Zap - Hausmynd

Zap

Hjakkað í farinu (verðtryggingarumræða)

Ég sé það betur með hverjum deginum að verðtryggingarumræðan er enn á byrjunarstigi hér á landi. Mér þykir ótrúlegt að horfa upp á sum réttlætingarrökin fyrir því að viðhalda þessu kerfi sem fundið var upp hér á landi seint á áttunda áratugnum. Nú má vel vera að þetta kerfi hafi verið hannað eftir einhverri erlendri fyrirmynd, því mér hefur skilist að kerfið þekkist á tveimur öðrum stöðum í heiminum. Tveimur stöðum! Kannski felst næsta útrás Íslendinga í því að selja þetta frábæra kerfi til annarra hagkerfa í heiminum, því þetta er svo frábært og virkar svo vel. "Tryggðu aurinn þinn fyrir rýrnun með íslenska verðtryggingarkerfinu! NSÍ." gæti auglýsing nýja útrásar(seðla)bankans hljómað.

Tökum nú fyrir örfá atriði sem nefnd hafa verið sem rökstuðningur fyrir því að við getum ekki afnumið verðtrygginguna núna (og reyndar er þá aldrei sagt hvenær það yrði hægt).

Ríkið verður af 60-120, jafnvel 200 milljarða tekjum næsta hálfa árið.
Hér er átt við það að eign ILS í útlánum nemi 1200 milljörðum og mun eiga að hækka um a.m.k 60-120 milljarða næsta hálfa árið miðað við mjög varlega áætlaðar verðbólgutölur. E.t.v. verður um að ræða 200 milljarða. Sjá menn virkilega ekki hvað þetta er mikil rökvilla? Þegar 200 milljörðum er bætt inn í hagkerfið hlýtur að vakna spurningin um hvaðan þeir peningar komi, eða ? Þessir 200 milljarðar eru í dag ekki til í hagkerfinu, en þarna verða þeir til, án þess að til komi verðmætamyndun á móti. Þetta er að ég held það sem Jón Daníelsson, hagfræðingur hjá LSE, mundi kalla peningaprentun. 
Og menn gerðu hálfpartinn grín að Jóni þegar hann stakk upp á því að SÍ ætti e.t.v. að íhuga það að prenta smáslatta af peningum. Hann tók skírt fram að það myndi vissulega valda verðbólguskoti, sem óneitanlega kæmi þá óþægilega inn í verðtrygginguna. En ef þetta er rétt hjá honum, hverju valda þá 200 milljarðar sem verða til í hagkerfinu með tilstilli verðtryggingarinnar vegna hinnar væntu verðbólgu næstu 6 mánuðina (sem spáð er án þess að SÍ prenti peninga)? Ó, verðbólguskoti til viðbótar, sem aftur fer inn í verðtrygginguna ... og svo aftur ... Hvernig halda menn að það sé hægt að stöðva þetta? Og hvernig halda menn að þetta fari með heimilin og fyrirtækin?
Svo er bætt um betur og sagt að þetta séu peningarnir sem sjái fyrir veltunni þ.e. viðhaldi útlánagetu ILS. Í alvöru? ILS er sem sagt rekið svona nánast eins og pýramídakerfi, eða ?
Ég er farinn að líkja verðtryggingunni við önnur keimlík bólukerfi (eða blöðru). Erum við ekki enn farin að viðurkenna það að allar bólur og blöðrur sem haldir er áfram að blása í, springa á endanum? Hvar ætlum við að láta verðtryggingarblöðruna springa?

Verðtrygging er sanngjörn því hún viðheldur verðmæti þess fjár sem lánað er út. Þannig fær lánveitandi til baka sömu verðmæti og hann lánaði út, auk leigugjaldsins af fénu (vaxtanna).
Ok, þetta eru rök sem eru dálítið erfið hvað varðar að snúa sannfæringu manna. En, ég hef mína sannfæringu hér. Ég óska hins vegar innilega eftir innleggi og útskýringum hagfræðinga hér.
Sjóður eða einstaklingur sem á fé, ber ábyrgð á þessu fé. Hann hlýtur að leitast við að varðveita sitt fé og ávaxta það, ef kostur er. Í tilfelli sjóðs ber honum beinlínis skylda til að ávaxta féð, vegna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Til þess að varðveita og ávaxta fé þarf stöðugt að vega og meta áhættuþætti og ávöxtunarkjör sem í boði eru með mismunandi ávöxtunarleiðum. Í þessu felst að fjárfest er í steinsteypu, hlutabréfum, skuldabréfum, hrávöru (ekki mikill markaður með slíkt hérlendis) o.s.frv. Ef í boði er síðan einn valkostur enn sem er 100% tryggður gegn rýrnun, er eðlilegt að slíkur kostur sé álitinn álitlegur og jafnframt eðlilegt að tregða sé til þess að sleppa taki á slíkum kostakjörum. Sé þessi kostur hins vegar útilokaður af markaðinum hljóta fjárfestingar að leita í og dreifast á hina hefðbundnari kosti.
Það virðist vera dálítið ríkjandi sjónarmið talsmanna verðtryggingarinnar að fjármagnseigandinn eigi rétt á því að fé hans rýrni ekki. Það er að mínu mati ekki réttmætt sjónarmið. Ef fé er geymt undir kodda, rýrnar verðgildi þess í verðbólgu. Ef fé er lánað út, fást af því leigutekjur (vextir) sem skapa gróða, eða í versta falli, ef verðbólga er meiri en sem nemur vaxtastigi, rýrnar það minna en ella. Sé féð lagt í áhættusama fjárfestingu er alltaf sú hætta fyrir hendi að það glatist. Hér þarf fjármagnseigandinn einfaldlega að ná jafnvægi í dreifingu áhættu þ.a. fé hans rýrni ekki og ávöxtun náist. Þetta getur verið mikil vinna, en þetta er það sem fjárstýring gengur út á. Verðtrygging er ekkert annað en sjálfstýring.

Lífeyrissjóðirnir og ILS myndu ekki geta borið afnám verðtryggingarinnar.
Hér vísa ég til punktanna tveggja hér á undan. Þar fyrir utan þykja mér þessi rök bera vott um vonleysi, hræðslu og kjarkleysi til þess að taka á hlutum og breyta þeim. Ef það er rétt að sjóðirnir þoli ekki afnám verðtryggingar, þá eru þeir í svipaðri afneitun núna og bankarnir voru í alveg fram á síðasta dag. Munurinn er sá að bankarnir fengu ekki 'fixið' sitt frá erlendum bönkum, en það styttist í þann tíma að sjóðirnir fái ekki 'fixið' sitt vegna þess að fasteignaverð er hrunið og lánþegar þeirra sitja uppi með höfuðstól lána sem vaxinn er þeim langt yfir höfuð. Tap og hrun (sprenging blöðrunnar) eru óhjákvæmilegt. Bara spurning um tíma.

Ef verðtrygging er tekin af yrðu vextir óbærilega háir.
Vissulega! Í byrjun alla vega. En það sér það hver maður að það getur ekki verið viðvarandi ástand. Í þessari staðhæfingu felst uppgjöf fyrir því að þetta vaxtastig verði að vera hátt hér á Íslandi og þá mörgum sinnum hærra en alls staðar í kringum okkur. En veltum fyrir okkur tækifærinu núna. Það eru engin útlán í boði. Afnemum verðtryggingu af nýjum lánum og sjáum hvað gerist. Þegar útlán fara að bjóðast á ný, munu þau verða á fáranlega háum vöxtum þ.a. lánþegar hafa ekki efni á háum lánum. Því verður lítill hraði í fjárfestingum til að byrja með. Það ætti að verða til þess að verðbólga hjaðnaði hratt (að því gefnu að stöðugleiki sé kominn á í gengi og öðrum þáttum) og vaxtastig yrði lækkað hratt til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik. Jafnvægi á að geta náðst á viðráðanlegu vaxtastig og með viðráðanlegri verðbólgu á einhverjum punkti. Draumórar? Ef til vill, en heilbrigðari draumur en sú tálsýn að verðtrygging sjái til þess að hlutirnir geti gengið áfram hér og bólgnað endalaust.

Innlán myndu leggjast af ef ekki kæmu til verðtryggðir innlánsreikningar
Hef svarað þessu áður í eldri færslu.

Hér hef ég einblínt á rök sem heyrst hafa fyrir viðhaldi verðtryggingarkerfisins. Vísa í eldri færslur mínar fyrir beinum rökum gegn verðtryggingu.  

Ég geri mér grein fyrir að ég fer að hljóma eins og gömul plata, en ég hvet fólk til þess að kynna sér rök mín og annarra gegn verðtryggingunni og sér í lagi hvernig hægt er að andmæla rökum sem vísað hefur verið til verðtryggingunni til varnar. T.d. er hér ein af mínum færslum. Ég ítrekaði beiðni um rök og mótrök hér og fékk nokkur svör frá aðilum sem eru hliðhollir verðtryggingunni með tilvísunum í ágætis greinar um fyrirbærið. Ég held í sjálfu sér að ég hafi á einn eða annan hátt lagt fram mótrök gegn flestum rökum sem mæla með verðtryggingu í einhverjum af færslum mínum um þessi mál upp á síðkastið, en ef upp á vantar er sjálfsagt að reyna að bæta úr því. Í þessari færslu minni vísa ég í grein á Deiglan.is, þar sem ég andmælti greinarhöfundi í athugasemd.

Ég hvet alla til þess að kynna sér þessi mál til hlítar frá báðum hliðum og velta síðan fyrir sér nokkrum grundvallarspurningum:

1. Hvaða áhrif hefur prentun (þ.e. innspýting) peninga inn í hagkerfi?

2. Hvaðan koma peningar sem bætt er inn í hagkerfi?

3. Telst markaður frjáls ef aðeins annar aðili samnings um viðskipti tekur á sig alla áhættu með gerð samningsins og það er alltaf sami aðilinn sem tekur áhættuna?

4. Hvernig er hægt að viðhalda jafnvægi í vöruskiptajöfnuði við útlönd? 

Ég læt þetta liggja hér ósvarað í bili, en legg til mína tillögu að svörum við þessu í athugasemd síðar, ef umræður skapast (mér hefur reyndar aldrei tekist að skapa líflegar umræður, en það er allt í lagi. Ég er ekki síst að þessu fyrir mig).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Verðtrygging lána var gerð að lögum árið 1980 af Óla Jó í framsóknarflokki. Til að byrja með voru laun verðtryggð líka. Verðtryggingu launa var hætt held ég um 1982. Á árunum þar á eftir allt til árssins 1986 var óðaverðbólga og einmitt á þessum árum 82-86 missti fjölda fólks heimili  sín. Verðtrygging er eignaupptaka. Ég  fatta ekki alveg af hverju Lífeyrissjóðir og fjármálastofnanir geta ekki funkerað án verðtryggingar eins og löndin í kringum okkur gera.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 22.11.2008 kl. 01:47

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Man þetta vel því ég keypti mína fyrstu íbúð 1981 :-) Féll því utan við Sigtúnshópinn, sem fékk misgengið að nokkru bætt ca. 86.

Karl Ólafsson, 22.11.2008 kl. 01:49

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Sólveig, einmitt þetta með lífeyrissjóðina vekur upp spurninguna um hverjir stýri þeim? Eru það ekki mikið til verkalýðsleiðtogar okkar? Sem eru að vinna fyrir okkur, launafólkið í landinu, eða hvað? Hvaða hvatningu hafa þeir til þess að berjast gegn verðbólgu með öllum tiltækum ráðum?

Karl Ólafsson, 22.11.2008 kl. 01:51

4 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Karl þeir eru að braska með okkar peninga og eru búnir að tapa einhverju. Það eru margir sem ég þekki sem hafa lagt í séreign í lífeyrissjóði  og þeir eru búnir að tapa ca 20-30 % af sínum innistæðum. Svo við komum að þessum lögboðnu greiðslum sem eru á launþega 4% af launum og á móti leggur atvinnurekandi 8% af launum hvers launþega. Ef við náum ekki þeim aldri til að nýta þessa peninga þá hirðir lífeyrissjóður viðkomandi þennan pening. Svona er þetta og svona er þetta búið að vera. ÞETTA ER SPILLING. Lífeyrissjóðirnir eða forsvarsmenn þeirra eru ekki að berjast gegn verðbólgu með öllum tiltækum ráðum það er þeim ekki í hag. Þeir eru ekki að vinna fyrir okkur, þetta er orðið allsherjar sjóðasukk allavega frá mínum bæjardyrum séð.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 22.11.2008 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband