Zap - Hausmynd

Zap

Ábending til Vegagerðarinnar

Ég fór í kvöld inn á vef Vegagerðarinnar til að athuga hvort þeir væru þar með netfang fyrir ábendingar. Viti menn, Ábendingar/Fyrirspurnir er hægt að senda inn til þeirra af vefnum þeirra.

Ástæða þess að ég fór að gá að þessu er að það er búið að sjóða í mér í dag og í gær hversu nærri stórslysum hefur legið núna um helgina vegna lélegra merkinga við framkvæmdir á Reykjanesbrautinni. Ég hef svo séð einhver viðtöl við fólk sem segir að það virðist ekki þýða neitt að hringja inn athugasemdir til Vegagerðarinnar. Engar úrbætur eru gerðar. Sennilega er það sama uppi á teningnum með tölvupóstinn, en það gerist heldur ekki neitt ef allir þegja. Oftast þegi ég, því miður, en í þetta sinn ætla ég ekki að þegja alveg. Hvet aðra til að íhuga hvort þeir eigi líka að láta rödd sína heyrast í þessu máli sem varðar öryggi okkar allra sem notum þjóðvegina okkar á einn eða annan hátt.

Ég sendi þetta bréf inn í ábendingakerfi Vegagerðarinnar:

Gott fólk,
ég vona að símalinur og tölvupóstur sé rauðlogandi vegna slysanna sem hafa orðið síðustu daga á Reykjanesbrautinni.

1. Ökumaður telur sig vera á 2+2 vegi og fer fram úr. Fær þá 4 mótorhjól á móti sér þar sem í gangi er 'Contra-flow' (umferð á móti) á þessum stað.

2. Ökumaður eltir hvítar linur í götunni sem virðast beina honum yfir á hinar akreinarnar en lendir þá á Steinblokk.

Er ekki ástæðulaust að bíða eftir banaslysinu á Reykjanesbrautinni sem beint má rekja til lélegra merkinga við framkvæmd breikkunar hennar? Ef þið bíðið nógu lengi er ljóst að það mun henda og það fyrr en síðar.

Núna í ágúst sótti 87 ára gamall faðir minn mig út á Keflavíkurflugvöll að kvöldlagi. Hann var næstum lentur út í gjótu vegna þess að hann áttaði sig ekki á óljósum merkingum. Hann sýndi mér þessar merkingar á leiðinni heim og ég lái honum bara alls ekki að hafa ruglast í ríminu. Á sama stað var svo einmitt nýja tvöfalda akreinin fyrir austuráttina (til Hafnarfjarðar) notuð fyrir umferð í báðar áttir. Ég var að hugsa með sjálfum mér og minntist á við föður minn að það væri dálítið skrýtið að hér væri 'Contra-flow' en ekki eitt einasta merki á nokkurra kílómetra kafla um að vænta mætti umferðar á móti.

Þið VERÐIÐ að beita ykkur fyrir úrbótum verktaka á svæðinu á merkingurm:

1. Þegar heil lína er máluð til að sveigja umferð yfir á 'hina' akreinina verður að mála með svörtu yfir línurnar þegar þær falla úr gildi og steinblokkir settar til að 'loka' á milli.
2. Merkingar um væntanlega tilfærslu akreina á að birtast a.m.k. 1 km frá staðnum og með 100-200 metra fresti alla leið að staðnum.
3. Eitt blikk ljós, dauft vegna lélegrar rafhlöðu er ekki nóg! Og alls ekki er nóg að setja eitt slíkt ljós bara þar sem raunverulega breytingin á veglínunni er. Mörg ljós, blikkandi örvar, o.s.frv. er lágmarkskrafa hér.
4. Þegar tvöföld akrein er notuð fyrir umferð í báðar áttir verður að minna ökumenn á það með skiltum á miðlínunni (og/eða) appelsínugulum kónum með blikkljósum með reglulegu millibili. 50-100 metrar sennilega hæfilegt bil á milli.

Það sem ég er að telja hér upp eru hlutir sem ég hef séð svo snilldarlega útfærða á hraðbrautum (Motorways) í Englandi. Ég bjó þar í 4,5 ár og átti margsinnis leið um M1, en sennilega aldrei án þess að einhvers staðar á leiðinni væri í gangi vegavinna (viðhald). Merkingar á slíkum framkvæmdurm þar eru til fyrirmyndar. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þær reglur sem þar gilda um vegmerkingar vegna vegavinnu og aðlaga pínulítið undirmengi af þeim reglum til notkunar hér á landi!

Með bestu kveðjum og í fullri vinsemd,
Karl Ólafsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband