Zap - Hausmynd

Zap

Um nefskatt og þá sem ekki þurfa að borga hann ...

Nú er ég saklaus af því að hafa hlustað á svo mikið sem eitt orð af umræðum á Alþingi um RÚV frumvarpið. Hef þó skilið að afnotagjöld muni víkja fyrir nefskatti, sem eins og við mátti búast kemur þyngst niður á stórum fjölskyldum, sem sagt fólki eins og mér og mínum :-)

Þetta er svo sem ekkert sem kemur mér á óvart eða eitthvað sem ég hef ekki séð áður. Þegar ég eignaðist fjórða barn mitt og Volvo-inn minn gamli varð of lítill til að vera löglegur undir alla fjölskylduna í einni ferð, breyttust reglugerðir um bifreiðagjöld á þann veg að farið var að miða við vélarstærð. Þetta átti að sporna við óhóflegri hestafla og stór-jeppavæðingu, en allir ættu að geta séð hvernig til tókst með þá ráðstöfun ef núverandi bílafloti landsmanna er skoðaður.

Þessi breyting jók hins vegar ekki líkurnar á því að ég gæti eignast 7 manna fjölskyldubíl á þeim tíma (5 barnið bættist við nokkru síðar) þar sem stærri bíll þarf óhjákvæmilega stærri vél. Slíkan bíl eignaðist fjölskylda mín ekki fyrr en við fluttumst af landi brott um nokkurra ára skeið.

En þetta með bifreiðagjöldin er útúrdúr, ég ætlaði að tala um nefskattinn. Sem sagt í minni fjölskyldu sem öll er að fullorðnast, búa nú 4 einstaklingar sem eru á skattgreiðslualdri, 5 ef sá 17 ára er talinn með, en ég hef reyndar ekki kynnt mér hvar viðmiðunarmörkin eru. Sem sagt, ég má búast við því að við munum greiða sem nemur væntanlega 3 ef ekki 4 eða 5 afnotagjöldum!

Það er allt í lagi, það bætist ofan á verðbæturnar og vextina sem ég er búinn að greiða og svo fresta að greiða og lenda í vandræðum með svo upp hefur safnast síðan 1981.

Hitt er mér nokkuð sárara um hins vegar að sjá að það verður hér undanskilinn ca. 2.200 manna hópur, sem ekki mun þurfa að greiða nefskatt v. RÚV vegna þess að þeir greiða einungis fjármagnstekjuskatt, engan tekjuskatt og ekkert útsvar (og þ.a.l. ekki heldur væntanlega tryggingagjald, kirkjusjóðsgjald og hvað þetta heitir allt saman). Hvernig er hægt að una því að svona sé um hnútana búið? Það er hins vegar svo auðvelt að laga þetta misrétti að það er eiginleg hlægilegt að það skuli ekki vera búið að því.

Höfum eitt á hreinu fyrst. Ég er ekki á móti því að fjármagnstekjuskattur sé á lægri skattprósentu en tekjuskattur. Ég held að það megi rökstyðja að það fyrirkomulag eigi sinn þátt í því að fjármálamarkaður hérlendis hefur náð að blómstra síðustu ár. Ég tel hins vegar að ekki væri ósanngjarnt að í stað 10% væri fjármagnstekjuskattur t.d. 18% í takt við skattprósentu lögaðila.

En svo kemur að hinu, hvernig má það vera að hægt sé að telja fram til skatts hérlendis, án þess að telja fram á sig tekjur? Einyrki, sem starfar sem verktaki má ekki binda allar tekjur sínar við t.d. einkahlutafélag í sinni eigu og taka út peninga úr fyrirtæki sínu sem arð fyrr en hann hefur reiknað sér tekjur sem a.m.k. miðast við sérstaka viðmiðunartöflu RSK. Fer þar eftir starfsvettvangi hverjar lágmarkstekjurnar skuli vera. Þannig  verður t.d. sjálfstætt starfandi ráðgjafi að reikna sér hærri tekjur en sjálfstætt starfandi bifvélavirki. Hvernig má það vera að þessu sé öðruvísi farið ef starfsheiti þitt er 'athafnamaður' eða 'viðskiptajöfur' eða 'fjármagnseigandi'?

Ber að skilja það sem svo að það sé sem sagt engin vinna á bak við það að sýsla með fé sitt og láta það ávaxta sig? Ávaxtast fé af sjálfu sér, án þess að maður þurfi svo mikið sem að hugsa um það? Og ef það er vinna á bak við það að ávaxta sitt fé, hver er þá munurinn á þeirri vinnu og sérfræðingsvinnu sem maður vinnur fyrir þriðja aðila og innheimtir þóknun og Vsk fyrir? Hver er eðlismunurinn hér? Yfirsést mér eitthvað?

Er sem sagt ekki lausn málsins einfaldlega sú að Rsk bæti við starfsheitinu 'Athafnamaður' eða 'Ávöxtunarsérfræðingur' í viðmiðunartöflu sína og gangi síðan eftir því að þeir sem eingöngu telja fram fjármagnstekjur flokkist sem slíkir og beri að telja fram á sig tekjur til samræmis við töfluna. Fjármagnstekjur umfram þessi viðmiðunarmörk falla svo undir skattprósentu fjármagnstekna. Með þessu móti leysist tvennt: Allir og þá meina ég allir, greiða nefskatt RÚV og öll hin gjöldin og svo væri hér að nokkru leyti hækkuð skattakvöð umfram flatan 10% fjármagnstekjuskatt.

Það er ekkert fullkomið skattakerfi til (nema algert skattleysi), en væri ekki ráð að halda áfram að reyna að stoppa í augljós göt, eins og reynt hefur verið að gera síðustu ár þegar kemur að mönnum með sjálfsbjargarviðleitni sem leitað hafa út í stundum vitlausan ehf rekstur. Ég skal alla vega sætta mig við að greiða þessi viðbótarafnotagjöld sem falla á mína fjölskyldu, ef þessir 2.200 greiða líka alla vega ein afnotagjöld, því ég er nokkuð viss um að þessir aðilar eiga líka útvarps- og sjónvarpstæki.

 Og lýkur hér fyrstu tilraun minni til þess að koma hugsunum mínum út í bloggheima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Þú hefur lög að mæla, Karl Ólafsson.

Ég mun styðja þig á þing. Það er alveg deginum ljósara að það hefur enginn reiknað með því að þróunin yrði á þessa leið. Og kunnáttuleysið er algert þegar kemur til kasta löggjafans, enda fer allt þeirra púður í að halda sér í embætti og rægja andstæðinga sína í öðrum flokkum.

Þetta snýst ekkert um réttlæti eða sanngirni. Þetta snýst um að halda meirihluta landsmanna við efnið. Íslendingar hafa selt eigur sínar bönkunum og eru nú orðnir leiguliðar á ný. Fjármálabarónar eiga sitt, aðrir leigja, stjórnmálamenn eru á mála hjá fjármálamönnum og allir sem vilja vera með þurfa að mála sig stóra og vinna sem málaliðar við mismálefnaleg mál, stór og smá. (Fyrirgefðu málæðið, stóðst ekki mátið).

Borgarskáldið, Tómas Guðmundsson orðar þetta ferðalag í kvæði sínu, Hótel Jörð.

Er nokkuð nýtt undir sólinni?

Gamall nöldurseggur, 1.2.2007 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband