19.4.2009 | 18:07
Eru bæklunarlæknar munaður?
Hvað er eiginlega í gangi í sambandi við bæklunarlækna og Sjúkratryggingarnar? Ég hef ekki orðið var við að það hafi farið hátt í þjóðfélaginu að bæklunarlæknar eru um þessar mundir ekki með gildandi samning við TR (eða sjúkrasamlagið eða sjúkratryggingar, eða hvað stofnunin heitir þessa dagana). Þetta þýðir að ef þú meiðist t.d. á hné í fótbolta með vinum þínum úti á túni þar sem þið eruð á eigin vegum og heimsækir bæklunarlækni í kjölfarið, greiðir þú úr eigin vasa 9-10 þúsund krónur fyrir fyrstu heimsókn. Þú færð síðan endurgreiddar tæpar 4 þúsund krónur frá TR. Næstu heimsóknir kosta síðan 4-5 þkr og endurgreiðslan eitthvað um 50% (man reyndar ekki nákvæmlega hvað fæst endurgreitt í þau skipti).
Svo lendir maður nú aldeilis í því ef það skyldi þurfa að spegla hnéð vegna þessara meiðsla, eða af öðrum ástæðum. Speglun kostar 100 þkr og TR endurgreiðir ca. 50 þkr. Það kostar þig sem sagt í kringum 50 þkr að láta spegla hnéð!
Mér er spurn, vita menn almennt af því að staðan er orðin þessi hér á landi? Ef þú ætlar að stunda eitthvað sport í frítíma þínum þar sem hætta er á hnémeiðslum, hefur þú athugað hvort þú sért örugglega tryggður fyrir slíkum meiðslum? Við erum nú í þeirri stöðu að þurfa að athuga hver okkar tryggingastaða er, þ.e. hvort t.d. F-Plús trygging heimilisins dekkar þennan kostnað fyrir tvítugan son sem býr á heimilinu, eða hvort hann sé nú sjálfur orðinn ábyrgur fyrir sínum tryggingum. Ég viðurkenni grandvaraleysi mitt, að ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta væri það þjóðfélag og sú heilbrigðisþjónusta sem við byggjum við í dag. Þannig að sonurinn fer ekki í speglun í fyrramálið, eins og honum stendur til boða af því að ég get ekki reitt fram 100 þkr fyrir aðgerðinni, hvað þá einu sinni þau 50 þkr sem eftir standa af kostnaðinum eftir endurgreiðslu TR. Nú er bara að bíða og vona að F-Plús dekki þetta því annars má hann e.t.v. búa við skaddað hné, það sem eftir er, eða alla vega þar til hægt verður að greiða þessa tugi þúsunda fyrir speglunina og svo væntanlega annað eins og meira í framhaldinu til þess að hægt verði (vonandi) að laga vandamálið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að fara til læknis er orðinn munaður. Þú þarft t.d. að bíða í meira en viku eftir tíma hjá heimilislækni (nema ef um mjög alvarleg veikindi er að ræða).
Ef þú þarft að fara til sérfræðings þá getur þú þurft að bíða í nokkrar vikur og jafnvel mánuði.
Heimsókn t.d. til kvensjúkdómalæknis kostar milli 5 og 6 þúsund úr þínum eigin vasa. Og þetta miðast ekki við neinar rannsóknir eða sýnatöku. Að fá skann af hálsi vegna kostar 18 þúsund krónur.
Að fara til bæklunarlæknis til að láta skoða axlarmein ásamt tilheyrandi myndatöku kostaði 25 þúsund núna í haust. 18000 voru beint úr eigin vasa en almannatryggingar borguðu hluta af 7000 krónunum tilbaka.
Svo er ég ekki farin að tala um innritunargjöld á sjúkrahús eða ef þú ert ekki það veikur að þú þurfir að liggja inni í sólarhring eða lengur því þá er rukkað eins og um komu á dagdeild sé að ræða, jafnvel þó um lífsnauðsynlega aðgerð sé að ræða.
Þetta er arfleyfð sjálfstæðismanna.
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 20.4.2009 kl. 12:15
Ég er úti í Danmörku núna, fékk svona gult kot, og það er öll læknisþjónusta og skoðanir frí! Ég mæli með því að ef Íslendingar þurfa á læknisaðstoð að halda, að skrá sig inn í Danmörku á meðan á svona aðgerðum stendur og flytja svo til baka. Það er verið að rukka á öllum stöðum í Íslenska kerfinu sem er skattur sem oft vill gleymast að tala um hjá þeim sem eru með síbylju um að skattar á Íslandi séu lágir!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 23.4.2009 kl. 04:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.