Zap - Hausmynd

Zap

Heilmikið að gerast ... í engu

Blogg leti mín hefur hrjáð mig síðustu vikurnar. Það datt úr mér dampurinn, fyrst þegar mér þótti sem ekkert myndi gerast fyrr en eftir væntanlegan landsfund xD.

Svo sprakk stjórnin og fögur fyrirheit voru gefin um að nú yrði hugað að heimilum og atvinnulífinu í landinu. Mér þótti ekki tímabært að blogga mikið um það, því ég verð að viðurkenna að ég tók þá ákvörðun að halda ekki niðri í mér andanum á meðan ég biði jákvæðra frétta af raunhæfum aðgerðum.

Og hvað ætti maður svo sem að röfla um á blogginu núna? Er hægt að segja eitthvað gáfulegt um:

  • Seðlabankastjóra og stjórnarmenn sem telja sér sætt í sætum sínum í trássi við vilja forsætisráðherra, ríkisstjórnar, þingheims og að öllum líkindum meirihluta þjóðarinnar. Gefnar hafa verið upp yfir 20 ástæður fyrir því að stjórn SÍ ætti að fara frá, ekki síst sú að á þeirra vakt varð bankinn tæknilega gjaldþrota og varð að koma honum til bjargar af Ríkissjóði. Þegar Írar þjóðnýttu AIB sagði írski seðlabankastjórinn af sér á næsta virka degi!
    Það má vel vera að leitt sé að 2 faglega ráðnir embættismenn sem hafa að sögn Geirs unnið í bankanum alla ævi sína (hann sagði það, ég lýg því ekki) missi vinnu sína, en ég veit ekki hvort það á að vorkenna þeim það meira en þeim þúsundum öðrum sem eru að missa vinnu sína þessa dagana. Enginn þeirra hefur neitt til sakar unnið frekar en hugsanlega þessir tilteknu embættismenn. Þeir verða óneitanlega bara fórnarlömb nauðsynlegra breytinga og ekkert meira þarf um það að segja.
  • Sjálfstæðismenn sem eru komnir í afkáralegan sandkassaleik eins og smákrakkar sem einhver tók nammið af. Hver nennir að hlusta á þetta píp þeirra um aðför að persónu DO og ég veit ekki hvað. Þeir eru ekki að ná þessu.
  • Eilíft karp um hvort verið sé að taka ábyrgð á hlutum eða ekki. Smjörklípur og eilíft skítkast manna á milli, á milli þingflokka og jafnvel innan flokka.
  • Skrípaleik sem felst í því að lögð eru fram 3 frumvörp um sama málið og svo fer tíminn í að rífast um höfundarrétt!
  • Á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar er svo byrjað að draga í land, enn talað í frösum en minna um nákvæmar útlistanir á hvernig á að bjarga heimilunum og 'jumpstarta' steindauðu atvinnulífi. Hugmyndir um hátekjuskatt fá byr undir báða vængi, en þar sem launalækkanir undanfarið hafa yfirleitt miðast við þá sem hafa meira en 300þkr í laun, hvar haldið þið að hátekjuskattmörkin verði? Ekki í þeirri 1-1,2mkr upphæð sem Steingrímur sagði einu sinni að hann teldi eðlilegt að miða við. Ég giska frekar á að reyndin verði nær 500þkr. Ég man of vel eftir svipaðri atburðarás þegar ÓRG var fjármálaráðherra, þá urðu 700þkr mörk allt í einu að 300þkr þegar skatturinn var lagður á.
  • Afskriftir útistandandi útlána gömlu bankanna sem talin eru ónýt geta orðið 60-70% eftir því sem ég sá einhvers staðar. Hvað haldið þið að stór hluti þessara afskrifta verði vegna húsnæðislána sem þjóta upp vegna verðtryggingar á meðan verðmæti veðanna fellur. Og enginn þorir einu sinni að segja sannleikann um hversu mikið fasteignaverð hefur í raun fallið. Enda náttúrulega útilokað að meta lækkunina í raun á meðan markaðurinn er botnfrosinn. Nei, þessar afskriftir eru aðallega stóru lánin til vildarvina sem voru með veðum í hverju? Jú, viðskiptavild!!!
  • E.t.v. fá skuldarar að nýta séreignarlífeyrissparnað sinn að einhverju leyti til að laga skuldastöðu sína. Útfærslan óljós og ekki víst hvort af þessu verður einu sinni, en þó er líklegt að ef til þessa kemur þurfi viðkomandi að greiða fullan tekjuskatt af úttektinni. En er það réttlátt? Er ekki hluti þessarar upphæðar sem maður á í séreignarsparnaði til kominn með fjármagnstekjum sem ættu að bera 10% skatt?
  • Hvalveiðar. Ég veit ekki hvað mér finnst um það. Ég hef aldrei verið alfarið á móti hvalveiðum og á góðar minningar frá Húsavík í gamla daga þegar maður fylgdist með hrefnuskurði. Og atvinnusköpun við verðmætasköpun getur bara verið af hinu góða. Mér þykja hins vegar hvalveiðar vera tímaskekkja í dag. Er í raun til markaður í heiminum fyrir það hvalkjöt sem fellur til við þessar veiðar? Og eru þetta eðlileg vinnubrögð fráfarandi sjávarútvegsráðherra?

Ég er eiginlega orðinn dálítið smeykur um að þessir 80 dagar fram að kosningum og svo næstu dagar þar á eftir sem fara í stjórnarmyndun, séu í raun ónýtir þrátt fyrir góðan vilja og heiðarlega fyrirætlan heilagrar Jóhönnu. Það mun fátt skírast hvað varðar raunverulega stöðu einstaklinga og fyrirtækja, nema þeirra sem rekin verða í þrot hvað sem líður tilmælum ráðamanna.

Hm, ég hefði átt að halda áfram í bloggletinni og steinþegja. Og enn lifir verðtryggingin góðu lífi og lífeyrissjóðirnir halda að þeir komi til með að 'græða' á henni 200 milljarða þennan veturinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband