að hlutirnir geti gengið áfram hér og bólgnað endalaust.

Innlán myndu leggjast af ef ekki kæmu til verðtryggðir innlánsreikningar
Hef svarað þessu áður í eldri færslu.

Hér hef ég einblínt á rök sem heyrst hafa fyrir viðhaldi verðtryggingarkerfisins. Vísa í eldri færslur mínar fyrir beinum rökum gegn verðtryggingu.  

Ég geri mér grein fyrir að ég fer að hljóma eins og gömul plata, en ég hvet fólk til þess að kynna sér rök mín og annarra gegn verðtryggingunni og sér í lagi hvernig hægt er að andmæla rökum sem vísað hefur verið til verðtryggingunni til varnar. T.d. er hér ein af mínum færslum. Ég ítrekaði beiðni um rök og mótrök hér og fékk nokkur svör frá aðilum sem eru hliðhollir verðtryggingunni með tilvísunum í ágætis greinar um fyrirbærið. Ég held í sjálfu sér að ég hafi á einn eða annan hátt lagt fram mótrök gegn flestum rökum sem mæla með verðtryggingu í einhverjum af færslum mínum um þessi mál upp á síðkastið, en ef upp á vantar er sjálfsagt að reyna að bæta úr því. Í þessari færslu minni vísa ég í grein á Deiglan.is, þar sem ég andmælti greinarhöfundi í athugasemd.

Ég hvet alla til þess að kynna sér þessi mál til hlítar frá báðum hliðum og velta síðan fyrir sér nokkrum grundvallarspurningum:

1. Hvaða áhrif hefur prentun (þ.e. innspýting) peninga inn í hagkerfi?

2. Hvaðan koma peningar sem bætt er inn í hagkerfi?

3. Telst markaður frjáls ef aðeins annar aðili samnings um viðskipti tekur á sig alla áhættu með gerð samningsins og það er alltaf sami aðilinn sem tekur áhættuna?

4. Hvernig er hægt að viðhalda jafnvægi í vöruskiptajöfnuði við útlönd? 

Ég læt þetta liggja hér ósvarað í bili, en legg til mína tillögu að svörum við þessu í athugasemd síðar, ef umræður skapast (mér hefur reyndar aldrei tekist að skapa líflegar umræður, en það er allt í lagi. Ég er ekki síst að þessu fyrir mig).


Af hverju þarf spurningin um ESB að valda flokkadrætti?

Framsókn jaðrar við klofning v. spurningarinnar um ESB aðild. Íhaldið titrar v. stuðnings atvinnulífsins við upptöku nýs gjaldmiðils. Samfylkingin inniheldur fólk sem efast um ágæti aðildar, o.s.fr.

Að mínu mati er óþarfi að láta spurninguna um aðildarviðræður við ESB kljúfa einingu innan flokka. Allir flokkar, án undantekningar að ég held, eru skiptir hvað varðar afstöðu fólks til aðildar að ESB. Hver er þá lausnin? Skipa sínum liðsmönnum að hlýða forystunni og taka undir þá afstöðu sem þeir  standa fyrir (eða skipta um forystu eins og er að gerast í Framsókn)? Ég held ekki, þetta er það sem klýfur flokka og þetta mál er nógu stórt til þess að kljúfa flokka, það er ljóst.

Eina svarið er að flokkar eiga að ræða opinskátt um málið innan sinna raða. Flokkarnir eiga allir að leyfa öndverðar skoðanir sinna félagsmanna í þessu atriði. Það eina sem þeir þurfa að sammælast um er að lýðræðið skuli ráða. Í því felst að ganga til aðildarviðræðna og hefja umsóknarferlið. Þegar samningur liggur fyrir á svo að láta þjóðina kjósa um aðild. Aðeins á því stigi er hægt að taka upplýsta ákvörðun á grundvelli þess að allar forsendur eiga þá að liggja ljósar fyrir.

Ákvörðun um aðildarviðræður, hvað þá aðild, er ekki hægt að taka af fulltrúum sem við kjósum. Til þess er málið of stórt. Þjóðin verður að fá að kjósa um aðild. Baráttumenn beggja sjónarmiða beita alhæfingum í rökum sínum og báðir aðilar gerast sekir um blindni og hroka í áróðri fyrir sínum málstað. Hvorugur þessara hópa á rétt á að taka ákvörðun fyrir alla þjóðina.


Er nýr flokkur í burðarliðnum???

Bloggarinn Halla Rut hvetur hér í færslu sinni kjósendur til þess að fylkja liði um Vinstri Græna í ljósi þeirra atburða sem riðið hafa yfir þjóðina. Ber þar nýrra við þar sem Halla hefur hingað til talað máli Frjálslyndra.

Í athugasemdum ýjar hún hins vegar að því að nýr stjórnmálaflokkur kunni að líta dagsins ljós í náinni framtíð. Því stóðst ég ekki freistinguna að spyrja aðeins nánar út í stefnuskrá slíks nýs flokks. Ég lagði fram þennan 6 atriða lista sem hér fer á eftir og lýsti því yfir að ef þessi nýi flokkur hefði þessi mál á stefnuskrá sinni ætti hann atkvæði mitt víst. Halla Rut virðist í meginatriðum sammála þessum lista og væri nú áhugavert að sjá hvort svo er um fleiri og þá hversu marga?

Listinn er hér, nákvæmlega eins og ég lagði hann fram fyrst, en auðvitað þarf að skýra betur út einstök atriði. Geymi það þar til síðar, ef umræður skapast um þetta: 

1. Afnám verðtryggingar?
2. Afnám kvótakerfisins í núverandi mynd?
3. Nýjan gjaldmiðil?
4. Aðildarviðræður og e.t.v. umsókn um aðild að ESB (ath. viðræður og umsókn er ekki það sama og að gengið sé blint inn í ESB)?
5. Endurskoðun peningamálastefnu (lesist breytingu á stjórn Seðlabanka)?
6. Umhverfis- og mannvæn atvinnustefna, hvað sem það þýðir í dag?

Ég tel að óreyndu að flestir ef ekki allir geti fundið 1-2 atriði á þessum lista sem þeir eru sammála, en sennilega geta líka ákaflega margir fundið þarna 1-2 atriði sem þeir telja sig alls ekki geta sætt sig við á nokkurn hátt og vilja e.t.v. frekar berjast fyrir öndverðum málstað þess atriðis. Þess vegna er það nú svo að það er erfitt mál að búa til nýtt stjórnmálaafl sem nær því að verða nógu burðugt til þess að hafa áhrif til breytinga hér á landi. En ef einhvern tímann er jarðvegur fyrir slíku er það e.t.v. núna. Ég fyrir mitt leyti (alger félagsskítur sem ég almennt er), væri til í að vinna að einhverju leyti að stofnun slíks flokks, en eins og ég sagði í athugasemd hjá Höllu, þá veit ég ekki hvort ég væri tilbúinn í málamiðlun um eitt einasta atriði af listanum. Þess vegna ætla ég ekki að halda niðri í mér andanum Sick Ég tel reyndar líka að slíkur flokkur ætti ekki að hafa fleiri mál á opinberri stefnuskrá, því þá verður fyrst ógerlegt að sætta ólík sjónarmið.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband