9.12.2007 | 02:35
Liggur lífið á?
Menn eiga það til að kvarta yfir því að vegur eins og Reykjanesbrautin sé lokuð í 2-3 klst. Menn tala þá jafnvel um að aðstæður geti verið þannig að menn megi ekki við slíkum töfum. T.d. gætu menn verið að missa af flugi og þess háttar. Víst er slíkt bagalegt en hey, slíkt getur gerst.
Ég bjó í Bretlandi um tíma, í Miðlöndunum. Eitt skipti af mörgum sem ég keyrði gest niður til Heathrow flugvallar sá ég að það var alvarlegt slys á M25 (réttsælis) og sú leið lokuð og mikil biðröð. Þetta var náttúrulega leið mín til baka, en ég hugsaði sem svo að það yrði örugglega búið að hreinsa þetta upp þegar ég færi uppeftir aftur eftir 2 tíma eða svo, því ég ætlaði að hinkra aðeins á Heathrow með gestinum til að kveðja hann almennilega. 'Boy, was I wrong!'
Svo legg ég af stað heim, réttum 2 tímum síðar. Mest öll fjölskyldan með. Og við rétt komin inn á M25 og framhjá M4 og M40 sem hefði getað verið hjáleið fyrir okkur þegar allt er allt í einu stopp. Þetta er í ágúst á heitasta degi sumarsins, 28-30 stiga hiti. Til að gera langa sögu stutta biðum við þarna í þessum steikjandi hita (með eina gosflösku minnir mig) í ca. 6 klukkustundir án þess að mjakast eina tommu. Enginn lét sér detta í hug að keyra á neyðarakreininni til að komast í gegnum slysstaðinn (sem var í nokkurra mílna fjarlægð).
Eftir 6 klukkustundir höfðu einhverjir fundið út að það var hægt að komast í gegnum hlið út af hraðbrautinni og ég sá nokkra bíla hverfa þar í gegn. Ég tók sénsinn að þarna væri um að ræða hjáleið og elti. Lenti inn á sveitavegi sem leiddi inn í þorp og annað og á endanum komst ég því upp á M1 framhjá stíflunni. En skiljanlega reynir lögreglan þar ekki að beina bílum inn á svona hjáleiðir, því ímyndið ykkur umferðarþungann af M25 (hraðbraut sem nær hringinn utan um London, gríðarlega umferðarþung) inni á þröngum þorpsgötum.
Í eitt skipt lenti ég svo í því að umferðartafir á hraðbrautinni olli því að hluti fjölskyldunnar missti af flugi. Vélin var reyndar ekki farin þegar við náðum á völlinn, en það þýddi ekkert að suða og tuða í starfsfólkinu á vellinum, vélin gat ekki beðið. Ekkert við því að segja og ekkert annað að gera en að taka hótelherbergi fyrir þau og koma þeim svo í næsta flug daginn eftir.
Þetta er bara eitt af því sem getur gerst. Ég rifja þetta upp núna því mér þykir sem það þurfi ansi góða afsökun til að ryðjast í gegnum vettvang alvarlegs slyss eins og átti sér stað á fimmtudagskvöldið í Straumsvík.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.