Zap - Hausmynd

Zap

Eru bankarnir tilbúnir til þess að leysa til sín fasteignir - Strax?

Vésteinn Gauti Hauksson lagði fram í Kastljósinu í kvöld góð rök fyrir því að það myndi henta hans hagsmunum best að hætta að borga af íbúð sinni strax og fá fram nauðungarsölu hið fyrsta. Þetta myndi spara honum milljónir miðað við að þessi sama niðurstaða fengist í gegn að ári liðnu, miðað við núverandi forsendur.

Ég get ekki annað en tekið undir röksemdir Vésteins, því ég þekki þessar tölur sem hann nefnir allt of vel úr mínu eigin bókhaldi, nema hvað mínar tölur eru öllu hærri. Ég reyndi að selja mína eign fyrir rúmu ári síðan, árangurslaust. Hefði líklega betur tekið eina tilboðinu sem barst, því það hefði munað líklega einum 8 milljónum miðað við stöðuna í dag, fyrir utan að verðmat hússins er óþekkt og miklu lægri stærð í dag ef að líkum lætur.

Vésteinn treystir sér engu að síður ekki til þess að dæma um það hvort verðtryggingin sé bölvaldurinn hér. Ég treysti mér til þess að segja að svo sé, eins og sjá má af nýlegum færslum mínum. En ég ætla ekki að eyða púðri í þá umræðu hér í kvöld. Mig langar hins vegar að vita hversu margar fjölskyldur eru í þessari sömu aðstöðu?

Ég tel reyndar að hér sé ekki um tugi eða hundruðir fjölskyldna að ræða, en spurningin er hversu mörg þúsund fjölskyldur þetta eru? Stöðugt er klifað á því að ekki verði þeim öllum bjargað og ekki megi gefa eftir og afskrifa svo mikið sem krónu af fólki sem vitandi vits skrifaði undir þær skuldbindingar sem það nú vill losna undan. Gott og vel, en hversu lengi á þá að herða hengingarólina á þeim og skrifa inn á fjölskyldurnar nýjar milljónir í skuld sem ekki er til í hagkerfinu í dag og verður ekki til næstu árin hjá þessu fólki? Eins og Vésteinn benti á er í lánasamningum ákvæði um það hvað gerist ef greiðslufall verður. Eignin verður tekin af skuldaranum. Nú þarf að láta reyna á hvort ekki sé hreinlega hægt að fá flýtimeðferð á slíkum úrlausnum með gagnkvæmum samningum, þ.a. unnt verði að lágmarka óhjákvæmilegt tjón fjölskyldnanna. Eða eru það bara skuldareigendur sem eiga rétt á því að verja hagsmuni sína með beltum og axlaböndum? ILS hefur leyfi til að leysa til sín húsnæði og leigja þeim sem þar búa, en eru bankarnir tilbúnir til þess líka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband