Zap - Hausmynd

Zap

Er Verðtryggingin náttúrulögmál?

Fyrir nokkru skrifaði ég bloggfærslu um verðtryggingu sem ég síðan sendi inn til mbl og fékk birta. Ég hef síðan skrifað örfáar (enda latur penni, sjá hér og hér ) færslur um sama efni og verð að viðurkenna að þetta málefni er að verða að þráhyggju hjá mér. Ég hef hugsað mér að láta ekki staðar numið, heldur halda áfram og þá helst af auknum krafti að berjast fyrir því að verðtrygging verði afnumin með öllu hér á landi í því umbreytingarferli sem efnahagslíf okkar Íslendinga á að vera að ganga í gegnum. Á að vera segi ég, því það er ekki að sjá að mikil frumlegheit séu í gangi enn sem komið er. Hingað til hef ég hent inn einni og einni færslu um mál sem á mér brenna, en ég hef lítið hirt um að reyna að laða til mín lesendur eða athugasemdir. Nú kann að vera að ég skipti um taktík og fari að auglýsa grimmt eftir afstöðu manna bæði með og á móti sjónarmiðum mínum, til þess að umræða skapist og fari um víðan völl. Vonandi getur það þó orðið til þess að rödd þeirra sem ekki eru tilbúnir að sætta sig möglunarlaust við óbreytt fyrirkomulag verðtryggingar á Íslandi til frambúðar verði háværari og nái að heyrast sem víðast. Ég get ekki lengur setið bara hjá aðgerðarlaus og horft upp á mín börn feta sömu fótspor og við hjónin höfum fetað síðustu 26 árin.

Undantekningarlaust, þegar stjórnmálamenn eru spurðir hvort hægt væri að afnema eða aftengja verðtryggingu lána hérlendis er svarað í einni setningu sem hljómar eitthvað á þessa leið:

- Lífeyrissjóðirnir telja ekki unnt að afnema verðtrygginguna að svo stöddu (GH ágúst eða september, 2008 ef ég man rétt og svo aftur í október)

- Það er mat íbúðalánasjóðs og Félagsmálaráðuneytisins að afnám verðtryggingar að svo stöddu yrði of íþyngjandi fyrir íbúðalánasjóð (ISG, ef ég heyrði rétt, 17.11.2008)

Svona eru svörin iðulega, lífeyrissjóðirnir og ILS myndu ekki þola niðurfellingu verðtryggingar. Og síðan er umræðan engin, enginn rökstuðningur, engum orðum eytt í hvort heimili landsins og fyrirtæki þoli að bera verðtrygginguna. Eini valkosturinn sem boðið er upp á eftir 6 vikna yfirlegu og eftir að búið var að vekja upp ákveðnar væntingar um að til einhverra raunhæfra ráðstafana yrði gripið, er ný vísitala sem enn og aftur tryggir það að skuldarinn (glæpamaðurinn sem tók allt of stórt lán) ber alla áhættu lánsins, en skuldareigandinn er 100% tryggður gegn því að verðmæti þess sem hann lánar geti rýrnað, alveg sama hvað gengur á í efnahagslífi landsins (því hvenær höfum við séð, eða munum við sjá viðvarandi verðhjöðnun á öllum sviðum sem koma til útreiknings vísitölu?)

Nýja greiðslujöfnunarvísitalan verður með þeim hætti að verbætur sem dregið er að leggja beint við höfuðstól lánsins til útreiknings á afborgun lánsins bætist engu að síður við höfuðstól lánsins, en geymist einhvern veginn til hliðar þar til hægt verður að smyrja honum beint inn á höfuðstól þess. Mér er reyndar ekki ljóst eftir lestur þessara útskýringa hvernig vaxtaútreikningi verður háttað, en mig grunar þó að þessi nýi angi höfuðstólsins beri sömu vexti og verði á sama hátt og áður reiknaður inn í höfuðstól fyrir næsta verðbótaútreiking og svo næsta, o.s.frv.

Svo er sagt að EF skuld er á þessum jöfnunarhöfuðstól lánsins við lok lánstíma lengist lánið og hefst þá niðurgreiðlsla þess höðuðstóls þar til hann er uppgreiddur (nú eða lántaki ellidauður, en þá verður væntanlega lánveitandinn sjálfkrafa aðalerfingi hinnar veðsettu 'eignar' hans, nema hvað?).

Er þetta framtíðin sem við viljum búa við og er þetta framtíðin sem við viljum búa afkomendum okkar? Höfum við trú á því að ástandið hér á landi verði með þeim hætti næstu 10, 20 árin að þessi nýi höfuðstóll lána okkar verði ekki í bullandi skuld þegar lán okkar verða uppgreidd?

Í mörg ár hefur mér verið sagt að ég hafi einfaldlega tekið of stór lán og farið offari í mínum peningamálum. Ég hef hingað til svo sem tekið það á mig og oft hef ég óskað þess að ég hefði farið rólegar í tiltekna hluti, en ég tek þó fram að ég er ekki fjárhættuspilari og hef aldrei verið, ég hef aldrei tekið lán til sumarleyfisferða erlendis, ég hef aldrei tekið lán fyrir nýjum bíl (ég er þó sekur um að hafa tekið bíl af 2004 árgerð á kaupleigu árið 2007 á 1400þkr erlendu láni, en sá bíll stendur nú í tvöföldu því verði og er hann nú kominn í vörslu fjármögnunarfyrirtækisins). En jú, ég keypti vissulega raðhús sem rúmaði fjölskyldu mína á 80% láni sem nú stendur líklega í a.m.k. 110% og er vaxandi á meðan verðmæti húsnæðisins fer minnkandi. Ég stend í þeirri meiningu að ég sé búinn að borga húsverð húss míns 2-3 sinnum á síðustu 25 árum, en enn er ég kominn í þá stöðu að verðtryggingin nær að éta upp allan minn litla eignarhluta. Ég hef séð það gerast áður. Þessi barátta er algerlega vonlaus en það sorglegasta er að það er ekki að sjá að það sé nokkur kjarkur til í nokkrum stjórnmálamanni til þess að hreyfa við þessum málum.

Þegar ég réðst í þessu húsakaup sá ég fyrir mér að ég gæti bakkað út úr þessu og selt húsið, ef ég sæi fram á að dæmið gengi ekki upp. Þetta reyndi ég fyrir ári síðan, en það var um það leyti sem markaðurinn fyrir stærri eignir hreinlega botnfraus, alveg sama hvað formaður félags fasteignasala segði oft í sjónvarpinu að markaðurinn væri ekki frosinn.

Er verðtryggingin þá náttúrulögmál sem ekki er hægt að hrófla við? Hefði það skelfilegar afleiðingar fyrir ILS og lífeyrissjóðina, ef verðtrygging yrði afnumin og lánamarkaður látinn þróast í áttir sem nálgast það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar? Er það náttúrulögmál að vaxtastig á Íslandi verði að vera svo hátt um aldur og ævi að það þurfi verðtryggingu til að hægt sé að plata almúgann út í það að taka verðtryggð lán af því að greiðslubyrðin kemur þá bara seinna? Þá er náttúrulega hægt að láta svo líta út að fólk hafi efni á að kaupa sér stærra og dýrara húsnæði fyrr. Er það líka náttúrulögmál að ekki sé hægt að halda verðbólgu innan 2-4% marka til lengri tíma til þess að bit verðtryggingarinnar marki ekki dýpra en svo á 20-40 ára lánstíma að möguleiki sé að greiða niður höfuðstól slíkra lána. Má ekki e.t.v. gera ráð fyrir því að það sé náttúrulögmál að með verðtryggingu sé fræðilega ekki hægt að halda verðbólgu undir ca. 3-4% vegna sjálfvirkra verðbólguhvetjandi áhrifa verðtryggingarinnar sjálfrar? Má ekki halda því fram að verðtrygging sé falin aðferð til þess að prenta peninga sem ekki eru í raun til í hagkerfi landsins?

Ég lofaði í athugasemd við athugasemd fyrir nokkru að ég skyldi svara rökum sem fram komu með verðtryggingu. Ég hef ekki enn staðið við það loforð, en ég endurnýja það loforð hér með. Ég er ekki hættur. 'I'm down, but not out'! 

Ég hvet eindregið alla þá sem telja að nauðsynlegt sé að endurskoða kerfi verðtryggingar á Íslandi að láta í sér heyra.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Verðtrygging á lán er auðvitað hreint rán.  Sem mér skilst að þekkist ekki annars staðar en hér.....svo haltu áfram að berjast.  Mér var sagt að ef verðtryggingunni væri sleppt yrði íbuðalánasjóður og lífeyrissjóðir tímir eftir 2 mánuði.  Hvernig getur staðið á því.......erum við alltafa að fjármagna ÍLS?

Hólmdís Hjartardóttir, 18.11.2008 kl. 02:24

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

TÓMIR...

Hólmdís Hjartardóttir, 18.11.2008 kl. 02:25

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Hólmdís,

sé þessi hræðsluáróður sem gjarnan er notaður sannur er fjármögnun ILS og lífeyrissjóðanna byggður á bólu eða blöðru, sem óhjákvæmilega mun springa eins og allar aðrar blöðrur sem blásið er í. Þessi blaðra er við það að springa þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir fjölskyldna eru að verða eignalausar með öllu.

Verðtryggingin er prentun á peningum sem ekki eru til í hagkerfinu og því stendur í raun ekkert á bak við þá 'fjármögnun' þar sem engin raunveruleg eignarmyndun er til staðar. Það hefur aldrei þótt góð hagfræði að prenta peninga og það er viðurkennt að slíkt er verðbólguhvetjandi. Enda er verðtrygging augljóslega til þess fallin að viðhalda háu verðbólgustigi.

Karl Ólafsson, 18.11.2008 kl. 03:21

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

og við höldum áfram að borga og borga........

það er eitthvað mjög bogið við þetta.  Við lifum í sýndarveruleika og blekkingum. Takk fyrir svarið.

Hólmdís Hjartardóttir, 18.11.2008 kl. 03:32

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég hef fylgst með þessari umræðu og læt mig hana varða.  Verðtryggingin sjálf er sjálfsögð ef hún tekur mið af því sem er sett að veði. Í þessu tilviki má segja markðsverði íbúðarfermetra á sérhverjum tíma.

Nú eru allir ábyrgir, ósiðspilltir menn eru sammála um að:

      Íbúðaverð heimilana er friðhelgur markaður.

Með því að miða við meðal markaðsverð íbúðarfermetra yfir löng tímabil (3 ár eða meira) hverfa þessi áhættu uppsveiflu vaxtar kippir sem fylgja núverandi viðmiðunarvísitölu:  Neysluverðs til verðtryggingar,  sem tekur mið af skammtíma braskara sjónum á verðbréfamörkuðum.  Og er í raun ekkert annað en dráttarvextir, í augum þeirra sem standa skilum, í uppsveiflu neyslumarkaða: oftast nefnt verðbólga.

þá sem verja núverandi viðmiðum má skipta í tvö hópa:

a) Þá sem þegja þunnu hljóði það er þá sem græða og skilja þetta.

b) Þá sem stíga ekki í vitið og "blaðra" hvað mest um ómöguleika leiðréttingar.

íbúðabréf heimilanna eru undirstaða og verðmætustu langtímabréf á markaði  þar sem þau er skuldurunum lífsundirstaða: enginn vill búa á götunni.  

Algjör siðpillinng að flokka þau með skammtíma braskarabréfun  á markaði.

Blekkingarnar þjóna þeim sem mata krókinn á þeim sem ekki skilur.

Júlíus Björnsson, 18.11.2008 kl. 10:21

6 identicon

Ég skil ekki hvernig er hægt að reyna einusinni að réttlæta þetta, þar sem að ég kem til með að borga í lífeyrissjóð alla æfi þá hef ég ekki áhyggjur á að það

verði engir peningar í elli minni. Afhverju er ekki í það minnsta hægt að setja höft á verðtrygginguna t.d. með því að lækka vextina niður í 2% Þessir óraunhæfu vextir og stýrivextir eru að setja hvert fyrirtækið á fætur öðru í þrot. Ég þekki menn sem eru nógu góðviljaðir að segja ekki upp fólkinu sínu í þeirri von að ástandið lagist, en hann er hinsvegar búinn að segja við þennan erlenda starfskraft sem hann hefur að útlitið sé svart og þeir gætu misst vinnuna. En við erum ekki að tala um vexti hér.

Verðtryggingin er að eiðinleggja mína framtíð ásamt svo margra annara. Fólk á mínum aldri er ekki að flytja út fyrr en að nálgast 25 - 30 ára aldur. Fynnst mönnum ekkert að þeirri mynd?

og þeir sem hafa tekið stökkið eru flestir að fara í þrot og það hratt með enga eign á bakvið lánin sín þar sem að verðtryggingin át upp eignarhlutina þeirra, aftur hvernig er hægt að reyna að réttlæta þetta?

Þegar ég keypti bílinn minn þá átti ég u.þ.b. 500.000kr, í dag er það ekki málið lengur, eignarhluturinn minn er horfinn og ég skulda 40.000 umfram það! Samt borga ég og borga, engin vanskil og ekki neitt vesen. Þetta er að verða til þess að ég gefst upp á þessu og skila af mér bílnum og borga bara þennan 40þ kall. Þessi kynslóð sem telur sig vera að verja egin hagsmuni og setja hagsmuni barnana sinna í vafa eiga að skammast sín og ekkert annað.

Ólafur Örn (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband