Zap - Hausmynd

Zap

Borgarafundur í Hafnarfirði

Það var gaman að sjá samstöðu Hafnfirðinga á nær þriggja klukkustunda borgarafundi í dag. Starfsmaður íþróttahússins áætlaði að 1800 manns hafi verið í húsinu þegar mest var. Hver einn og einasti virtist þarna kominn til þess að láta í ljósi andstöðu við þá fyrirætlan heilbrigðisráðherra að leggja niður núverandi starfsemi St. Jósefspítala og færa hana til LSH í Reykjavík og í Reykjanesbæ.

Enginn sem kvaddi sér hljóðs reyndi að mæla þessum aðgerðum bót nema ráðherrann sjálfur. Rökstuðningur ráðherra er að mínu mati veikur og hefur honum ekki tekist að útskýra hvers vegna á að gera akkúrat þessa breytingu og hvernig það á að leiða til aukinnar hagræðingar. Ekki fæst heldur séð hversu stóran hluta af 1.300 milljóna heildarsparnaði á að ná með þessum hluta áætlunarinnar.

Ráðherra stillti dæminu upp þannig að hér hafi verið valin skásta leiðin af einum 4 slæmum kostum og spurði hvort menn vildu heldur sjá stórauknar gjaldtökur (eh, við erum að fá þær) eða skerðingu á þjónustu (eh, ég er hræddur um að við séum líka að fara að sjá fram á slíkt). Þessi röksemdafærsla er svo sem orðin velþekkt og alvanaleg hjá stjórnmálamönnum. Utanríkisráðherra spurði til dæmis hvort menn hefðu viljað kasta 200 milljónum í vonlaust dómsmál í Bretlandi, en láðist að geta þess að enginn var spurður hvort menn vildu kasta 1.000 milljónum í vonlaust framboð til Öryggisráðs SÞ. En nei, við viljum ekki stórauka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og við viljum ekki horfa upp á stórskerta þjónustu þar. Við viljum held ég öll standa vörð um heilbrigðiskerfi okkar eins og það er. En það má án efa hagræða þar á ýmsum sviðum þ.m.t. í rekstri St. Jósefspítala án þess að leggja hann niður.

Það kom fram í máli ráðherra að 5 skurðstofueiningar væru reknar í dag á Suðvesturhorninu með öllum þeim fastakostnaði sem því tilheyrir og með slæmri heildarnýtingu. Spurt var á móti hvernig staðið hafi á því að skurðstofurnar á Reykjanesi voru byggðar fyrst ekki var þörf fyrir þær. Þær standa nú lítt nýttar og ómannaðar og þar liggur væntanlega hnífurinn í kúnni fyrir ráðherrann og bæjarstjórann þar sem vill svo til að er í sama flokki. Það er þar sem pólitíski fnykurinn kemur af þessu máli að maður tali ekki um ef rétt er að auðkýfingur vilji koma að þjónustu við skurðdeildina á Reykjanesi með einhverjum hætti í framtíðinni.

Ráðherra sagði og sýndi á súluriti að fækka skyldi þessum 5 skurðdeildum í 2 og ná þannig að skera niður fastakostnað þriggja deilda. Samt sýndi súluritið sem hann sýndi á glærum með þessum orðum að þessar 2 deildir ættu að verða 100% nýttar, en svo virtist mér sem sýnd væri 5-10% nýting á þriðju deildinni. Dæmið gengur ekki upp fyrir mér. Í fyrsta lagi efast ég um að hægt sé að keyra skurðdeildir á 100% nýtingu, en auðvitað má vera að það sé útúrsnúningur hjá mér þar sem forsendur á bak við þessi súlurit eru óljós og óskýrð. En í öðru lagi er spurning í mínum huga hvort þarna sé á lumskan hátt verið að segja að það verði ákveðinn kúfur þarna sem ekki verði sinnt af þessum 2 deildum, en einkareknar skurðstofur yrðu fengnar til að sjá um þær aðgerðir, eða að öðrum kosti þær söfnuðust upp í biðlista. Það er auðvelt að ljúga með línuritum og súluritum eða sýna þann sannleika í þeim sem maður vill að komi fram.

Ein rök fyrir því að leggja niður skurðdeild St. Jó er að húsnæði þar sé ófullnægjandi. Starfsfólk spítalans hefur hins vegar útskýrt á sannfærandi hátt að vissulega hefði mátt úr því bæta og um það hefði verið beðið í hinu meinta góðæri, en húsnæðið er hins vegar fyllilega boðlegt til að nýta það áfram óbreytt úr því að peningar eru nú af skornum skammti og ná þarf fram sparnaði. Fresta má öllum úrbótum.

Ég er þeirrar skoðunar að St. Jó sé ömurlegt húsnæði fyrir öldrunardeild að óbreyttu. Ég styrktist í þeirri skoðun minni í dag við að heyra það að hugmyndin væri sú að byrja að nota húsnæðið sem öldrunar- hvíldarinnlagnarspítala án þess að fjárfesta í neinum breytingum á húsnæðinu. Þetta húsnæði hentar bara að mínu mati alls ekki til þess. Ég vil síður fara út í að útskýra hvers vegna ég er þessarar skoðunar, en hún er byggð á ákveðinni reynslu.

Það mætti rekja í löngu máli þau rök sem hníga að því að ákvörðun heilbrigðisráðherra að leggja niður starfsemi St. Jósefspítala sé vanhugsuð og röng. Ég er bara ekki rétti maðurinn í það en ég vildi bara koma á framfæri í stuttu máli þessum sjónarmiðum mínum. Í lok fundarins í dag kom fram að menn myndu setjast að borðum og ræða þessi mál til þrautar. Vonandi tekst að fá ráðherrann til þess að skipta um skoðun, en geri hann það á hann virðingu skilið og það er ljóst að Hafnfirðingar myndu meta það við hann. Fundurinn í dag var málefnalegur og laus við skítkast og ókurteisi. Hafnfirðingar virðast vera bara nokkuð siðað fólk sem lætur þó ekki bjóða sér mótþróalaust hvað sem er :-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Stefán: Vel rekin stofnun? Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir við stofnunina.

Mér finnst gott hjá Guðlaugi að mæta. Það eru fáir sem hafa þorðað að mæta á svona fund.

TómasHa, 10.1.2009 kl. 23:10

2 identicon

Má vera að það hafi farið fram hjá mér en hvernig hljóðar sparnaðurinn með hlutverkabreytingu St. Jósefsspítala í krónum og aurum eða með öðrum orðum; hver er áætlaður sparnaður ríkisins af þessari ráðagerð ?

Ég er alveg opinn fyrir að heyra hversu mikið má spara ríkinu í krónum og aurum með að t.d. ;

1) að laga eftirlaunakerfi æðstu embættismanna ríkisins að eftirlaunakerfi almennings !

2) að fella niður aðstoðarmannakerfi ráðherra og sérstaklega alþingismanna !

3) að fella niður alla styrki til stjórnmálaflokka og málgagna þeirra !

4) að fækka þingmönnum um helming og lengja starfsskyldu þeirra í 10 mánuði og hálfum mánuði betur !

5) að fækka nefndum ríkisins stórlega, enda er ekki að sjá mikinn árangur af starfi þeirra svona yfirleitt !

6) að fækka í utanríkisþjónustinni umtalsvert, t.d. um 80% !

7) að fækka ferðum opinberra aðila til útlanda t.d. um 80% !

8) að afnema dagpeningagreiðslur til utanlandsferða á vegum ríkisins.  Eingöngu að greiða framlagða reikninga !

9) að afnema ókeypis afnot embættismanna að bifreiðum og öðrum farartækjum !

10) að afnema allan risnukostnað hins opinbera !

Þetta eru aðeins 10 atriði sem ég nefni en mörg önnur eru ótalin, að þessu sinni.  Þessi atriði sem ég tel upp, vega ekki gegn hagsmunum almennings, heldur aðeins að þeim, sem komið hafa okkur í þetta andstyggilega ástand.

Það eru til leiðir til að skera niður kostnað ríkisins, aðrar leiðir en að skera niður samfélagsþjónustuna og ganga á rétt hins almenna borgara.

En annars; hversu margar krónur og aura er ég að tala um hér að ofan ?

Hversu marga liði af ofangreindum atriðum þarf að taka til greina til að bjarga t.d. St. Jósefsspítala, sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og fleirum ?

Ekki meira að sinni !

Stefán (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 00:01

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Tómas,

nú veit ég ekki hvers eðlis athugasemdir Ríkisendurskoðunar v. St. Jó hafa verið, en það er ekki í öllum tilfellum sem athugasemdir þaðan þýðir að um sé að ræða illa rekna stofnun. Segir stundum meira um þær skorður sem stofnuninni hafa verið settar.

En hvernig sem það er í þessu tilfelli réttlæta slíkar athugasemdir varla það að stofnun sé lögð niður og starfsemin byggð upp á öðrum stað, jafnvel með sama fólkinu að miklu leyti. Hvernig er hægt að reikna út hagkvæmni þess?

Karl Ólafsson, 11.1.2009 kl. 00:15

4 Smámynd: TómasHa

Ég var nú fyrst og fremst að gera athugasemd við það sem kom fram hérna í athugasemdinni á undan, ég hef engar upplýsingar um þær forsendur sem lágu fyrir ákvörðun um að loka stofnuninni. Stofnun sem fer ár eftir ár yfir fjárheimildir er ekki vel rekin, og varðandi skorðunar þá verða stofnanir að sníða sér stakk eftir vexti.

Það var heldur varla vegna þess að stofnunin var illa rekin sem gerði það að verkum að stofnuninni verður breytt, heldur fyrst og fremst að aðrir hagkvæmari kostir eru í boði.

TómasHa, 11.1.2009 kl. 13:40

5 Smámynd: Karl Ólafsson

Tómas,
þakka þér athugasemdirnar.

Það er einmitt ekki svo ljóst að hagkvæmari kostir séu í boði, það er heila málið. Ráðherra hefur að mínu mati ekki sýnt fram á hagkvæmni þessara breytinga á sannfærandi hátt. Þess vegna er enn pólitískur fnykur af þessu máli, þar sem skapa á með þessum hætti nýtingu á fjárfestingu í öðru sveitarfélagi, fjárfestingu sem ráðherra getur ekki svarað fyrir um hvers vegna lagt var út í, eða hver hafi tekið ákvörðun um. Og hvernig á sama fólkið að geta veitt sömu þjónustuna í sama mæli og með sömu gæðum innan enn þrengri ramma, bara með því að flytja starfsemina í annað sveitarfélag?

Mér sýnist þú gefa þér að hagkvæmari kostir séu í boði fyrst ráðherra hafi komist af þessari niðurstöðu. Þú berð þá meira traust til heilinda ráðamanna í dag heldur en þorri þjóðarinnar. Ég dreg í sjálfu sér ekkert í efa að hagkvæmari kostir eru í boði og að það sé hægt að hagræða og ná fram sparnaði. Ég dreg í efa forsendur þessarar tilteknu ákvörðunar. Svona ákvörðun verður að vera hafin yfir vafa pólitískrar íhlutunar og sérhagsmunapots, en þessi ákvörðun er það einfaldlega ekki.

Dæmið gengur ekki upp í mínum heila, e.t.v. gengur dæmið upp í Excel, en þá spyr maður hvort allar breyturnar hafi verið settar inn í Excel skjalið? Pólitískar og mannlegar breytur eru einmitt ósýnilegar þar. Ég veit reyndar ekki til að Excel skjalið þar sem þetta er reiknað út í smáatriðum hafi verið gert opinbert. Aðeins úrdráttur úr því í formi glæra þar sem eru niðurstöðutölur sem eiga að sýna hagræðinguna en gera það í raun ekki.

Karl Ólafsson, 11.1.2009 kl. 14:26

6 Smámynd: Gummi Kalli

Hefur þú eitthvað í höndunum fyrir því Tómas að stofnunin fari fram yfir fjárheimildir? Ég hef nefnilega heyrt annað úr hinum ýmsu áttu, þ.e. að spítalinn sé sá eini sem skilar rekstrarafgangi. Ég veit ekki hvað er til í því, en ég veit ekki hvað er til í þínum fullyrðingum heldur en þú getur kannski svarað því.

Gummi Kalli, 11.1.2009 kl. 15:30

7 Smámynd: Karl Ólafsson

Stefán (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 00:01

Takk fyrir athugasemdina. Þetta er góður punktur hjá þér og gild spurning.

Af einhverjum órannsakanlegum orsökum birtist athugasemd þín fyrst nú í morgun 14.1 enda þótt hún sé skráð 11.1 og birtist þar í röðinni. E.t.v. eitthvert klukkuvandamál á einhverjum miðlara mbl.is.

Karl Ólafsson, 14.1.2009 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband