14.9.2009 | 23:39
Vaknað úr dvala, ... kannski bráðum.
Ég hitti gamlan vinnufélaga á Skýrr ráðstefnunni á föstudag. Hann var að finna að því við mig að ég skuli hafa lagst í algeran bloggdvala síðan í apríl. Ég er honum að sjálfsögðu þakklátur fyrir að hafa hugsað til mín og tékkað á mér annað slagið.
Annar bloggari fann nýverið að því í rökræðum um IceS(l)ave að ég gæti ekki talist marktækur í rökræðum þar sem ég bloggaði ekki á minni síðu. Mér þótti það ekki næg ástæða til að útiloka mig frá þeim rökræðum, en ég var svo sem líka bara að stríða honum því ég vissi nokkuð nákvæmlega hver öll hans viðbrögð yrðu. Hann olli mér engum vonbrigðum.
Ekki hefur það vantað að oft hefur mig langað til að hella úr skálum mínum á blogginu. Um nóg hefði svo sem verið hægt að tjá sig. Fyrir tæpu ári síðan byrjaði ég að tala fyrir afnámi verðtryggingar í framhaldi hrunsins. Núna 11 mánuðum síðar hefur nákvæmlega ekkert gerst í þeim efnum. Ekki það að mér hafi dottið í hug að ég gæti haft áhrif í þeim efnum, en ég gat bara ekki þagað lengur. Nú er ég búinn að þegja í nokkra mánuði og enn gerist ekkert annað en að nú á kannski að tekjutengja endurgreiðslur lána og enn og aftur að bæta bara því sem upp á vantar aftan á höfuðstólinn svo að lánin verði örugglega aldrei greidd upp og greiðslybyrðin lækki í raun aldrei, alla ævi skuldarans, nema ef vera skyldi að hann lækkaði í launum.
Ég hvet alla sem lesa blogg eða fylgjast með þjóðfélagsumræðum að fylgjast með eftirfarandi:
http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/948072/
http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/948109/
Marinó er einn af málefnalegustu bloggurunum um fjármál heimilanna.
Ég hvet líka alla til að fylgjast vel með umræðum um tengslagagnagrunn Jóns Jósefs Bjarnasonar, gamals vinnufélaga og vinar. Lára Hanna fylgir því máli eftir með sínum sköruglega hætti:
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/947270/
Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr kerfi hans þegar kvótaviðskipti og stjórnir lífeyrissjóða koma inn í myndina. Ekki má líðast að steinar verði lagðir í götu Jossa í gagnaöflun hans. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi fyrir nokkrum mánuðum að fá að sjá þetta kerfi hjá Jossa og ég verð að segja: Hvílík snilld! Ég held að allir geti verið sammála um það. Eini gallinn var að þegar ég fletti upp sjálfum mér kom átakanlega vel í ljós fjármálasnilli mín sem birtist í því að eina fyrirtækið sem ég hef verið viðriðinn var rauðlitað (gjaldþrota ). Ah well.
Jæja, nú leggst ég í dvala aftur, en ég hugleiði að opna fyrir málræpu í tilefni ársafmælis hrunsins bráðum til þess að hamra aftur og meira á boðskapnum um afnám verðtryggingar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.