Zap - Hausmynd

Zap

Eiga börnin okkar að búa við verðtryggingu? Nei takk!

Eins og ég hef margítrekað og tek fram hér til hliðar er ég afspyrnu lélegur bloggari. Síðasta færsla mín fjallaði um Evruna og verðtrygginguna, en þegar hún var skrifuð átti ég ekki von á að upplifa þá stöðu sem við erum í núna. En einhvern veginn þykir mér þessi síðasta færsla mín eiga enn betur við núna en þegar hún var skrifuð.

Ég sakna þess mjög þessa dagana að enginn virðist þora að hreyfa umræðum um afnám verðtryggingar og því ríð ég hér á vaðið. Ég KREFST þess að þetta tækifæri sem við stöndum frammi fyrir núna til endurskipulagningar á öllum fjármagnsmarkaði okkar verði ekki látið ónotað til þess að afnema með öllu verðtrygginguna, a.m.k. hjá næstu kynslóð fasteignakaupenda. Látum vera þó okkar kynslóð þurfi að bera klafann og missa eignir okkar, eða kannski frekar þó við eignumst aldrei neitt, en viljum við virkilega að börnin okkar festist líka í klafa verðtryggingar?

Ég krefst líka þess að þeir sem eru með verðtryggð fasteignalán verði ekki skildir alfarið eftir í björgunarráðstöfunum sem boðaðar hafa verið, en engin útfærsla er komin á. Megin áherslan í augnablikinu virðist vera á að hjálpa þeim sem eru með erlend lán vegna snöggrar hækkunar sem orðið hefur á þeim. En verðtryggðu lánin hafa verið að hækka (34 mkr lán hefur hækkað um 7 mkr á 2,5 árum!) smám saman og munu heldur betur taka á sig skell í 50-100% verðbólgu sem verið er að spá þessa dagana. Ég fullyrði hér og nú að allar forsendur þeirrar hækkunar sem mitt lán (innan svigans hér á undan) hefur tekið á sig eru brostnar frá og með 1. október 2008 og ég krefst þess að höfuðstóll þess verði endurreiknaður.

Eins og staðan er í dag er ekki til neitt markaðsvirði á húseigninni 'minni' þar sem slíkar eignir hafa nánast ekki hreyfst nema í makaskiptum í heilt ár (raðhús). Þegar markaðurinn skríður af stað á eftir að koma í ljós hversu mikið verð hefur lækkað, en það er tóm tjara að tala um einhverja 0,2 prósenta lækkun og lítilsháttar hækkun á fasteignaverði síðustu tólf mánaða, þegar eignir eru óseljanlegar í stórum stíl. Mér er ljóst að 80% lánið mitt er sennilega í 110% í dag og verður í 150% þegar næsti uppreikningur vísitölunnar kemur inn í það. 

Ég á ekki von á því að ríkisstjórnin leysi mín mál eða annarra í sömu stöðu og ég sé ekki fram á annað en að leigja húsnæði mitt okurleigu af ríkisbanka um langa framtíð, en ég  kæri mig ekki um að þetta brenglaða umhverfi verði það sem börnin mín þurfa að búa við. Ég vil sjá aukna valkosti í boði í fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Einfaldar viðmiðanir og sanngjörn kjör. Samkeppni væri líka ágæt, innan skynsamlegra marka, en fyrst og fremst í stöðugu umhverfi sem býður upp á að hægt sé að gera áætlanir til lengri tíma en 3ja mánaða.

Í Bretlandi (alla vega á meðan allt var í lagi) var boðið upp á nokkurt úrval fasteignalána. Viðmiðun var gjarnan að þú gætir fengið að láni sem nemur þreföldum árslaunum þínum. Vextir rokkuðu á árunum 1997-2002 á milli 4,9 og 7,2% ef ég man rétt. Þá gat maður tekið lán til t.d. 25 ára sem maður greiddi einungis vexti af. Síðan greiddi maður inn á tiltekinn skyldusparnað (ISA eða PEP, misgóðir kostir en ég man ekki smáatriðin) á lánstímanum með það að markmiði að þegar lánið félli á gjalddaga 25 árum síðar ætti maður einfaldlega höfuðstól til að greiða það upp. Ef mismunur var í plús, átti maður það, en í mínus skuldaði maður það. Síðan er náttúrulega fylgst vel með ávöxtun safnreikningsins og bætt í eða dregið úr eftir aðstæðum hvers tíma (nú um stundir þurfa menn væntanlega að gefa duglega í, en það fer eftir áhættustýringu þeirra safnreikninga sem maður velur sér).  Trygging lánsins felst í veðinu í húsinu, þ.a. ef það t.d. vantar verulega upp á höfuðstólinn má hugsa sér að fasteignin standi vel undir endurfjármögnun eftirstöðvanna, eða eftir aðstæðum mætti selja eignina og kaupa minni. Á lánstímanum má líka skipta um lánadrottinn, skipta um safnáætlun o.s.frv. allt eftir vaxtakjörum og ávöxtunarkjörum sem í boði eru. Þar kemur inn samkeppnin. Að sjálfsögðu er breska kerfið ekkert fullkomið frekar en það íslenska, en þar er þó hægt að setja sér langtímamarkmið sem reikna má með að standist nokkurn veginn.

Verðtrygging einfaldlega gengur ekki upp, ef verið er á annað borð að setja sér það markmið að halda verðbólgu í skefjum. Verðtrygging er eldsneyti verðbólgu og getur aldrei virkað öðruvísi. Börnin okkar verða einfaldlega að læra það að það þurfi að safna sér fyrir útborgun og síðan þurfi að standa undir einhverju hærri vaxtabyrði á fyrstu árum húsnæðiskaupa. Ég fullyrði að það verður léttbærara til lengdar fyrir þau heldur en að pissa í skóinn eins og ég hef gert alla þá hundstíð sem ég hef verið að reyna að eignast einhvern hlut í einhverju húsnæði, eingöngu til þess að sjá bankann eignast það svo allt saman.

Verðtrygging er gengin sér til húðar og forsendur hennar hrundu með bankakerfi Íslands! Amen!!

Og ef einhver ætlar að koma hér með tugguna um að við þurfum verðtrygginguna til þess að tryggja lífeyri okkar, þá segi ég BS! Lífeyrissjóðirnir verða að ávaxta fé okkar á markaði á vöxtum sem dekka verðbólguna. Það þýðir að þeir verða að lána út á breytilegum markaðsvöxtum, ekki á föstum 2-3% vöxtum til 20-25 ára eins og þeir gerðu á árum áður þegar foreldrar okkar og afar og ömmur tóku sín lán sem brunnu upp í óðaverðbólgu þess tíma. Þetta er líka minn lífeyrir sem ég er að tala um þarna, en þetta er einfaldlega sú staða sem við erum í. Sá lífeyrir sem ég mun fá greiddan út úr mínum sjóði mun ekki standa undir afborgunum af skrilljón króna eftirstöðvum af 40 ára húsnæðisláninu mínu þegar ég fer á eftirlaun, það er ljóst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

verðtrygginguna út á hafsauga....sammála

Hólmdís Hjartardóttir, 16.10.2008 kl. 02:40

2 identicon

Gæti ekki verið meira sammála þér og skil bara alls ekki af hverju ekki verið baráttumál almennings.  Bý reyndar sjálf erlendis og bý því sem betur fer ekki við þetta óskiljanlega ástand.  Vakið athygli mína hve Íslendingar á síðustu árum verið uppteknir af nafnvöxtum en ekki haft hugmynd um hver verðbólgan á hverjum tíma!  Náttúrulega verið að vakna upp við vondann draum (martröð) á síðustu mánuðum en bara í fyrra (sumarið 2007) gat enginn Íslendingur (sem ég spurði og voru flestir sem hitti í 3 vikna heimsókn) með verðtryggt lán sagt með vissu um hver verðbólgan (og þ.m.t. hver verðtryggingin á lánum þeirra væri).  Fékk svörin frá 2-10%, sem náttúrulega munar öllu!

ASE (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 03:14

3 identicon

Sammála þér bróðir, verðtrygging er eitthvað sem á ekki heima í þeirri veröld sem við lifum í dag. Meira segja þeir, sem hafa verið hógværir í lántökum (eins og ég), verðum fljót að ná upp í markaðsvirði hússins eða fasteignamatið, ef verðbólga upp á 100% gengur eftir. Það er auðsjáanlega verið að refsa almenningi fyrir að vilja eignast eigið húsnæði.

Ég tek undir þá kröfu þína, að afmá verðtrygginguna strax í dag.

Lilja systir (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 16:36

4 identicon

Eldri kynslóðir hafa gjarnan státað sig af því að hafa getað búið börnum sínum betri kjör en þau sjálf máttu sætta sig við. Okkar kynslóð þarf hins vegar að horfast í augu við það að taka við verðtryggingu lána á eignum okkar  sem þýðir að við getum í raun lítið eignast og engin verðmæti skapað fyrir komandi kynslóðir. Okkar börn fá bara að taka við rjúkandi rústum . Vonandi gegnur þeim betur að byggja upp enn okkur

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 19:17

5 Smámynd: Hólmsteinn A. Brekkan

Nr. 1

Raunveruleg verðtrygging er ekki til!

Ef eitthvað gæti að kallast "verðtryggt" merkir það að verðmæti þess sem verið er að tryggja haldist í hendur við það sem lagt er til t.d. húsnæði, bíll. 

Erum við að sjá slíka virkni hér á Íslandi? Hmmmm..

Hvað er málið?

Jú að einfaldlega að lán sem veitt er t.d. til íbúðarkaupa getur "aldrei" vaxið yfir verðmæti þess sem keypt er. (þ.e.a.s. standi viðkomandi við umsamdar afborganir)

Lán (fjármagn) til íbúðarkaupa kostar eitthvað þann tíma sem það er í notkun þ.e.a.s. í raun og veru er verið að leigja út afnotarétt af rétti til ráðstöfunar verðmæta. (þetta kallar á að leita sér örlítillar þekkingar á hvað peningar/fjármagn er í raun og veru.)

Það er að við lok leigutímans standa eftir einhverskonar verðmæti t.d. íbúð, bíll, virkjun eða annað sem ég, þú eða einhver hefur ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir.

Er þetta raunin?

Við getum haft endalausar skoðanir á þessu kerfi okkar (sem við köllum verðtryggingu) og druknað í þeim akri illgresis hræðslu og ótta án þess að sjá nokkra lausn. 

Við leyfðum, höfum leyft og höfum nært þetta kerfi, sem ég leyfi mér að kalla "kerfi algers arðráns og eignaupptöku", í áratugi í blindni og án nokkura athugasemda. Viljum við viðhalda þessu? 

Það hefur verið talað um að fá fram sannleikann í bankahruninu og birta síðan einhvera "Hvítbók" um ferlið og söguna sem er eflaust hið besta mál. En höfum við kjark og þor til þess að skoða þann illgresis akur okkar sem þetta þreifst í og við sköpuðum með hinni svo kallaðri "verðtryggingu".

Ég ber ábyrgð á þessu og hef leyft þessu að viðgangast. Ég viðurkenni að ég hef ekki lagt mitt að mörkunum til leiðréttingar á þessum djöfulsskap heldur þvert á móti fóðrað skepnuna.

Ég er tilbúinn til að gera allt það sem í mínu valdi stendur til leiðréttingar á þessum ósköpum.. en hvað vilt þú?

Hólmsteinn A. Brekkan, 17.10.2008 kl. 01:03

6 Smámynd: Karl Ólafsson

Hólmsteinn,

hvað vil ég, spyrð þú. Ég vil að við látum þau skilaboð berast út í þjóðfélagið að það sé ekki ásættanlegt að viðhalda verðtryggingarkerfinu/afskræminu. Því fleiri sem láta þetta heyrast, því betra. Og því hærra, því betra.

Ég er reyndar búinn að senda þessa grein, örlítið breytta, til Mbl. Sjáum til hvort hún birtist. Hvað er hægt að gera meira? Allar hugmyndir og tillögur vel þegnar.

Ég væri t.d. til í að reyna að ná fundi Viðskiptaráðherra, ef það skyldi vera hægt. En það verður ekki hlustað á pípið í mér einum, það er ljóst.

Karl Ólafsson, 17.10.2008 kl. 02:13

7 identicon

Það er loksins að byrja umræða um verðtryggingu. Mér skilst að það sé engin leið að losna við hana nema henda krónunna og taka upp mynt sem er stöðugari.

http://okurvextir.blogspot.com

Rósa Halldórs (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband