Zap - Hausmynd

Zap

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eru bæklunarlæknar munaður?

Hvað er eiginlega í gangi í sambandi við bæklunarlækna og Sjúkratryggingarnar? Ég hef ekki orðið var við að það hafi farið hátt í þjóðfélaginu að bæklunarlæknar eru um þessar mundir ekki með gildandi samning við TR (eða sjúkrasamlagið eða sjúkratryggingar, eða hvað stofnunin heitir þessa dagana). Þetta þýðir að ef þú meiðist t.d. á hné í fótbolta með vinum þínum úti á túni þar sem þið eruð á eigin vegum og heimsækir bæklunarlækni í kjölfarið, greiðir þú úr eigin vasa 9-10 þúsund krónur fyrir fyrstu heimsókn. Þú færð síðan endurgreiddar tæpar 4 þúsund krónur frá TR. Næstu heimsóknir kosta síðan 4-5 þkr og endurgreiðslan eitthvað um 50% (man reyndar ekki nákvæmlega hvað fæst endurgreitt í þau skipti).

Svo lendir maður nú aldeilis í því ef það skyldi þurfa að spegla hnéð vegna þessara meiðsla, eða af öðrum ástæðum. Speglun kostar 100 þkr og TR endurgreiðir ca. 50 þkr. Það kostar þig sem sagt í kringum 50 þkr að láta spegla hnéð!

Mér er spurn, vita menn almennt af því að staðan er orðin þessi hér á landi? Ef þú ætlar að stunda eitthvað sport í frítíma þínum þar sem hætta er á hnémeiðslum, hefur þú athugað hvort þú sért örugglega tryggður fyrir slíkum meiðslum? Við erum nú í þeirri stöðu að þurfa að athuga hver okkar tryggingastaða er, þ.e. hvort t.d. F-Plús trygging heimilisins dekkar þennan kostnað fyrir tvítugan son sem býr á heimilinu, eða hvort hann sé nú sjálfur orðinn ábyrgur fyrir sínum tryggingum. Ég viðurkenni grandvaraleysi mitt, að ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta væri það þjóðfélag og sú heilbrigðisþjónusta sem við byggjum við í dag. Þannig að sonurinn fer ekki í speglun í fyrramálið, eins og honum stendur til boða af því að ég get ekki reitt fram 100 þkr fyrir aðgerðinni, hvað þá einu sinni þau 50 þkr sem eftir standa af kostnaðinum eftir endurgreiðslu TR. Nú er bara að bíða og vona að F-Plús dekki þetta því annars má hann e.t.v. búa við skaddað hné, það sem eftir er, eða alla vega þar til hægt verður að greiða þessa tugi þúsunda fyrir speglunina og svo væntanlega annað eins og meira í framhaldinu til þess að hægt verði (vonandi) að laga vandamálið.


55Mkr + verðtrygging(2006-12) = 69,5Mkr

!
mbl.is Framhaldið í höndum formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggt væntanlega

..? Eða hvað?
mbl.is Skilað til lögaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... og ekki hefur ástandið skánað ...

sbr. síðustu færslu mína fyrir nærri 6 vikum síðan. Ekki minnkar tuðið og kvartanirnar undan vinnubrögðum sem sömu mönnum þóttu sjálfsögð fyrir 2 mánuðum síðan. Þetta kalla menn sennilega ábyrga og málefnalega stjórnarandstöðu sbr. söng ÁJ í dag.

Ég veit ekki hvort þessi sandkassahegðun á eftir að skila fleiri eða færri atkvæðum merktum x-D, en ekkert kemur manni svo sem á óvart í þeim efnum. Á meðan hefur umræðan um afnám verðtryggingar því miður því sem næst sofnað eina ferðina enn. Bjarni Ben fær reyndar prik frá mér fyrir að tala beint út um að það eigi að byrja að leita leiða til afnáms verðtryggingarinnar strax í vor. Þegar vinnan hefst, þá munu lausnirnar koma. Þar er ég sammála honum. Verst að hann hefur að öllum líkindum ekki flokkinn með sér í þessari skoðun. Aðrir hafa talað um að færa til baka vísitölu og aftengja hana tímabundið, en ég gef lítið fyrir slíkar hugmyndir. VERÐTRYGGINGU Á AÐ AFNEMA STRAX AF FRAMTÍÐARFJÁRMÁLAGJÖRNINGUM, nú er tækifærið, eins og ég hef áður bent á. Það rennur okkur hins vegar úr greipum ef ekki er hamrað járnið. Enn koma þó fram álitsgjafar eins og Edda Rós (Markaðsstjóri einhvers bankans, nei, sorrí, greiningar- eitthvað) og slengja enn og aftur fram bábiljuhræðsluáróðrinum um hvort við viljum hverfa aftur til áttunda áratugarins og horfa á sparifé okkar og lífeyrissjóði brenna upp í verðbólgunni. Sér fólk og fréttamenn ekki enn í gegnum þetta? Hver hefur farið fram á að íbúðalán verði veitt á 2ja prósenta föstum vöxtum út lánstímann, óháð verðbólgu og almennu vaxtastigi? Hver? Lesið eldri færslur mínar um verðtrygginguna ef þið eruð til í að horfa á þetta út frá öðrum sjónarhóli.

Ég er kominn í algera bloggleti og ég sé ekki fram á neinar breytingar á nokkrum hlut með kosningunum síðar í þessum mánuði, nema þá helst ef nógu margir eru til í að skoða þann valkost að kjósa ný framboð. Ég á eftir að kynna mér betur þau málefni sem þar er boðið upp á, en ég hyggst gera það áður en ég geri upp minn hug. Hvet aðra til að gera það sama með opnum huga.

Nóg um það, blogga ábyggilega ekki meira næsta mánuðinn. Vildi bara skella inn nokkrum orðum til að bloggið lokist ekki vegna notkunarleysis :-)

Góðar stundir.

 


Ógæfuleg stjórnarandstaða D-listans

Ekki þykja mér Geir og félagar hans byrja gæfulega í stjórnarandstöðuhlutverki sínu.

Þetta upphlaup í sambandi við trúnað hvað varðar samskipti við AGS er í besta falli hlægilegt, úr munni forsætisráðherrans fyrrverandi sem lét þjóðinni ekki í té miklar upplýsingar um sín samskipti við sjóðinn á sínum valdatíma.

Og ásakanir um ósannsögli Jóhönnu hljóma líka einhvern veginn skringilega úr munni mannsins sem sagði þjóðinni að hann væri bara á reglulegum fundum sínum með DO helgina sem hrunið hófst. Ekkert óeðlilegt í gangi þá. Var það sannleikurinn? Ef ekki er hægt að segja sannleikann þá eru til aðrir kostir í stöðunni heldur en að ljúga.


mbl.is Segir túlkun Geirs byggja á misskilningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fasteignamarkaður í Bretlandi í samanburði við þann íslenska

Við frúin vorum aðeins að velta fyrir okkur í dag hverjar aðstæður okkar væru nú í dag ef við hefðum kosið að búa áfram í Bretlandi í stað þess að flytja heim í ársbyrjun 2002. Ég hef annað slagið í þráhyggju minni um verðtrygginguna hér á landi minnst á ýmis konar samanburð við aðstæður í Bretlandi eins og við kynntumst þeim. Því er kannski ekki úr vegi að segja aðeins frá sögu okkar og reynslu af því að hafa verið fasteignareigendur í Bretlandi.

Ég er þeirrar skoðunar að fasteignamarkaður hér á Íslandi eigi að þróast í áttina að því sem hann er í Bretlandi. Fyrir því eru margar ástæður sem ég vona að mér takist að rökstyðja í máli mínu hér á eftir. Þegar bankarnir komu inn á markaðinn fagnaði ég því og bjóst við að sjá þróun svipaða og í Bretlandi. Boy, was I wrong.

Ekki má misskilja mig að því leytinu til að ég geri mér fulla grein fyrir því að Bretar eru í gríðarlegum efnahagslegum vandræðum, rétt eins og við. En mig langar til að bera saman aðstæður mínar, væri ég í þeim vandræðum þar miðað við það sem við búum við hér á Íslandi. Ég tek skírt fram að ég hef ekki fylgst svo vel með þróuninni þar allra síðustu árin að ég viti nákvæmar tölur um vaxtastig, verðbólgu eða fasteignaverð og þess háttar.

Vextir á Bretlandi eru ekki (eða þóttu ekki þegar ég var þar) lágir miðað við það sem gengur og gerist víða annars staðar. Húsnæðislán báru 4,5 - 8% vexti árin sem við bjuggum þar (1997 - 2002). Bílalán bar ca. 13% vexti og kreditkort og önnur skammtímalán eins og yfirdráttur gjarnan 16-20%.

Við vorum nauðbeygð að leggja í kaup á húsnæði þar sem okkur var sagt hreint út að það mundi enginn heilvita húseigandi leigja hús sitt til fjölskyldu sem væri með 5 börn. Það væri of mikið 'wear and tear' á húsinu, nokkuð sem maður verður að viðurkenna að er alveg satt :-). Þ.a. við könnuðum málið með kaup á húsnæði. Ráðgjafastofa (Mortgage Advice Bureau í Derby) tók okkur opnum örmum og gaf okkur ráð, útvegaði lánstilboð og sá um öll samskipti við verktakafyrirtækið sem við enduðum á að kaupa hús okkar af (hér má sjá húsið). Þegar við fundum húsið var það ennþá bara múrsteinahrúga, en við féllum fyrir staðsetningu þess og hönnun eftir teikningu. Í stuttu máli voru forsendur sem notaðar voru til þess að reikna greiðslugetu okkar (greiðslumat) afar einfaldar. Við gátum fengið veðlán sem næmi ca. þreföldum brúttó árslaunum mínum. Það dugði til þess að við gátum keypt þetta hús á 104þús GBP á haustmánuðum 1997.

Okkur voru boðnir all nokkrir valkostir í sambandi við endurgreiðslu lánsins  :
a) jafnar greiðslur
b) jafnar afborganir
c) vaxtagreiðslur + sparnaðar áætlun (PEP eða frekar ISA)
Við völdum c, greiddum sem sagt eingöngu vexti af láninu, en greiddum síðan til viðbótar inn á ISA sparnaðaráætlun sem gekk út á að við ættum fyrir höfuðstóli lánsins að lánstíma liðnum. ISA kerfið gengur út á að sett er það markmið að safnast skuli upp í höfuðstól lánsins yfir lánstímann. Áhættu ávöxtunarinnar í ISA er dreift og okkur var sagt þar eins og mönnum hefur verið sagt hér að í raun þurfi allt að fara til fjandans til þess að þessir hlutir gengju ekki upp (en þvert á það sem maður hefði búist við veit maður núna að hlutir geta einmitt farið fjandans til). Allan lánstímann fylgist ISAn síðan með því að markmiðin séu líkleg til þess að nást. Ef illa gengur á markaði fær maður ábendingu um að maður ætti e.t.v. að gefa í við uppsöfnunina, en ef vel gengur er manni bent á að draga mætti jafnvel úr hraða uppsöfnunarinnar. Ákvörðun um slíkt er þó alltaf manns eigin. Þegar upp er staðið og lánstíma lýkur á maður annað hvort akkúrat fyrir láninu, eða maður á smá afgang eða í versta falli þarf maður að bæta einhverju við og getur þá gert það með nýju láni eða e.t.v. með því að skipta yfir í minni eða ódýrari eign.

Við keyptum sem sagt húsið 1997 á 104K GBP. Árið 2000 skiptum við um lánadrottinn og skuldbreyttum skammtímaskuldum þ.a. veðskuldin varð 125K GBP. Þá var húsið metið á ca. 135K. Um jólin 2001 seldum við húsið á 151K. Við vorum afar heppin að því leytinu til að húsið seldist í raun áður en það var formlega komið í sölu (myndirnar voru ekki komnar út í glugga fasteignasölunnar þegar fyrsta tilboðið kom og 5 tilboðum síðar keypti það fólk húsið). Eftir að veðlánið og sölukostnaður var greitt upp áttum við eftir nóg til að greiða fyrir flutninginn heim og einhverja örfáa hundrað þúsund kalla í afgang.

Nú er spennandi að velta fyrir sér hvað hefði gerst hefðum við kosið að búa áfram í Bretlandi. Gefum okkur þær forsendur (sem eru ekkert endilega öruggar) að við hefðum getað búið áfram í húsinu án þess að endurfjármagna það aftur og bæta við okkur í skuldum og að ég hefði haldið því starfi sem ég hafði þá. Þetta með starfið er ekki sjálfgefið þar sem 20 manna hópurinn sem ég starfaði í er nú 5-6 menn og ekkert öruggt hvort ég væri þar á meðal, þó ég vildi gjarnan trúa því. Þá hefði maður horft upp á markaðsvirði hússins stíga í 250K GBP (húsið seldist á það á tímabilinu veit ég) og jafnvel 300K. Síðan hefði það gerst á síðast ári og nú í byrjun þessa árs að verðið hefði hrapað aftur niður. Hversu langt niður veit ég ekki fyrir víst, en gefum okkur að það standi t.d. í 170-200K núna sem ég tel ekki óraunsætt. Þetta er sennilega svipað og gerst hefur með húsið sem ég bý í hér á landi núna, en hér er útilokað að vita hversu mikið markaðsvirðið hefur lækkað. Munurinn er hins vegar sá að á sama tíma væri 125K lánið mitt úti komið niður í kannski 115-120K þegar tillit hefur verið tekið til ISA inneignarinnar. Vaxtabyrðin væri svipuð og hún var eða lægri (vextir hafa lækkað í Bretlandi), en ég hefði væntanlega orðið að spíta duglega í ISA planið mitt til þess að vega upp lakari og jafnvel að einhverju leyti neikvæða tímabundna ávöxtun.

Hér á landi er hins vegar staðan þannig að veðlánið mitt hefur hækkað um 11 milljónir á þremur árum og það til frambúðar og sér ekki fyrir endann á frekari hækkunum enda þótt spáð sé verðstöðnun eða hjöðnun á næstu mánuðum. Húsið er því yfirveðsett og eign mín í því neikvæð (að viðbættum öðrum skuldum mínum) um ekki milljónir heldur í raun milljónatugi.

Breytilegu vextirnir sem maður staðgreiddi í Bretlandi gátu vissulega stungið þegar þeir fóru upp í 7-8%, en slíkir vextir slógu mjög hratt á neyslu manna og lækkuðu þeir því tiltölulega fljótt aftur niður í t.d. 6% sem var vel þolanlegt. Þess vegna held ég því fram að stýrivaxtaverkfærið virki ekki til þess að slá hratt á þenslu nema þeir hafi áhrif á greiðslugetu fólks samstundis. Þeir virka ekki eins hratt og reyndar alls ekki ef greiðslu hluta vaxtanna er bara bætt ofan á höfuðstól lánsins þ.a. þeir dreifast yfir lánstímann. Þetta hef ég nefnt sem ein af rökum mínum fyrir því að verðtrygginguna verði að leggja af. Ég stilli mig um það hér að endurtaka öll hin rökin.


Það á að banna nagladekk!

Það er mín skoðun og ég veit að mjög margir eru mér ósammála, en ég vona að einhverjir borgarbúar hafi gert sér grein fyrir því í svifryksmenguninni í góðviðrinu í dag, að nagladekkin verða að víkja hér á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta gengur ekki svona og ég fullyrði að það þarf enginn nagladekk hér á Suðvesturhorninu! Það eru örfáir dagar á árinu þar sem naglar koma sér vel, en með varkárni má vel komast af án þeirra, alveg sama hvernig færðin er, svo lengi sem maður er á þokkalegum heilsárs- eða vetrardekkjum án nagla. Að maður tali ekki um ef maður er á loftbólu- eða harðkornadekkjum.

Ég hef aðeins einu sinni á ævinni lent í þeirri aðstöðu við akstur að ég hefði viljað óska þess að ég hefði haft nagladekk undir. Það var í október fyrir mörgum árum síðan þegar ég var á leið suður frá Húsavík eftir að hafa skroppið í sláturgerð. Í síðustu brekkunni niður af Öxnadalsheiði voru bílar lentir í vandræðum þar sem brekkan var ísi lögð og glerhál. Ég sá tvo bíla renna af stað úr kyrrstöðu og út af kantinum. Sjálfur komst ég niður brekkuna með því að halda bílnum úti í kantinum þar sem einn og einn smásteinn stóð upp úr klakanum og fara bókstaflega fetið, eða öllu heldur tommuna alla leið niður. Við allar aðrar aðstæður en þær sem þarna voru er vel hægt að komast af án nagla.

Öryggistilfinning sem naglar veita er líka oft á tíðum fölsk.

Naglana burt :-) Þó þið séuð á nýjum nagladekkjum, skreppið á dekkjaverkstæðið og biðjið kallana þar að plokka þá úr fyrir ykkur. Ég lofa ykkur því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum, bíllinn verður þíðari og hljóðlátari og miklu skemmtilegri. Keyrið svo bara örlítið rólegar næst þegar götur verða hálar, prófið ykkur aðeins áfram með það hvernig bíllinn bregst við hemlun og beygjum og venjið ykkur bara við þennan nýja stíl. Ef nógu margir gera þetta finnum við fljótt muninn á heilbrigðara lofti á dögum eins og í dag.


Heilmikið að gerast ... í engu

Blogg leti mín hefur hrjáð mig síðustu vikurnar. Það datt úr mér dampurinn, fyrst þegar mér þótti sem ekkert myndi gerast fyrr en eftir væntanlegan landsfund xD.

Svo sprakk stjórnin og fögur fyrirheit voru gefin um að nú yrði hugað að heimilum og atvinnulífinu í landinu. Mér þótti ekki tímabært að blogga mikið um það, því ég verð að viðurkenna að ég tók þá ákvörðun að halda ekki niðri í mér andanum á meðan ég biði jákvæðra frétta af raunhæfum aðgerðum.

Og hvað ætti maður svo sem að röfla um á blogginu núna? Er hægt að segja eitthvað gáfulegt um:

  • Seðlabankastjóra og stjórnarmenn sem telja sér sætt í sætum sínum í trássi við vilja forsætisráðherra, ríkisstjórnar, þingheims og að öllum líkindum meirihluta þjóðarinnar. Gefnar hafa verið upp yfir 20 ástæður fyrir því að stjórn SÍ ætti að fara frá, ekki síst sú að á þeirra vakt varð bankinn tæknilega gjaldþrota og varð að koma honum til bjargar af Ríkissjóði. Þegar Írar þjóðnýttu AIB sagði írski seðlabankastjórinn af sér á næsta virka degi!
    Það má vel vera að leitt sé að 2 faglega ráðnir embættismenn sem hafa að sögn Geirs unnið í bankanum alla ævi sína (hann sagði það, ég lýg því ekki) missi vinnu sína, en ég veit ekki hvort það á að vorkenna þeim það meira en þeim þúsundum öðrum sem eru að missa vinnu sína þessa dagana. Enginn þeirra hefur neitt til sakar unnið frekar en hugsanlega þessir tilteknu embættismenn. Þeir verða óneitanlega bara fórnarlömb nauðsynlegra breytinga og ekkert meira þarf um það að segja.
  • Sjálfstæðismenn sem eru komnir í afkáralegan sandkassaleik eins og smákrakkar sem einhver tók nammið af. Hver nennir að hlusta á þetta píp þeirra um aðför að persónu DO og ég veit ekki hvað. Þeir eru ekki að ná þessu.
  • Eilíft karp um hvort verið sé að taka ábyrgð á hlutum eða ekki. Smjörklípur og eilíft skítkast manna á milli, á milli þingflokka og jafnvel innan flokka.
  • Skrípaleik sem felst í því að lögð eru fram 3 frumvörp um sama málið og svo fer tíminn í að rífast um höfundarrétt!
  • Á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar er svo byrjað að draga í land, enn talað í frösum en minna um nákvæmar útlistanir á hvernig á að bjarga heimilunum og 'jumpstarta' steindauðu atvinnulífi. Hugmyndir um hátekjuskatt fá byr undir báða vængi, en þar sem launalækkanir undanfarið hafa yfirleitt miðast við þá sem hafa meira en 300þkr í laun, hvar haldið þið að hátekjuskattmörkin verði? Ekki í þeirri 1-1,2mkr upphæð sem Steingrímur sagði einu sinni að hann teldi eðlilegt að miða við. Ég giska frekar á að reyndin verði nær 500þkr. Ég man of vel eftir svipaðri atburðarás þegar ÓRG var fjármálaráðherra, þá urðu 700þkr mörk allt í einu að 300þkr þegar skatturinn var lagður á.
  • Afskriftir útistandandi útlána gömlu bankanna sem talin eru ónýt geta orðið 60-70% eftir því sem ég sá einhvers staðar. Hvað haldið þið að stór hluti þessara afskrifta verði vegna húsnæðislána sem þjóta upp vegna verðtryggingar á meðan verðmæti veðanna fellur. Og enginn þorir einu sinni að segja sannleikann um hversu mikið fasteignaverð hefur í raun fallið. Enda náttúrulega útilokað að meta lækkunina í raun á meðan markaðurinn er botnfrosinn. Nei, þessar afskriftir eru aðallega stóru lánin til vildarvina sem voru með veðum í hverju? Jú, viðskiptavild!!!
  • E.t.v. fá skuldarar að nýta séreignarlífeyrissparnað sinn að einhverju leyti til að laga skuldastöðu sína. Útfærslan óljós og ekki víst hvort af þessu verður einu sinni, en þó er líklegt að ef til þessa kemur þurfi viðkomandi að greiða fullan tekjuskatt af úttektinni. En er það réttlátt? Er ekki hluti þessarar upphæðar sem maður á í séreignarsparnaði til kominn með fjármagnstekjum sem ættu að bera 10% skatt?
  • Hvalveiðar. Ég veit ekki hvað mér finnst um það. Ég hef aldrei verið alfarið á móti hvalveiðum og á góðar minningar frá Húsavík í gamla daga þegar maður fylgdist með hrefnuskurði. Og atvinnusköpun við verðmætasköpun getur bara verið af hinu góða. Mér þykja hins vegar hvalveiðar vera tímaskekkja í dag. Er í raun til markaður í heiminum fyrir það hvalkjöt sem fellur til við þessar veiðar? Og eru þetta eðlileg vinnubrögð fráfarandi sjávarútvegsráðherra?

Ég er eiginlega orðinn dálítið smeykur um að þessir 80 dagar fram að kosningum og svo næstu dagar þar á eftir sem fara í stjórnarmyndun, séu í raun ónýtir þrátt fyrir góðan vilja og heiðarlega fyrirætlan heilagrar Jóhönnu. Það mun fátt skírast hvað varðar raunverulega stöðu einstaklinga og fyrirtækja, nema þeirra sem rekin verða í þrot hvað sem líður tilmælum ráðamanna.

Hm, ég hefði átt að halda áfram í bloggletinni og steinþegja. Og enn lifir verðtryggingin góðu lífi og lífeyrissjóðirnir halda að þeir komi til með að 'græða' á henni 200 milljarða þennan veturinn.

 


Borgarafundur í Hafnarfirði

Það var gaman að sjá samstöðu Hafnfirðinga á nær þriggja klukkustunda borgarafundi í dag. Starfsmaður íþróttahússins áætlaði að 1800 manns hafi verið í húsinu þegar mest var. Hver einn og einasti virtist þarna kominn til þess að láta í ljósi andstöðu við þá fyrirætlan heilbrigðisráðherra að leggja niður núverandi starfsemi St. Jósefspítala og færa hana til LSH í Reykjavík og í Reykjanesbæ.

Enginn sem kvaddi sér hljóðs reyndi að mæla þessum aðgerðum bót nema ráðherrann sjálfur. Rökstuðningur ráðherra er að mínu mati veikur og hefur honum ekki tekist að útskýra hvers vegna á að gera akkúrat þessa breytingu og hvernig það á að leiða til aukinnar hagræðingar. Ekki fæst heldur séð hversu stóran hluta af 1.300 milljóna heildarsparnaði á að ná með þessum hluta áætlunarinnar.

Ráðherra stillti dæminu upp þannig að hér hafi verið valin skásta leiðin af einum 4 slæmum kostum og spurði hvort menn vildu heldur sjá stórauknar gjaldtökur (eh, við erum að fá þær) eða skerðingu á þjónustu (eh, ég er hræddur um að við séum líka að fara að sjá fram á slíkt). Þessi röksemdafærsla er svo sem orðin velþekkt og alvanaleg hjá stjórnmálamönnum. Utanríkisráðherra spurði til dæmis hvort menn hefðu viljað kasta 200 milljónum í vonlaust dómsmál í Bretlandi, en láðist að geta þess að enginn var spurður hvort menn vildu kasta 1.000 milljónum í vonlaust framboð til Öryggisráðs SÞ. En nei, við viljum ekki stórauka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og við viljum ekki horfa upp á stórskerta þjónustu þar. Við viljum held ég öll standa vörð um heilbrigðiskerfi okkar eins og það er. En það má án efa hagræða þar á ýmsum sviðum þ.m.t. í rekstri St. Jósefspítala án þess að leggja hann niður.

Það kom fram í máli ráðherra að 5 skurðstofueiningar væru reknar í dag á Suðvesturhorninu með öllum þeim fastakostnaði sem því tilheyrir og með slæmri heildarnýtingu. Spurt var á móti hvernig staðið hafi á því að skurðstofurnar á Reykjanesi voru byggðar fyrst ekki var þörf fyrir þær. Þær standa nú lítt nýttar og ómannaðar og þar liggur væntanlega hnífurinn í kúnni fyrir ráðherrann og bæjarstjórann þar sem vill svo til að er í sama flokki. Það er þar sem pólitíski fnykurinn kemur af þessu máli að maður tali ekki um ef rétt er að auðkýfingur vilji koma að þjónustu við skurðdeildina á Reykjanesi með einhverjum hætti í framtíðinni.

Ráðherra sagði og sýndi á súluriti að fækka skyldi þessum 5 skurðdeildum í 2 og ná þannig að skera niður fastakostnað þriggja deilda. Samt sýndi súluritið sem hann sýndi á glærum með þessum orðum að þessar 2 deildir ættu að verða 100% nýttar, en svo virtist mér sem sýnd væri 5-10% nýting á þriðju deildinni. Dæmið gengur ekki upp fyrir mér. Í fyrsta lagi efast ég um að hægt sé að keyra skurðdeildir á 100% nýtingu, en auðvitað má vera að það sé útúrsnúningur hjá mér þar sem forsendur á bak við þessi súlurit eru óljós og óskýrð. En í öðru lagi er spurning í mínum huga hvort þarna sé á lumskan hátt verið að segja að það verði ákveðinn kúfur þarna sem ekki verði sinnt af þessum 2 deildum, en einkareknar skurðstofur yrðu fengnar til að sjá um þær aðgerðir, eða að öðrum kosti þær söfnuðust upp í biðlista. Það er auðvelt að ljúga með línuritum og súluritum eða sýna þann sannleika í þeim sem maður vill að komi fram.

Ein rök fyrir því að leggja niður skurðdeild St. Jó er að húsnæði þar sé ófullnægjandi. Starfsfólk spítalans hefur hins vegar útskýrt á sannfærandi hátt að vissulega hefði mátt úr því bæta og um það hefði verið beðið í hinu meinta góðæri, en húsnæðið er hins vegar fyllilega boðlegt til að nýta það áfram óbreytt úr því að peningar eru nú af skornum skammti og ná þarf fram sparnaði. Fresta má öllum úrbótum.

Ég er þeirrar skoðunar að St. Jó sé ömurlegt húsnæði fyrir öldrunardeild að óbreyttu. Ég styrktist í þeirri skoðun minni í dag við að heyra það að hugmyndin væri sú að byrja að nota húsnæðið sem öldrunar- hvíldarinnlagnarspítala án þess að fjárfesta í neinum breytingum á húsnæðinu. Þetta húsnæði hentar bara að mínu mati alls ekki til þess. Ég vil síður fara út í að útskýra hvers vegna ég er þessarar skoðunar, en hún er byggð á ákveðinni reynslu.

Það mætti rekja í löngu máli þau rök sem hníga að því að ákvörðun heilbrigðisráðherra að leggja niður starfsemi St. Jósefspítala sé vanhugsuð og röng. Ég er bara ekki rétti maðurinn í það en ég vildi bara koma á framfæri í stuttu máli þessum sjónarmiðum mínum. Í lok fundarins í dag kom fram að menn myndu setjast að borðum og ræða þessi mál til þrautar. Vonandi tekst að fá ráðherrann til þess að skipta um skoðun, en geri hann það á hann virðingu skilið og það er ljóst að Hafnfirðingar myndu meta það við hann. Fundurinn í dag var málefnalegur og laus við skítkast og ókurteisi. Hafnfirðingar virðast vera bara nokkuð siðað fólk sem lætur þó ekki bjóða sér mótþróalaust hvað sem er :-)


Ómálefnaleg skrif og aðför að persónu

Fátt fer meira í taugarnar á mér en aðför að persónum manna, hverjir svo sem þeir eru. Eitt er að vera ósammála málflutningi og/eða aðgerðum tiltekinna persóna, en að ráðast að heiðri manna er lágkúrulegt, hverjir sem í hlut eiga. Nú má vel vera að ég hafi gerst sekur um slíkt einhvern tímann, en ég vil helst trúa því að ég eigi mér takmörk í því efni.

Hér er færsla víðlesins bloggara og eins álitsgjafa Kastljóss fyrir áramótin. Þessi bloggari er sennilega með hægri sinnaðri mönnum og er það að sjálfsögðu hans mál og kemur engum við. Hann leyfir ekki athugasemdir við færslur sínar, en aftur, þá er það líka að sjálfsögðu hans mál. Ég ætla ekki að fara út í að rifja upp það sem mér fannst athugavert við álitsgjöf hans í Kastljósþáttunum um daginn, en ekki get ég sagt að ég hafi getað verið sammála miklu af því sem hann lét út úr sér þar. Enn og aftur þá var hann þar að koma á framfæri sinni skoðun og má honum vera það frjálst mér að meinalausu.

En í þessum orðum fór hann yfir strik sem mér finnst hann setja niður við að fara yfir:
"Og eitt enn, hversu mikið ætli Hörður Torfason hafi greitt í skatta hér á Íslandi s.l. ár og hversu mikið ætli hann hafi þegið úr ríkissjóð?

Þeir þátttakendur sem taka þátt í gjörningi hans helgi eftir helgi hljóta að eiga rétt á því að vita hversu mikið hann hefur lagt til samfélagsins síðustu árin."

Hverju eiga slíkar upplýsingar að skila inn í þjóðmálaumræðuna og hverju skiptir þetta fyrir þann málstað sem Hörður Torfason stendur fyrir? Hverjum kemur þetta við og af hverju ættu þáttakendur í mótmælaaðgerðum síðustu vikna og mánaða að hafa áhuga á eða eiga rétt á að fá þessar upplýsingar sem Gísli Freyr kallar hér eftir? Hann kallar sig frjálshyggjumann, en ég man ekki betur en að samtök frjálshyggjumanna (man ekki einu sinni nafnið á þessu félagi) hafi einmitt lagst gegn birtingu upplýsinga um skattamál einstaklinga. Gildir eitthvað annað um bætur, styrki, eða hvað annað sem menn kunna að þiggja úr ríkissjóði? Eða gildir bara eitthvað annað um menn sem voga sér að standa fyrir skipulagningu friðsamlegra mótmælaaðgerða sem beinast að einhverju leyti gegn Sjálfstæðisflokknum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband