Zap - Hausmynd

Zap

Til minnis (eða gleymdi ég að taka inn einhverja pillu?)

Nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að höfð séu í minnum nú og í framtíðinni.

1. Góð grein sem bent er á hjá mbl.is: http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/7658908.stm eftir Jón Daníelsson. Hér er á mannamáli útskýrt hvers vegna stýrivaxtastefna SÍ/DO virkaði öfugt og beinlínis jók á þensluna.

2. Þrjóska Seðlabankastjóra þegar hann hélt því fram að ef meðal væri ekki að virka þyrfti stundum að auka við skammtinn. Afleiðingin varð dauði sjúklingsins vegna ofskömmtunar og aukaverkana.

3. Dauðahald lífeyrissjóðanna og stjórnmálamanna í verðtrygginguna. Á meðan peningakerfi Íslands hrynur með þúsund milljarða afskriftum skulda og tapi fjármagnseigenda sitja smáskuldarar eftir í súpunni með himinhá gjaldeyrislán og sívaxandi höfuðstól verðtryggðra lána langt umfram veðtryggingar. Hvað er annars verðmæti húseignar í dag?

4. Núna fyrst erum við að sjá byrjunina á sprengingu fasteignabólunnar. Menn héldu að við værum að fá timburmenn í vor, en þá var ennþá að renna af okkur. Samt hafa stærri eignir varla selst í heilt ár.

5. Það er sagt núna að þjóðin öll hafi verið á fylleríi, en samt voru nú all nokkrir sem spurðu hvernig stæði á því að t.d. Sterling gæti farið úr núllvirði í 4 milljarða, í 15 milljarða, í 20 milljarða ... og svo á hausinn (gleymum heldur ekki að það fengust aldrei svör við því hvernig greiðsla upphaflegu kaupanna á Sterling fór fram). Það voru líka all nokkrir sem spurðu hverjir ættu að búa í öllum þessum húsum og íbúðum sem byggð voru, eða hverjir ættu að versla í öllum þessum byggingaverslunum og verslunarkjörnum, eða hvaða fyrirtæki ættu að vera í þessum skrifstofuturnum, eða hvaðan peningarnir kæmu eiginlega sem gerðu allar þessar nýju höfuðstöðvabyggingar mögulegar, .... Nú eða bara hvernig hægt væri að réttlæta það að tilteknir menn gætu ákveðið nánast sjálfir, án athugasemda frá hluthöfum, að þeir skyldu njóta kaupauka ofan á kauprétti og svo starfslokasamninga ef þeir væru beðnir að taka pokann sinn, eða ef þeir sáu gróðavon annars staðar og buðust til að fara. Og hvaðan komu þeir peningar sem þeir tóku sér?

6. Munum líka þá staðreynd að það var ekki íbúðalánasjóður sem olli því að hús hækkuðu úr 30 milljónum í 60-70 milljónir þegar hæsta mögulega lánið úr sjóðnum var 18 milljónir.

7. Eigum við e.t.v. að stofna til veðmála um það hvort það verða 10, 20 eða 30 þúsund innfæddir Íslendingar (fyrir utan allt erlenda vinnuaflið) sem flytja munu af landi brott í atvinnuleit? Er ekki betra að byrja á núllpunkti erlendis heldur en að byrja með hálft hús í skuld hérlendis eftir að húsið er farið?

8. Hvað gerist ef nokkur þúsund manns skila bílum sínum inn til kaupleigufyrirtækjanna og hætta einhliða að borga af lánum sínum? Ástandið lítur ekkert vel út þegar friðsamt fólk er farið að tala um af fúlustu alvöru að byltingar er þörf.

9. Gleymum ekki að Bretar sýndu okkur smánarlega vanvirðingu með því að beita á okkur hryðjuverkalögum. En gleymum heldur ekki að þeir bjuggu ekki til vandamál okkar, þeir aðeins gerðu þau erfiðari úrlausnar og hröðuðu hruninu.

Ég stefni enn að því að skrifa meira gegn verðtryggingunni í kringum helgina, ef mér gefst tími til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband