9.1.2009 | 21:50
Ómálefnaleg skrif og aðför að persónu
Fátt fer meira í taugarnar á mér en aðför að persónum manna, hverjir svo sem þeir eru. Eitt er að vera ósammála málflutningi og/eða aðgerðum tiltekinna persóna, en að ráðast að heiðri manna er lágkúrulegt, hverjir sem í hlut eiga. Nú má vel vera að ég hafi gerst sekur um slíkt einhvern tímann, en ég vil helst trúa því að ég eigi mér takmörk í því efni.
Hér er færsla víðlesins bloggara og eins álitsgjafa Kastljóss fyrir áramótin. Þessi bloggari er sennilega með hægri sinnaðri mönnum og er það að sjálfsögðu hans mál og kemur engum við. Hann leyfir ekki athugasemdir við færslur sínar, en aftur, þá er það líka að sjálfsögðu hans mál. Ég ætla ekki að fara út í að rifja upp það sem mér fannst athugavert við álitsgjöf hans í Kastljósþáttunum um daginn, en ekki get ég sagt að ég hafi getað verið sammála miklu af því sem hann lét út úr sér þar. Enn og aftur þá var hann þar að koma á framfæri sinni skoðun og má honum vera það frjálst mér að meinalausu.
En í þessum orðum fór hann yfir strik sem mér finnst hann setja niður við að fara yfir:
"Og eitt enn, hversu mikið ætli Hörður Torfason hafi greitt í skatta hér á Íslandi s.l. ár og hversu mikið ætli hann hafi þegið úr ríkissjóð?
Þeir þátttakendur sem taka þátt í gjörningi hans helgi eftir helgi hljóta að eiga rétt á því að vita hversu mikið hann hefur lagt til samfélagsins síðustu árin."
Hverju eiga slíkar upplýsingar að skila inn í þjóðmálaumræðuna og hverju skiptir þetta fyrir þann málstað sem Hörður Torfason stendur fyrir? Hverjum kemur þetta við og af hverju ættu þáttakendur í mótmælaaðgerðum síðustu vikna og mánaða að hafa áhuga á eða eiga rétt á að fá þessar upplýsingar sem Gísli Freyr kallar hér eftir? Hann kallar sig frjálshyggjumann, en ég man ekki betur en að samtök frjálshyggjumanna (man ekki einu sinni nafnið á þessu félagi) hafi einmitt lagst gegn birtingu upplýsinga um skattamál einstaklinga. Gildir eitthvað annað um bætur, styrki, eða hvað annað sem menn kunna að þiggja úr ríkissjóði? Eða gildir bara eitthvað annað um menn sem voga sér að standa fyrir skipulagningu friðsamlegra mótmælaaðgerða sem beinast að einhverju leyti gegn Sjálfstæðisflokknum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Og eitt enn, hversu mikið ætli Hörður Torfason hafi greitt í skatta hér á Íslandi s.l. ár og hversu mikið ætli hann hafi þegið úr ríkissjóð?
Þeir þátttakendur sem taka þátt í gjörningi hans helgi eftir helgi hljóta að eiga rétt á því að vita hversu mikið hann hefur lagt til samfélagsins síðustu árin."
Þessi tilvitnun er í anda hins mikla frjálshyggju gúrú, líklega átrúnaðargoð þess sem tilvitnunina á, sem hefur verið á framfæri íslenskra skattgreiðendafrá ómuna tíð, ég skal ekki nefna hann á nafn því aðgát skal höfð í nærveru sálar. En stafirnir í nafninu hans eru þessir nossrarussiG nietsmlóH sennaH.
Magnús Sigurðsson, 9.1.2009 kl. 22:10
Já, það má ekki nefna hann á nafn að sjálfsögðu, en fyrsti bókstafurinn í nafni gúrúsins er einmitt Hannes Hómsteinn Gissurarson. Systir hans átti reyndar fína spretti í þessum Kastljósþáttum fyrir áramótin.
Karl Ólafsson, 9.1.2009 kl. 22:14
Mikið er ég sammála þér
Hólmdís Hjartardóttir, 9.1.2009 kl. 22:17
Þessi skrif eru vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn. Og svo er fólk hissa á að mótmælendur hylji andlit sín.
Ibba Sig. (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 22:25
Já og hví skyldi ekki frjálshyggjumaðurinn einnig fara að berjast fyrir því að upplýst verði fyrir almenningi hvað lendir í sjóðum sjálfstæðisflokks og hvaðan gjafirnar berast.
...eða vill hann ekki að fólk viti hverjum það stendur með ef það stendur með sjálfstæðisflokki?
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 10.1.2009 kl. 14:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.