25.3.2007 | 00:26
Loksins fékk ég myndina í hausinn ....
Ég var að hugsa um hvort ég ætti að reyna að blogga eitthvað af mikilli speki í kvöld.
Hefur langað til þess annað veifið að tjá mig um álversstækkunarmálið og kosningarnar næstu helgi. Nenni því samt ekki. Ég er ekki búinn að ákveða ennþá hvernig ég greiði atkvæði mitt. Leiðist eiginlega alhæfingar og útúrsnúningur (rök og mótrök á fínna máli) málsaðila. Ég verð að gera upp hug mín út frá mínum eigin forsendum, en ég hef alla vega vikuna til þess.
Svo lá við að ég færi að reyna að gera athugasemd við blogg færslu Jóns Vals Jenssonar þar sem hann bísnast yfir því að almannafé sé ausið í samkynhneigða. Sá hins vegar þegar ég las yfir athugasemdirnar sem hann hafði fengið og andsvör hans við þeim að ég mundi ekki hafa mikið til málanna að leggja. Nokkuð ljóst að þessum manni verður ekki hnikað til umburðarlyndis eða hann fenginn til að viðurkenna að það felist ákveðinn hroki í því að vera svona öruggur eins og hann virðist vera með að allur sannleikur lífsins felist í biblíunni og boðskapur hennar sé óskeikull og því séu þeir sem læri þau fræði og fái þar með leyfi til að túlka boðskap biblíunnar fyrir okkur hin ólærðu líka óskeikulir. Það sem ég var hins vegar að hugsa um að segja, sem athugasemd mína við upphaflegu færslu Jóns, um þessar upphæðir sem Samtökin 78 hafa fengið í gegnum tíðina var eiginlega bara þetta: 'So....?'
Svo eru menn byrjaðir að blogga um útsetningu Spaugstofumanna á þjóðsöngnum. Ég var einmitt að hugsa þegar ég sá þetta hjá þeim að nú yrðu þeir sennilega skammaðir. Verst að sennilega verða þeir kærðir líka fyrir brot á lögum nr. 7 frá 1983. Brot þeirra varðar sektum eða varðhaldi allt að 2 árum! Vonandi verður þeim þó sýnd linkind og þeir (eða RÚV sem ábyrgðarmenn þeirra) bara sektaðir um svona 5 þúsund kall hver (*2 því þeir voru fjölfaldaðir í kórnum sem flutti verkið). Vel gert hjá þeim, frábært atriði.
En, eins og sést á þessu þusi í mér hef ég svo sem ekkert fram að færa þannig að ég breytti bara í staðinn aðeins útlitinu á síðunni minni í von um að einhver tæki kannski eftir því. Myndina sem prýðir núna efsta hluta síðunnar tók konan mín. Mér finnst hún mögnuð (þ.e. myndin, en auðvitað konan líka ). Hún er tekin frá stéttinni fyrir framan húsið okkar í áttina að klaustrinu í Hafnarfirði um tunglbjarta nótt um jólaleytið. Ég var búinn að ætla mér að koma þessari mynd í hausinn í nokkuð langan tíma.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2007 kl. 23:03 | Facebook
Athugasemdir
Frábær mynd. Eins og úr ævintýri
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2007 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.