Zap - Hausmynd

Zap

32 stafir

Helgi Seljan er ekki sáttur við að ekki skuli vera hægt að skrá fullt nafn dóttur hans í Þjóðskrá Hagstofunnar. Þó er nafn dóttur hans ekki nema 34 stafir að lengd.

Svör Hagstofunnar við fyrirspurn um málið er á sama veg og það var fyrir 2-3 árum ef ég man rétt. Það er sem sagt verið að vinna í málinu.

Ég kími aðeins út í annað við að lesa um þetta því ég blandaðist óvart aðeins inn í umræðu um þetta fyrir næstum 15 árum síðan. Ég var þá kerfisforritari og gagnasafnstjóri hjá Skýrr, en Skýrr vistaði þá (og gerir enn það best ég veit) Þjóðskrána í Adabas gagnagrunnum sínum. Þjóðskráin var og er lykilskrá í öllum tölvukerfum sem hafa með persónutengdar upplýsingar að gera, hvort sem um er að ræða afrit úr skránum hjá Skýrr, eða upplýsingarnar sóttar beint í skrár Skýrr. Breyting á skránni er því vissulega viðkvæmt mál sem hefur áhrif mjög víða. En það er ekki þar með sagt að þetta þurfi að vera eitthvað erfitt, eða að þetta þurfi að taka 15 ár og kosta tugi eða hundruðir milljóna! Ég tek það fram að mér er algerlega ókunnugt um umfang eða kostnað eða aðrar áætlanir vegna þessara breytinga sem Hagstofan vísar til að séu í vinnslu.

En fyrir þessum tæpum 15 árum spurðist Hagstofan fyrir um það hjá Skýrr hvort ekki mætti breyta þessum hlutum, þ.e. lengdum t.d. nafnasvæða og heimilisfangasvæða. Ég var á sínum tíma afar ósáttur við að frétta í gegnum starfsmann Hagstofunnar hvaða svar hefði borist frá Skýrr. Ég hafði ekki komið að því svari á nokkurn hátt og ekki einu sinni vitað af því að fyrirspurnin hefði borist.

Svarið var á þá leið að þetta væri nokkuð flókin og dýr breyting. Ég var ekki sáttur því tæknilega var þetta ekki rétt svar að mínu mati þá og ég hef ekki skipt um skoðun á því. Ég skrifaði nokkuð harðort bréf (tölvupóst) til stjórnenda Skýrr og sagði að ég væri ekki sáttur við að Hagstofan fengi slík svör, sem að mínu mati væru illa ígrunduð. Ég spurði hvort menn vildu að Hagstofan færi eitthvað annað til að fá úrlausn á þessu. Þessu bréfi var ekki tekið vel alls staðar þar sem sumum þótti vegið að starfsmanninum sem hafði unnið svarið til Hagstofunnar. Mér gekk það hins vegar ekki til, vildi bara að þetta svar yrði endurskoðað og sett í gang verkefni með Hagstofunni til að leysa úr þessu, án gríðarlegs kostnaðar eða tækniflækju. Það hefði verið og er enn þann dag í dag vel hægt að leysa úr þessu með nokkurra vikna verkefni sem þyrfti ekki að kosta meira en kannski örfáar milljónir, ef valið er að fara einfaldar leiðir. Þar með væri búið að leysa úr þessu hvað varðar skráninguna hjá Hagstofunni, en eftir sem áður yrðu póstáritanir sem unnar væru úr skránni og afleiddum skrám hennar eins og áður e.t.v. styttar. Lengri tíma tæki fyrir aðila sem sæju um slíka hluti að aðlaga sig breytingunni, en það ynnist bara smám saman á þeim tíma sem notendum Þjóðskrárinnar hentaði.

Ég veit ekki hvar hnífurinn stendur í kúnni í dag. Ég veit að það er ekki við starfsmenn Skýrr þá eða í dag að sakast og það er án efa ekki heldur við starfsmenn Hagstofunnar að sakast. Mig grunar að þetta sé að taka svona allt of langan tíma vegna þess að menn freistast til að finna of stóra lausn á tiltölulega smáu vandamáli með því að endurskrifa kerfið frá grunni með tilheyrandi kostnaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Jón

Þetta er lýsandi fyrir tregðu í opinberum stofnunum. Það vita þeir sem þekkja að þetta er afar einföld breyting í gagnagrunni og Þjóðskráin er þess eðlis að hún getur vel sent bréf til áskrifenda og lagt þeim línurnar ef gerðar eru breytingar á henni. Tæknileg breyting tekur klukkutíma og innleiðslufrestur hjá áskrifendum tekur t.d. þrjá mánuði.

Það er hins vegar gaman að skoða þetta dæmi og bera það saman við aðstæður fyrrum stjórnmálamanns. Málið var þannig vaxið að hann þurfti að bjóða sig fram í einu kjördæmi og eiginkona hans í öðru, en til þess þurftu þau að vera skráð á sitthvort lögheimilið. Fram að þeim tíma hafði slík skráning ekki aðeins verið ómöguleg í Þjóðskrá heldur einnig óheimil skv. lögum. Hins vegar tek ekki langan tíma hjá Þjóðskrá að gera nauðsynlegar breytingar svo þetta gæti gengið upp hjá viðkomandi. Þó má vel ætla að þessi breyting hafi bæði verið nokkuð flóknari í innleiðingu í Þjóðskránni sjálfri auk þess sem hún krafðist lagabreytingar.

Tregðan kemur og tregðan fer!

Óli Jón, 12.1.2008 kl. 16:15

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Sæll Óli Jón og takk fyrir athugasemdina.

Tæknilega lausnin á þessu hefði verið að breyta grunnskráningunni í skránni, e.t.v. með viðbótarsvæði og birta þetta notendum sem væru tilbúnir í nýrri sýn á skrána (e. View).  Þá þurfa menn engan sérstakan aðlögunartíma og geta fært sig í nýja formið þegar þeim hentar. Aðrar útfærslur á lausninni eru vel hugsanlegar sem hefðu sömu kosti hvað varðar aðlögun.

Sagan á bak við 32 stafina er svo kannski tilefni til þess að ég skrifi smá viðbótarfærslu. Yngra fólkið í dag man náttúrulega ekki eftir 80 stafa gataspjöldunum :-) Sé til síðar í dag.

Ef ég man rétt uppbyggingu þjóðskrárinnar á sínum tíma hefði ekkert verið tæknilega því til fyrirstöðu í gagnagrunninum að skrá hjón á sitt hvort lögheimilið. En vissulega getur slík breyting þó haft í för með sér þyngri breytingar á verkferlum, reglugerðum og að maður tali ekki um lögum, sem vegur náttúrulega þyngra. Lengd á svæði er hins vegar eingöngu tæknilegt mál.

Karl Ólafsson, 12.1.2008 kl. 16:32

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Meinarðu þjóðskráin sem slík?

Hún er ekkert stór á okkar tíma mælikvarða. Ætli hún sé nema ca. 100-200MB með öllum hliðartöflum (nafnaskrá, heimilisfangaskrá, póstnúmeraskrá, horfinnaskrá og kannski örfáar skrár í viðbót). Man þetta ekki alveg. Ég held að skrár sem áskrifendur að þjóðskrá fá í hendurnar sé enn minni, kannski 60MB ef ég má giska. En það eru rúm 10 ár frá því að ég hætti hjá Skýrr þ.a. ég er dottinn út úr þessu.

Karl Ólafsson, 12.1.2008 kl. 22:59

4 Smámynd: Karl Ólafsson

Gleymdi að telja upp fyrirtækjaskrá hér á undan. En það breytir ekki áætluðum stærðartölum :-)

Karl Ólafsson, 12.1.2008 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband