Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Það hlutu að verða einhver viðbrögð við arfaslakri og mótþróalausri einræðu setts dómsmálaráðherra í Kastljósinu í gær.
Í kvöld var ekki um einræðu eða drottningarviðtal að ræða, heldur ágætasta víðóma (stereo) framíköll þingmannanna Sivjar Friðleifsdóttur og Birgis Ármanssonar.
Birgir fullyrðir að settur dómsmálaráðherra í málinu njóti einróma stuðnings þingflokks D. Mig grunar óneitanlega að sumir hafi veitt þann stuðning með þögninni eða með tungubiti.
Athyglisvert er að fréttamenn hafa leitað logandi ljósi að löglærðu fólki (sem ekki eru þingmenn í D liðinu) sem er tilbúið að koma fram og lýsa yfir stuðningi við málstað setts dómsmálaráðherra í þessu máli. Slíkt fólk virðist vera í felum. Óbreyttir D menn hafa heldur ekki þeyst fram á völlinn til stuðnings ráðherra sínum, svo ég hafi tekið eftir.
Þá lýsti Birgir því yfir að það væri ekkert óeðlilegt að það færi fram endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi við skipun dómar, bæði til Hæstaréttar og Héraðs. En hann vildi þó ekki ganga svo langt að slík endurskoðun tæki skipanavaldið frá ráðherra, heldur að ráðherrann bæri ábyrgð á embættisfærslum sínum hvað þetta varðar gagnvart Alþingi og svo gagnvart kjósendum sínum.
Ég hef þrennt við þessa útfærslu Birgis að athuga:
1. Með þessu er ekki hróflað við valdi ráðherra til geðþóttaákvörðunar. Ráðherra þarf aðeins að geta rökstutt ákvörðunina málefnalega (eins og Birgi þykir, fáum manna, settur dómsmálaráðherra hafa gert í þessu máli). Hver á að meta hvort rökstuðningur er málefnalegur eða ekki?
2. Hvað þýðir að bera ábyrgð gagnvart Alþingi? Er það þá hugsun Birgis að komi upp vafi á að embættisfærsla ráðherra sé málefnaleg og réttlætanleg þurfi einhver þingmaður að leggja fram vantraust á ráðherra og fá fram atkvæðagreiðslu á þingi um vantraustið? Dugir þá einfaldur meirihluti? Og hvað verður þá um þá tilteknu embættisfærslu sem setti slíka atburðarás af stað, fáist vantraustið samþykkt? Er ráðherra sætt í embætti ef þingið hefur samþykkt vantraust á embættisfærslu hans?
3. Er Birgir að treysta á velþekkt gullfiskaminni kjósenda?
Þetta er náttúrulega meira en 3 atriði sem ég tel þarna upp. Það mætti líka bæta því við að þessar hugmyndir væru kannski góðar og gildar ef Alþingismenn Íslendinga væru einhvern tímann tilbúnir til að láta ráðherra bera raunverulega ábyrgð á embættisfærslum sínum. Ekki bara þusa og láta svo hlutina halda áfram óbreytta.
Kannski væri reyndar ágætis hugmynd ef einhver þingmaður treysti sér til að leggja fram vantraust á settan dómsmálaráðherra nú vegna þessarar umdeildu embættisfærslu og þvinga fram atkvæðagreiðslu. Náist vantraust ekki í gegn er alla vega ekki hægt að segja annað en að leyst hafi verið úr ágreiningnum sem uppi er með eins lýðræðislegum hætti og mögulegt er.
Ég fyrir mitt leyti treysti mér til að heita því að ég skal hafa mig hægan og sætta mig við gjörning setts dómsmálaráðherra eftir að Alþingi hefur greitt atkvæði um vantraust á ráðherrann! Standist ráðherra þann dóm Alþingis, er eina úrræðið sem eftir er að kjósendur Suðurkjördæmis felli sinn dóm í næsta prófkjöri (að öðru óbreyttu). Það er vissulega endanlegur lýðræðislegur dómstóll í svona málum. Á alveg sama hátt og ég segi hér að ofan að Alþingismenn þurfi að láta ráðherra bera ábyrgð, þá verðum við kjósendurnir að læra að láta frambjóðendur bera ábyrgð á verkum sínum, þegar við fáum til þess tækifæri.
Ég neita því ekki að mér hugnast betur sú tillaga að 2/3 hlutar Alþingis þurfi að leggja blessun sína yfir skipan Hæstaréttar- og Héraðsdómara. Það þarf ekki að taka langan tíma ef allt er í lagi og réttum ferlum hefur verið fylgt við mat og skipun í viðkomandi embætti.
15.1.2008 | 20:23
Allt helv.... matsnefndinni að kenna, ekki satt?
Kaldhæðni hefst:
Þá er það komið á hreint og hafið yfir allan vafa. Það að tiltrú fólks á dómaraskipun á Íslandi hefur beðið hnekki er alfarið matsnefndinni að kenna! Árni Matt sagði það í Kastljósinu áðan. Hlýtur það ekki að vera alveg satt og rétt hjá honum?
Ef nefndin hefði bara þekkt sinn stað í valdakerfinu, þá hefðu þeir náttúrulega ekki farið af stað með eitthvað helv.... væl um að ráðherra sniðgengi mat þeirra á hæfustu umsækjendunum. Þeir gerðu bara mistök! Þeir áttu að vita það sem stendur í lögunum að ráðherra er ekki bundinn af þeirra mati og beinlínis verður að fara eftir mati flokksin......nei, ég meina ..... sínu eigin mati á hæfni umsækjendanna. Og ef gagnrýnendur ákvörðunar Árna hefðu haft öll gögnin í höndunum hefðu þeir náttúrulega átt að geta séð að hans mat var alveg hárrétt og hann valdi hæfasta umsækjandann eftir að hafa farið yfir öll gögnin. Óskiljanlegt hvernig nefndin gat litið framhjá öllum kostum lang hæfasta umsækjandans
Og svo er náttúrulega einkennilegt hvað menn eins og Freyr fyrrverandi dómari og prófessor Sigurður Líndal eru harðorðir og skrýtinn þeirra málflutningur. Að vísu var Árni ekki alveg búinn að lesa alla greinina hans Sigurðar, ... hann var nefnilega truflaður í miðju kafi, ... en Sigurður er óþarflega harðskeyttur, er það ekki?
Kaldhæðni endar
Hm. Hitti ég kannski naglann á höfuðið í síðustu færslunni minni þegar ég skaut aðeins í sambandi við hversu langt CV-ið hins nýskipaða dómara var?
Það er alveg sama hversu oft Árni segir að hann hafi tekið rétta ákvörðun í þessu máli, ég kaupi þetta ekki og er enn á því að þetta hafi átt sér stað nokkurn veginn á þann hátt sem ég lýsti um helgina.
Færsla uppfærð lítillega til að forðast misskilning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2008 | 01:35
Dómaraskandall! - Gerðist þetta einhvern veginn svona?
Alveg þótti mér Illugi Jökuls fara á kostum í 24 stundum í dag. Samsæriskenningar hans í sambandi við dómaraskipunarmálið eru bráðskemmtilegar ef ekki væri fyrir þá hugsun sem læðst getur að manni að það geti vel verið að það sé meira til í þeim heldur en flestum þætti þægilegt.
Eins og venjulega halda ráðamenn okkar að við séum fífl og sjáum ekki í gegnum neitt. Það er bara hamrað á því að menn megi ekki gjalda þess hverra manna þeir eru til þess að beina umræðunni í aðrar áttir en þær sem snúa að vinnubrögðunum í kringum skipunina og niðurlægjandi ummæli þeirra í garð matsnefndarinnar. En allir þeir sem ég hef séð fjalla um málið hafa einmitt tekið fram að þetta mál snúist ekki um persónu þess sem skipaður var, heldur þá staðreynd sem blasir við að gengið var framhjá gríðarlegum reynsluboltum í þessari skipun. Árni verður að grafa dýpra en hann hefur gert hingað til áður en hann getur fundið rök fyrir þessu sem virka sannfærandi fyrir aðra en innmúraða. Jafnvel harðir sjálfstæðismenn blikna og skilja ekki í þessu og eru vonsviknir yfir hve léleg röksemdafærsla Árna reyndist eftir 2ja vikna bið.
Mér dettur í hug að Árni hafi ekki alveg vitað hvað hann var að láta leiða sig út í þegar hann samþykkti (eflaust án umhugsunar, því maður segir ekki nei vilji maður haldast innmúraður) að gera þennan Bjarnargreiða. Kannski gerðist þetta einhvern veginn svona:
Riiiiiinnnnngggg, riiiiinnnnnggggg.
Á: Halló
B: Blessaður Árni, þetta er Bjössi.
Á: Já blessaður Bjössi, hvað get ég gert fyrir þig?
B: Heyrðu, ég þarf að skipa héraðsdómara fyrir norðan.
Á: Já, ég veit. Ég var á fundinum þar sem það var rætt hver ætti að fá þetta. Hefur það eitthvað breyst?
B: Ha, nei, nei. En það eru einhverjir að hafa áhyggjur af því að það verði allt vitlaust ef ég fer að skipa fyrrverandi aðstoðarmann minn og son gamla foringjans. Ég sé vanhæfur til að sjá um skipunina eða eitthvað svoleiðis bull. Þ.a. mér datt í hug hvort þú gætir skrifað undir þetta fyrir mig.
Á: Auðvitað gamli vin. Það náttúrulega gengur ekki að hafa einhver vafamál í gangi um að þetta sé ekki alveg 100% málefnaleg afgreiðsla á þessu hjá okkur.
B: Þakka þér fyrir það. Við Davíð vissum að við gætum stólað á þig í þessu máli. Það er svo óþolandi að þurfa að fara að hlusta á eitthvað væl um að það sé verið að hygla einhverjum úr fjölskyldunni. Af hverju ættu menn að líða fyrir það hverra manna þeir eru? Það er svo ósanngjarnt.
Á: Já einmitt. En er þetta nokkuð mál? Sóttu einhverjir aðrir um þetta?
B: Jú, það voru einhverjir 3 aðrir sem sóttu um. En þeir eru bara einhverjir hæstaréttarlögmenn, hafa aldrei gert neitt annað. Enginn þeirra hefur verið aðstoðarmaður ráðherra eða setið í dómnefndum út af einhverjum bókmenntaverðlaunum .... eða voru það tónlistarverðlaun ...., æ, ég man það ekki. En stelpurnar niðri í ráðuneyti geta grafið það upp ef á þarf að halda.
Á: Þá þarf nú varla að hafa miklar áhyggjur af þessu. Var ekki líka allt í lagi með matið frá matsnefndinni? Eða er ekki einhver nefnd sem þarf að skoða umsækjendur og meta þá.
B: Ha, jú, jú. Það er ekkert mál með það. Okkar maður var metinn alveg hæfur og svoleiðis. Þ.a. þeir geta nú varla farið að væla neitt þó þeir hafi sett alla hina aðeins framar.
Á: Nú, gerðu þeir það. Þ.a. ég gæti lent í einhverjum smáskömmum út af þessu, eða hvað?
B: Ha, nei, ætli það nokkuð. Við gerum þetta bara rétt fyrir jólin og þá tekur enginn eftir þessu. Svo er Össur að fara að ráða einhvern kall frekar en einhverja kellingu, þ.a. hitinn fer ábyggilega allur á hann. Svo hömrum við bara á því, ef einhver fer að væla eitthvað, að það megi ekki líðast í lýðræðisþjóðfélagi að menn þurfi að líða fyrir það hverra manna þeir eru. Ég er búinn að biðja Sigga og Gerðu að vera tilbúin að mæta í Kastljós og svona til þess að hamra á þessu. Þau eru auðvitað alveg til í það. Þú getur svo bara hamrað á því að þessi matsnefnd séu bara frekjur og skilji ekki verksvið sitt. Það er líka alveg satt. Það er eins og þeir haldi að þeir eigi að geta ráðið því hver er ráðinn og hver ekki.
Á: Já ok, þetta verður ábyggilega ekkert mál.
B: Ok flott. Heyrðu þú kemur bara yfir til mín á morgun, sest í stólinn minn og skrifar undir þetta með pennanum mínum, er það ekki?
Á: Jú, ekkert mál. En ég ætti kannski að lesa CV-ið hans svo ég geti sagt að ég hafi metið umsækjendurnar sjálfur og metið okkar mann hæfastan. Er þetta nokkuð mikið að lesa.
B: Nei, nei. Ein og hálf blaðsíða í mesta lagi. Hef reyndar ekki hugmynd, því ég var ekki búinn að lesa þetta. En þetta er ábyggilega flott, góð Íslenska og svona. Ég skal senda þér þetta í email snöggvast.
Á: Ok. Sjáumst svo í fyrramálið.
B: Bless og aftur, bestu þakkir fyrir greiðann. Þú átt einn inni hjá mér.
Á: Já, ekkert mál. Ég þarf ábyggilega á svipuðum greiða að halda frá þér einhvern tímann. Vertu blessaður.
Klikk.
En bara svo það sé á hreinu, eins og aðrir hafa tekið fram. Það er alveg rétt að menn eiga ekki að gjalda þess hverra manna þeir eru. En þeir eiga heldur ekki að njóta þess og þess vegna eiga þeir eins og aðrir að vinna sig upp fyrir eigin verðleika til að vera hafnir yfir vafa um frændsemi og vinargreiða þegar þeir hljóta stöðuveitingar. Það höfðu hinir umsækjendurnir þrír gert í áratugi þó ekki væri komin röðin að neinum þeirra að þessu sinni. Svo er bláu höndinni fyrir að þakka.
12.1.2008 | 14:51
32 stafir
Helgi Seljan er ekki sáttur við að ekki skuli vera hægt að skrá fullt nafn dóttur hans í Þjóðskrá Hagstofunnar. Þó er nafn dóttur hans ekki nema 34 stafir að lengd.
Svör Hagstofunnar við fyrirspurn um málið er á sama veg og það var fyrir 2-3 árum ef ég man rétt. Það er sem sagt verið að vinna í málinu.
Ég kími aðeins út í annað við að lesa um þetta því ég blandaðist óvart aðeins inn í umræðu um þetta fyrir næstum 15 árum síðan. Ég var þá kerfisforritari og gagnasafnstjóri hjá Skýrr, en Skýrr vistaði þá (og gerir enn það best ég veit) Þjóðskrána í Adabas gagnagrunnum sínum. Þjóðskráin var og er lykilskrá í öllum tölvukerfum sem hafa með persónutengdar upplýsingar að gera, hvort sem um er að ræða afrit úr skránum hjá Skýrr, eða upplýsingarnar sóttar beint í skrár Skýrr. Breyting á skránni er því vissulega viðkvæmt mál sem hefur áhrif mjög víða. En það er ekki þar með sagt að þetta þurfi að vera eitthvað erfitt, eða að þetta þurfi að taka 15 ár og kosta tugi eða hundruðir milljóna! Ég tek það fram að mér er algerlega ókunnugt um umfang eða kostnað eða aðrar áætlanir vegna þessara breytinga sem Hagstofan vísar til að séu í vinnslu.
En fyrir þessum tæpum 15 árum spurðist Hagstofan fyrir um það hjá Skýrr hvort ekki mætti breyta þessum hlutum, þ.e. lengdum t.d. nafnasvæða og heimilisfangasvæða. Ég var á sínum tíma afar ósáttur við að frétta í gegnum starfsmann Hagstofunnar hvaða svar hefði borist frá Skýrr. Ég hafði ekki komið að því svari á nokkurn hátt og ekki einu sinni vitað af því að fyrirspurnin hefði borist.
Svarið var á þá leið að þetta væri nokkuð flókin og dýr breyting. Ég var ekki sáttur því tæknilega var þetta ekki rétt svar að mínu mati þá og ég hef ekki skipt um skoðun á því. Ég skrifaði nokkuð harðort bréf (tölvupóst) til stjórnenda Skýrr og sagði að ég væri ekki sáttur við að Hagstofan fengi slík svör, sem að mínu mati væru illa ígrunduð. Ég spurði hvort menn vildu að Hagstofan færi eitthvað annað til að fá úrlausn á þessu. Þessu bréfi var ekki tekið vel alls staðar þar sem sumum þótti vegið að starfsmanninum sem hafði unnið svarið til Hagstofunnar. Mér gekk það hins vegar ekki til, vildi bara að þetta svar yrði endurskoðað og sett í gang verkefni með Hagstofunni til að leysa úr þessu, án gríðarlegs kostnaðar eða tækniflækju. Það hefði verið og er enn þann dag í dag vel hægt að leysa úr þessu með nokkurra vikna verkefni sem þyrfti ekki að kosta meira en kannski örfáar milljónir, ef valið er að fara einfaldar leiðir. Þar með væri búið að leysa úr þessu hvað varðar skráninguna hjá Hagstofunni, en eftir sem áður yrðu póstáritanir sem unnar væru úr skránni og afleiddum skrám hennar eins og áður e.t.v. styttar. Lengri tíma tæki fyrir aðila sem sæju um slíka hluti að aðlaga sig breytingunni, en það ynnist bara smám saman á þeim tíma sem notendum Þjóðskrárinnar hentaði.
Ég veit ekki hvar hnífurinn stendur í kúnni í dag. Ég veit að það er ekki við starfsmenn Skýrr þá eða í dag að sakast og það er án efa ekki heldur við starfsmenn Hagstofunnar að sakast. Mig grunar að þetta sé að taka svona allt of langan tíma vegna þess að menn freistast til að finna of stóra lausn á tiltölulega smáu vandamáli með því að endurskrifa kerfið frá grunni með tilheyrandi kostnaði.
9.1.2008 | 13:34
Tysabri - MS sjúklingar bíða enn!
Sonur minn 22ja ára greindist með MS síðastliðið sumar. Að baki þeirri greiningu liggur nokkurra ára saga sérkennilegra og óljósra einkenna sem því miður allt of margir læknar hafa afgreitt á innan við 10 mínútum sem stress, þunglyndi og kvíðaröskun (sem allt eru vel þekktir fylgikvillar undirliggjandi MS sjúkdóms). Sagan á bak við það hvernig greiningin fékkst endanlega er löng og verður kannski skrásett síðar, en hún skiptir svo sem ekki máli lengur. En loksins þegar rétti sérfræðingurinn fannst til að rannsaka piltinn þá held ég að hún hafi séð um leið og hann gekk inn í herbergið hjá henni í fyrsta skiptið hvað um væri að ræða. Allar götur síðan þá hefur hann fengið fyrsta flokks þjónustu sem aðdáunarvert hefur verið að horfa upp á.
Áhrif þess að sonurinn greindist með MS á hann sjálfan, fjölskylduna og alla í kringum hann er svo efni í aðra langa sögu sem væri þess virði að skrásetja en ég veit ekki hvort ég treysti mér nokkurn tímann til þess. Enda ekki það sem mér liggur á hjarta akkúrat núna, heldur Tysabri.
Eins og fram kom í fjölmiðlum í haust bíða tugir MS sjúklinga eftir að lyfjameðferð með hinu nýja Tysabri lyfi geti hafist hérlendis. Þetta lyf hefur gefið afar góða raun erlendis og því eru miklar vonir bundnar við þetta hjá MS sjúklingum sem sumum hverjum hefur hrakað verulega á meðan þessi biðtími hefur varað.
Fyrir jól komu svo jákvæðar fréttir um að ekkert væri nú lengur því til fyrirstöðu að lyfjagjöf gæti hafist. Þar sem syni mínum hrakaði hratt bæði fyrir og eftir greininguna var ákveðið að setja hann á Tysabri um leið og það yrði mögulegt. Hann (og fjölskyldan) hefur því beðið þess dags í ofvæni að hann yrði kallaður inn til þess að fá lyfið. Mér skilst að um sé að ræða inngjöf í æð, sem stendur yfir í ca. klst. Síðan þarf sjúklingurinn að hvílast inni á deildinni í aðrar 2 klst eftir inngjöfina til öryggis. Allt þetta ferli þarf að vera undir mjög nánu eftirliti þjálfaðs hjúkrunarfræðings. Og hér stendur hnífurinn í kúnni þessa stundina, virðist vera.
Það eru ekki margir hjúkrunarfræðingar starfandi við taugadeild LSH sem geta tekið að sér þetta sérhæfða verk. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að loka þurfi heilli deild á meðan á lyfjagjöf stendur. Þá er á meðan ekki hægt að sinna daglegri þjónustu við aðra MS sjúklinga (og aðra sem þurfa á þjónustu deildarinnar að halda), ekki einu sinni hægt að svara í símann til að svara fyrirspurnum allra hinna MS sjúklinganna sem eru að bíða eftir Tysabri og langar að spyrjast fyrir um framgang sinna mála.
Mig minnir að ég hafi séð einhvers staðar að til standi að 50-60 MS sjúklingar fái Tysabri fyrst um sinn, en byrjað verði með mun smærri hóp. Af ofangreindu má sjá (ef ég skil vandamálið rétt) hversu stórt það verkefni er. Nú er ég forvitinn að vita hvernig eigi að koma þessu verkefni í framkvæmd á sjúkrahúsi sem er um það bil lamað vegna manneklu? MS sjúklingar hafa að því er mér sýnist af stuttri utanaðkomandi reynslu fengið frábæra þjónustu hjá einstöku starfsfólki LSH fram að þessu. En nú sýnist mér ljóst að þetta frábæra fólk þurfi aðstoð í formi aukins fjölda þjálfaðs starfs(fag)fólks.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2007 | 02:35
Liggur lífið á?
Menn eiga það til að kvarta yfir því að vegur eins og Reykjanesbrautin sé lokuð í 2-3 klst. Menn tala þá jafnvel um að aðstæður geti verið þannig að menn megi ekki við slíkum töfum. T.d. gætu menn verið að missa af flugi og þess háttar. Víst er slíkt bagalegt en hey, slíkt getur gerst.
Ég bjó í Bretlandi um tíma, í Miðlöndunum. Eitt skipti af mörgum sem ég keyrði gest niður til Heathrow flugvallar sá ég að það var alvarlegt slys á M25 (réttsælis) og sú leið lokuð og mikil biðröð. Þetta var náttúrulega leið mín til baka, en ég hugsaði sem svo að það yrði örugglega búið að hreinsa þetta upp þegar ég færi uppeftir aftur eftir 2 tíma eða svo, því ég ætlaði að hinkra aðeins á Heathrow með gestinum til að kveðja hann almennilega. 'Boy, was I wrong!'
Svo legg ég af stað heim, réttum 2 tímum síðar. Mest öll fjölskyldan með. Og við rétt komin inn á M25 og framhjá M4 og M40 sem hefði getað verið hjáleið fyrir okkur þegar allt er allt í einu stopp. Þetta er í ágúst á heitasta degi sumarsins, 28-30 stiga hiti. Til að gera langa sögu stutta biðum við þarna í þessum steikjandi hita (með eina gosflösku minnir mig) í ca. 6 klukkustundir án þess að mjakast eina tommu. Enginn lét sér detta í hug að keyra á neyðarakreininni til að komast í gegnum slysstaðinn (sem var í nokkurra mílna fjarlægð).
Eftir 6 klukkustundir höfðu einhverjir fundið út að það var hægt að komast í gegnum hlið út af hraðbrautinni og ég sá nokkra bíla hverfa þar í gegn. Ég tók sénsinn að þarna væri um að ræða hjáleið og elti. Lenti inn á sveitavegi sem leiddi inn í þorp og annað og á endanum komst ég því upp á M1 framhjá stíflunni. En skiljanlega reynir lögreglan þar ekki að beina bílum inn á svona hjáleiðir, því ímyndið ykkur umferðarþungann af M25 (hraðbraut sem nær hringinn utan um London, gríðarlega umferðarþung) inni á þröngum þorpsgötum.
Í eitt skipt lenti ég svo í því að umferðartafir á hraðbrautinni olli því að hluti fjölskyldunnar missti af flugi. Vélin var reyndar ekki farin þegar við náðum á völlinn, en það þýddi ekkert að suða og tuða í starfsfólkinu á vellinum, vélin gat ekki beðið. Ekkert við því að segja og ekkert annað að gera en að taka hótelherbergi fyrir þau og koma þeim svo í næsta flug daginn eftir.
Þetta er bara eitt af því sem getur gerst. Ég rifja þetta upp núna því mér þykir sem það þurfi ansi góða afsökun til að ryðjast í gegnum vettvang alvarlegs slyss eins og átti sér stað á fimmtudagskvöldið í Straumsvík.
25.10.2007 | 21:23
Paraband ?
Ný samþykkt kirkjuþings um vígslu samkynhneigðra er um margt merkilegt framfaraskref og setur Þjóðkirkju Íslendinga í fremstu röð frjálslyndra trúfélaga. Ekki eru allir á eitt sáttir frekar en búast mátti við, hvorki Jón Valur né formaður Samtaka 78.
Ég hef reyndar ekki sett mig inn í alla umfjöllunina um þetta mál, en samþykkt þingsins fannst mér nokkuð vel orðuð og skynsamlega og til þess fallin að ná lendingu í því sem verið hefur erfitt mál innan Þjóðkirkjunnar.
Orðið 'hjónaband' virðist vera það sem nú ber á milli. Það situr í mönnum að hjónaband sé, eins og stendur í samþykktinni, 'sáttmáli milli karls og konu'. Mér þykir samkynhneigðum ekki endilega sýnd mismunun í því að kalla þeirra sáttmála ekki sama nafni, en þá vaknar spurningin hvaða orð eigi að nota.
Má ég leggja til orðið 'paraband' sem skilgreinist þá sem 'sáttmáli milli tveggja einstaklinga'. Það hugtak getur þá gilt um alla slíka sáttmála, hjónabönd sem staðfesta sambúð.
Hér áður fyrr var talað um að karlar kvæntust og konur giftust, en sú merking er nú í raun glötuð úr málinu. Vel mætti rifja upp merkingu þessara orða og skerpa ef til vill á þeim þannig að lesbíur kvæntust og hommar giftust þegar þau gengju í paraband.
Hendi þessu hér fram svona í hálfkæringi og til umhugsunar
4.9.2007 | 00:53
Ábending til Vegagerðarinnar
Ég fór í kvöld inn á vef Vegagerðarinnar til að athuga hvort þeir væru þar með netfang fyrir ábendingar. Viti menn, Ábendingar/Fyrirspurnir er hægt að senda inn til þeirra af vefnum þeirra.
Ástæða þess að ég fór að gá að þessu er að það er búið að sjóða í mér í dag og í gær hversu nærri stórslysum hefur legið núna um helgina vegna lélegra merkinga við framkvæmdir á Reykjanesbrautinni. Ég hef svo séð einhver viðtöl við fólk sem segir að það virðist ekki þýða neitt að hringja inn athugasemdir til Vegagerðarinnar. Engar úrbætur eru gerðar. Sennilega er það sama uppi á teningnum með tölvupóstinn, en það gerist heldur ekki neitt ef allir þegja. Oftast þegi ég, því miður, en í þetta sinn ætla ég ekki að þegja alveg. Hvet aðra til að íhuga hvort þeir eigi líka að láta rödd sína heyrast í þessu máli sem varðar öryggi okkar allra sem notum þjóðvegina okkar á einn eða annan hátt.
Ég sendi þetta bréf inn í ábendingakerfi Vegagerðarinnar:
Gott fólk,
ég vona að símalinur og tölvupóstur sé rauðlogandi vegna slysanna sem hafa orðið síðustu daga á Reykjanesbrautinni.
1. Ökumaður telur sig vera á 2+2 vegi og fer fram úr. Fær þá 4 mótorhjól á móti sér þar sem í gangi er 'Contra-flow' (umferð á móti) á þessum stað.
2. Ökumaður eltir hvítar linur í götunni sem virðast beina honum yfir á hinar akreinarnar en lendir þá á Steinblokk.
Er ekki ástæðulaust að bíða eftir banaslysinu á Reykjanesbrautinni sem beint má rekja til lélegra merkinga við framkvæmd breikkunar hennar? Ef þið bíðið nógu lengi er ljóst að það mun henda og það fyrr en síðar.
Núna í ágúst sótti 87 ára gamall faðir minn mig út á Keflavíkurflugvöll að kvöldlagi. Hann var næstum lentur út í gjótu vegna þess að hann áttaði sig ekki á óljósum merkingum. Hann sýndi mér þessar merkingar á leiðinni heim og ég lái honum bara alls ekki að hafa ruglast í ríminu. Á sama stað var svo einmitt nýja tvöfalda akreinin fyrir austuráttina (til Hafnarfjarðar) notuð fyrir umferð í báðar áttir. Ég var að hugsa með sjálfum mér og minntist á við föður minn að það væri dálítið skrýtið að hér væri 'Contra-flow' en ekki eitt einasta merki á nokkurra kílómetra kafla um að vænta mætti umferðar á móti.
Þið VERÐIÐ að beita ykkur fyrir úrbótum verktaka á svæðinu á merkingurm:
1. Þegar heil lína er máluð til að sveigja umferð yfir á 'hina' akreinina verður að mála með svörtu yfir línurnar þegar þær falla úr gildi og steinblokkir settar til að 'loka' á milli.
2. Merkingar um væntanlega tilfærslu akreina á að birtast a.m.k. 1 km frá staðnum og með 100-200 metra fresti alla leið að staðnum.
3. Eitt blikk ljós, dauft vegna lélegrar rafhlöðu er ekki nóg! Og alls ekki er nóg að setja eitt slíkt ljós bara þar sem raunverulega breytingin á veglínunni er. Mörg ljós, blikkandi örvar, o.s.frv. er lágmarkskrafa hér.
4. Þegar tvöföld akrein er notuð fyrir umferð í báðar áttir verður að minna ökumenn á það með skiltum á miðlínunni (og/eða) appelsínugulum kónum með blikkljósum með reglulegu millibili. 50-100 metrar sennilega hæfilegt bil á milli.
Það sem ég er að telja hér upp eru hlutir sem ég hef séð svo snilldarlega útfærða á hraðbrautum (Motorways) í Englandi. Ég bjó þar í 4,5 ár og átti margsinnis leið um M1, en sennilega aldrei án þess að einhvers staðar á leiðinni væri í gangi vegavinna (viðhald). Merkingar á slíkum framkvæmdurm þar eru til fyrirmyndar. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þær reglur sem þar gilda um vegmerkingar vegna vegavinnu og aðlaga pínulítið undirmengi af þeim reglum til notkunar hér á landi!
Með bestu kveðjum og í fullri vinsemd,
Karl Ólafsson
30.7.2007 | 01:04
Verðlagning enska boltans
Mér hefur þótt aumkunarvert að heyra rökstuðning framkvæmdastjóra tekjusviðs 365 fyrir verðlagningu enska boltans hjá Sýn. Jafn aumkunarvert hefur verið að heyra rökstuðning hans og sjónvarpsstjóra Sýnar fyrir því að rukkað skuli fyrir 12 mánuði í stað 10 og aumkunarverðast af öllu var að heyra lýsingar sjónvarpsstjórans á því 'gæðaefni' sem á að senda út til þess að geta réttlætt útsendingarnar og rukkanirnar fyrir sumarleyfismánuðina 2, júní og júlí.
Málið er einfalt, þetta er orðið of dýrt og Sýn hefur augljóslega spennt sig of hátt í kaupum á sjónvarpsréttinum. Hér er um sömu þróun að ræða og var í Englandi upp úr aldamótum þegar tekið var upp á því að selja áhorf á einstaka leiki á allt upp í 8 sterlingspund pr. leik. Enska boltann í ensku sjónvarpi setti afar mikið niður það árið. Síðan hefur þróunin orðið sú að verðið hefur lækkað auk þess sem fleiri sjónvarpsstöðvar skipta nú með sér leikjunum og er nú jafnvel hægt að sjá suma leiki í opnu sjónvarpi. Vonandi verður þróunin hér svipuð, en sér í lagi þætti mér vænt um að geta treyst því í framtíðinni að geta séð landsleiki landsliða okkar í opnu sjónvarpi. Mér þykir ekki ásættanlegt að landsleikir okkar séu sýndir í læstri dagskrá. Látum vera þó þeir séu sýndir á áskriftarstöðvum, en þeir eiga að mínu mati að vera í opinni dagskrá, eins og gildir víst um Formúlu I, en Sýn mun vera skylt skv. samningsákvæðum að sýna alla Formúlu I kappakstra í opinni dagskrá.
Enski boltinn var dægradvöl almúgans í Englandi í eina tíð, en ég sé ekki alveg fyrir mér almúgamanninn þar fara með t.d. 2 börn á völlinn og þurfa að borga 5-10 þúsund íslenskar fyrir. Sennilega fer almúgamaðurinn frekar á pöbbinn (án barnanna) sem er með sjónvarpsskjáinn og horfir á heimaleikina hjá sínu liði fyrir svona 3-4 pints sem kosta innan við þúsundkallinn.
Ó, gleymdi einu í sambandi við Sýn. Þessi athugasemd var frábær:
"Samkvæmt Láru Nönnu Eggertsdóttur, framkvæmdastjóra ljósvakamiðla hjá 365, benti könnun sem Sýn lét gera meðal viðskiptavina sinna á að áttatíu prósent áskrifenda Sýnar væru líka áskrifendur að SkjáSport. Því muni flestir fá Sýn 2 á tuttugu prósent afslætti eða meira sko "
Þetta er alveg bráðfyndið í raun, ef málið er skoðað í kjölinn. Ég fékk tölvupóst frá Sýn sem væntanlega var þessi könnun og ég svaraði spurningunum.
Spurningarnar voru 2. Já, segi og skrifa tvær! (man ekki hvernig þær voru orðaðar samt :-) Og jú, ég svaraði því til að ég var bæði með Skjá Sport og Sýn á þeim tíma. En af hverju var ég með Sýn? Jú, út af HM þá batt ég mig í tiltekinn tíma, en sagði svo Sýn upp (ásamt Stöð 2 og öllu draslinu). Hvað skyldi það gilda um marga sem geta því ekki notið þeirra frábæru kjara að fá enska boltann og allt hitt 'gæðaefni' 365 fyrir 15þkr á mánuði, allt árið?
En fyrir utan þetta svekkelsisraus í mér, sem einkennist af því að ég sé ekki fram á að hafa efni á að horfa neitt á enska boltann, þá hljómar allur ásetningur Sýnar-manna þannig að um metnaðarfullar útsendingar verði að ræða og er það vel, en verðið er eftir sem áður rangt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2007 | 19:54
Spyrnur af götunum .... og inn á Kvartmílubrautina!
Þegar ég var átján ára höfðu lengi tíðkast götuspyrnur kraftmikilla tryllitækja á Geithálsi á Suðurlandsvegi og svo í Kúagerði á Reykjanesbrautinni.
Þegar spyrna átti að fara fram var stillt upp bílum í sitt hvorn enda svæðisins sem útvörðum og áttu bílstjórar þeirra að blikka ljósum ef sást til umferðar. Þegar allt var autt í allar áttir var stillt upp í snatri, einn stökk fram fyrir bílana og taldi niður og svo var spyrnt. Þarna urðu til margar goðsagnir.
Ég varð vitni að líklega einni af síðustu spyrnunum sem áttu sér stað í Kúagerðinu. Þar spyrnti vinnufélagi minn á Plymouth GTX 426 Hemi, líklega um 500 hestafla græja við einn af mínum bestu vinum sem var á Dodge Challenger 440. Hemi græjan stakk Challengerinn af með miklum mun. En fljótlega eftir þessa spyrnu var Kvartmílubrautin fullgerð og götuspyrnur hreinlega lögðust af um tíma hér á höfuðborgarsvæðinu.
Ný síðustu misseri hefur af einhverjum ástæðum verið girt fyrir að menn kæmust inn á Kvartmílubrautina. Mér hefur heyrst að þetta sé m.a. vegna krafna LÍA um formlegan umbúna æfinga og keppna, en einnig hefur það sjónarmið heyrst að þetta sé gert til að verja brautina skemmdum.
Í ljósi sívaxandi fjölda frétta af ökumönnum sem teknir eru við hraðakstur, reykspól og spyrnur legg ég eindregið til að gamla kvartmílubrautin verði opnuð öllum almenningi til notkunar á eigin ábyrgð! Jafnframt verði boðið þar upp á skipulagðar æfingar þar sem menn fengju að reyna sig á móti klukkunni ('jólatrénu').
Ég legg svo til að önnur braut verði byggð fyrir kvartmílukeppnir og aðrar akstursíþróttir, þ.e. braut lögð í hring með beygjum og beinum köflum sem henta fleiri en einni grein kappaksturs. En það verður að vera til staður fyrir menn að bregða sér á og skvetta úr bensíntanknum til þess að það sé hægt að ætlast til þess að menn stilli sig betur í umferðinni innan um aðra vegfarendur.