Zap - Hausmynd

Zap

Er einhver þingmaður til í að leggja fram vantraust á settan dómsmálaráðherra?

Það hlutu að verða einhver viðbrögð við arfaslakri og mótþróalausri einræðu setts dómsmálaráðherra í Kastljósinu í gær.

Í kvöld var ekki um einræðu eða drottningarviðtal að ræða, heldur ágætasta víðóma (stereo) framíköll þingmannanna Sivjar Friðleifsdóttur og Birgis Ármanssonar.

Birgir fullyrðir að settur dómsmálaráðherra í málinu njóti einróma stuðnings þingflokks D. Mig grunar óneitanlega að sumir hafi veitt þann stuðning með þögninni eða með tungubiti.  

Athyglisvert er að fréttamenn hafa leitað logandi ljósi að löglærðu fólki (sem ekki eru þingmenn í D liðinu) sem er tilbúið að koma fram og lýsa yfir stuðningi við málstað setts dómsmálaráðherra í þessu máli. Slíkt fólk virðist vera í felum. Óbreyttir D menn hafa heldur ekki þeyst fram á völlinn til stuðnings ráðherra sínum, svo ég hafi tekið eftir.

Þá lýsti Birgir því yfir að það væri ekkert óeðlilegt að það færi fram endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi við skipun dómar, bæði til Hæstaréttar og Héraðs. En hann vildi þó ekki ganga svo langt að slík endurskoðun tæki skipanavaldið frá ráðherra, heldur að ráðherrann bæri ábyrgð á embættisfærslum sínum hvað þetta varðar gagnvart Alþingi og svo gagnvart kjósendum sínum.
Ég hef þrennt við þessa útfærslu Birgis að athuga:
1. Með þessu er ekki hróflað við valdi ráðherra til geðþóttaákvörðunar. Ráðherra þarf aðeins að geta rökstutt ákvörðunina málefnalega (eins og Birgi þykir, fáum manna, settur dómsmálaráðherra hafa gert í þessu máli). Hver á að meta hvort rökstuðningur er málefnalegur eða ekki?
2. Hvað þýðir að bera ábyrgð gagnvart Alþingi? Er það þá hugsun Birgis að komi upp vafi á að embættisfærsla ráðherra sé málefnaleg og réttlætanleg þurfi einhver þingmaður að leggja fram vantraust á ráðherra og fá fram atkvæðagreiðslu á þingi um vantraustið? Dugir þá einfaldur meirihluti? Og hvað verður þá um þá tilteknu embættisfærslu sem setti slíka atburðarás af stað, fáist vantraustið samþykkt? Er ráðherra sætt í embætti ef þingið hefur samþykkt vantraust á embættisfærslu hans?
3. Er Birgir að treysta á velþekkt gullfiskaminni kjósenda?

Þetta er náttúrulega meira en 3 atriði sem ég tel þarna upp. Það mætti líka bæta því við að þessar hugmyndir væru kannski góðar og gildar ef Alþingismenn Íslendinga væru einhvern tímann tilbúnir til að láta ráðherra bera raunverulega ábyrgð á embættisfærslum sínum. Ekki bara þusa og láta svo hlutina halda áfram óbreytta.

Kannski væri reyndar ágætis hugmynd ef einhver þingmaður treysti sér til að leggja fram vantraust á settan dómsmálaráðherra nú vegna þessarar umdeildu embættisfærslu og þvinga fram atkvæðagreiðslu. Náist vantraust ekki í gegn er alla vega ekki hægt að segja annað en að leyst hafi verið úr ágreiningnum sem uppi er með eins lýðræðislegum hætti og mögulegt er.

Ég fyrir mitt leyti treysti mér til að heita því að ég skal hafa mig hægan og sætta mig við gjörning setts dómsmálaráðherra eftir að Alþingi hefur greitt atkvæði um vantraust á ráðherrann! Standist ráðherra þann dóm Alþingis, er eina úrræðið sem eftir er að kjósendur Suðurkjördæmis felli sinn dóm í næsta prófkjöri (að öðru óbreyttu). Það er vissulega endanlegur lýðræðislegur dómstóll í svona málum. Á alveg sama hátt og ég segi hér að ofan að Alþingismenn þurfi að láta ráðherra bera ábyrgð, þá verðum við kjósendurnir að læra að láta frambjóðendur bera ábyrgð á verkum sínum, þegar við fáum til þess tækifæri.

Ég neita því ekki að mér hugnast betur sú tillaga að 2/3 hlutar Alþingis þurfi að leggja blessun sína yfir skipan Hæstaréttar- og Héraðsdómara. Það þarf ekki að taka langan tíma ef allt er í lagi og réttum ferlum hefur verið fylgt við mat og skipun í viðkomandi embætti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar Bjarni Benediktson var menntamálaráðhera 1953-56 var lögð fram vantauststillaga á hann vegna ráðningar hans á skólastjóra, að mig minnir á Akranesi.

Bjarni var ráðherra í svipaðri helmingaskiptastjórn og nú situr, með gríðarlegan þingmeirihluta og ég man það vel hverning framsóknarmenn vörðu Bjarna í erg og gríð í útvarpsumræðum um málið, þar sem Bjarni fór reyndar á kostum í vörn fyrir vægast sagt vafasama ráðningu með því að lesa orðrétt lýsingu á sér upp úr Þjóðviljanum sem sýndi alveg makalaust hugmyndaflug þess sem skrifaði hana. 

Bjarni vissi það ekki þá að þetta yrði löngu síðar af eftirmanni hans kallað "smjörklípuaðferðin" en víst er um það að þetta er það eina sem ég man í dag úr þessum útvarpsumræðum.

Ég er ansi hræddur um að sama yrði uppi á teningnum nú og að um þetta gildi  erlenda orðtakið: Ég klóra þér á bakinu og þá klórar þú mér á bakinu.  

Ómar Ragnarsson, 16.1.2008 kl. 22:22

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Takk fyrir innleggið Ómar. Góður punktur.
Ég er ekki í vafa um það að slíkt bakklór getur og mun koma upp, hvaða leið sem valin er.
Það sem er þó öðruvísi (og ögn lýðræðislegra) í dag er að stjórnmálamenn á dögum Bjarna Ben þurftu aldrei að ganga í gegnum prófkjör.

Karl Ólafsson, 16.1.2008 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband