17.2.2008 | 02:30
Björn B góður, ... eða þannig.
Hæstvirtur dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, er duglegur bloggari og oft áhugavert að lesa pistla hans. Því er þó miður að hann, eins og flestir þeir stjórnmálamenn sem blogga og telja sig yfir dægurþras hafna, leyfir ekki athugasemdir við skrif sín. En það er svo sem eðlilegt að menn nenni ekki að bjóða upp á andsvör við skrifum sínum á eigin síðum, gæti litið illa út.
Þess vegna verður maður bara að nota sína eigin síðu til að lýsa vanþóknun á skrifum Björns Bjarnasonar. Í nýjustu færslu Björns getur hann ekki stillt sig um að skjóta enn eina ferðina á Sigurð Líndal með því að gera lítið úr skrifum hans, en forðast algerlega að fjalla málefnalega með mótrökum um það mál sem pistlar Sigurðar upp á síðkastið hafa fjallað, þ.e. vinnubrögð við skipun í dómaraembætti.
Þannig skrifar Björn:
"Neikvæðar alhæfingar Sigurðar Líndals um stjórnmálastörf og stjórnmálaumræður einkennast fyrst og síðast af yfirlæti prófessorsins, sem tallar niður til alls og allra. Þar skilur á milli hans og okkar hinna, sem hann ætlar að reyna að siða eða gera ómerka með skrifum sínum."
Það er nefnilega það. "Þar skilur á milli hans og okkar hinna"! Er ekki pínulítið yfirlæti í þessu Björn?
Sigurður hefur stigið fram, eins og fjöldamargir aðrir í þjóðfélaginu, til þess að mótmæla vinnubrögðum ráðherra við embættisveitingu. Vinnubrögðum sem betur hæfðu á tímum annars konar stjórnarfars en hér á að ríkja. Þessi mótmæli Sigurðar eru málefnalegri en margra annarra (þ.m.t. skrif undirritaðs um málið). Það er glæpur Sigurðar að beygja sig ekki fyrir óumdeildu 'valdi' ráðherra til þess að vera ekki bundin af mati utanaðkomandi nefndar og þegja.
Og Björn heldur áfram:
"Málum er hins vegar einfaldlega þannig háttað, að við höfum fullan rétt til skoðana okkar og til að láta þær í ljós, hvað sem umvöndunum Sigurðar líður. Hann hefur ekki neinn einkarétt á útleggingum í þessu ágreiningsmáli um aðferð við skipan dómara frekar en í öðrum málum."
Rétt er það Björn! En, ...
a) 'Þið' (hverjir sem þessir 'við' eru sem vitnað er til) hafið ekki rétt til þess að hundsa lýðræðis- og jafnræðisreglur að eigin geðþótta!
b) 'Þið' hafið ekki rétt á að snúa vísvitandi út úr orðum Sigurðar og beita ykkar þreyttu smjörklípuaðferðum til þess að skíta út mannorð einstaklinga eins og Sigurðar.
c) 'Þið' ættuð að varast að líta á kjósendur sem fífl sem endalaust trúa því að þið segið satt og rétt frá í öllum tilfellum, þegar annað blasir við. Hér á ég við þá fásinnu að halda því fram að settur dómsmálaráðherra hafi farið málefnalega yfir umsóknir allra umsækjenda og tekið eigin ákvörðun um hver skyldi hljóta embættisveitinguna umdeildu.
d) 'Þið' hafið heldur ekki rétt á að halda því fram að andmælendur þessarar embættisveitingar vegi að persónu þess sem embættið hlaut. Það er nógu oft búið að ítreka að málið snýst ekki um hans persónu, heldur hvernig staðið var að ákvörðun um ráðningu hans.
Það færi betur á því að stjórnmálamenn eins og Björn Bjarnason hættu að agnúast út í málefnalega umræðu, þó hún sé þeim óþægileg, með gagnárásum á persónu þeirra sem þátt í henni taka. Það hefði verið hægt í þessu tilfelli að bregðast öðruvísi við nýjustu skrifum Sigurðar Líndal í Fréttablaðinu með því einfaldlega að virða skoðanir hans og fallast á að munur muni vera áfram á skoðunum aðila. Ef Björn Bjarnason gerir kröfu um að fá að eiga sínar skoðanir (fyrirgefið; þeirra skoðanir) fyrir sig, sem honum er vissulega frjálst, þá verður á móti að gera þá kröfu að hann geti sýnt öðrum þá virðingu að leyfa þeim að vera skoðunum hans/þeirra ósammála.
Björn Bjarnason er án efa einn af okkar duglegustu og hæfustu ráðherrum, en laus við hroka er hann ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.