Zap - Hausmynd

Zap

Sigtúnshópurinn - Deja vu. Enn mun verða mismunað!

Ég veit ekki hversu margir muna eftir Sigtúnshópnum svokallaða. Þetta var öflugur baráttuhópur á fyrri hluta níunda áratugarins sem barðist fyrir leiðréttingu vegna misgengis launa og lána á ákveðnu tímabili.

Þessi hópur náði í gegn sínu baráttumáli og var ákveðið af stjórnvöldum að þetta misgengi skyldi leiðrétta. Útfærslan á þessari leiðréttingu var hins vegar með mestu ólíkindum að mínu mati þá sem nú og nú sé ég að það sama er í uppsiglingu í þeirri umræðu sem er í gangi um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra lána. Ég ætla að spá því núna að ákveðið verði að ákveðnum hópi lánþega með verðtryggð lán verði veitt leiðrétting á höfuðstól lána sinna, en öllum öðrum verður, eins og á tímum Sigtúnshópsins, mismunað og þeir munu enga leiðréttingu fá. Þessi aðgerð mun ekki miða við þörf einstaklinga, heldur verður búið til 'demographic' úrtak sem fær þessa lækkun, aðrir munu ekki fá neitt. Væntanlega, enn eins og á tímum Sigtúnshópsins, verður miðað við þá sem keyptu sína fyrstu íbúð á einhverju tilteknu tímabili. Sigtúnshópurinn miðaðist við þá sem keyptu sína fyrstu íbúð 1983 og síðar. Ég keypti mína fyrstu íbúð í desember 1981 og fannst þá sem ég hefði ekki farið varhluta af þessu misgengi sem kallað var þegar ég horfði á verðtryggð lán mín hækka um 17% á sama tímabili og (þá) verðtryggð laun mín hækkuðu um 3%!

En nú á sem sagt að endurtaka Sigtúnsfléttuna og það athyglisverða er að nú situr í embætti fjármálaráðherra einstaklingur sem beitti sér all nokkuð fyrir Sigtúnshópinn á sínum tíma. Hann keypti að ég held sína fyrstu íbúð 1983.

Munu Hagsmunasamtök heimilanna samþykkja þann gjörning sem nú er í uppsiglingu?

Ég tek það fram að vísbendingar mína um að það sé nákvæmlega þetta sem er að fara að gerast eru tilvitnanir í forsætisráðherra og fjármálaráðherra í fjölmiðlum í dag og í kvöld. Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér í spá minni!

Ef þetta verður að raunveruleika með þessum hætti, eina f?????g ferðina enn þá tel ég að hér á landi sé til ákveðin kynslóð fjölskyldna á miðjum aldri eða að nálgast miðjan aldur sem aldrei mun eiga sér viðreisnar von. En af því að sú kynslóð hefur ekki keypt sína fyrstu íbúð nýlega, heldur hefur barist vonlausri baráttu við að reyna að eignast eitthvað í fasteignum sínum í 3 áratugi eða svo og af því að þessi kynslóð er væntanlega ekki lengur með lítil börn á sínu framfæri, þá verður talið í lagi að þetta viðgangist og fari fram svona. Það er spurning hvort það er yfirleitt einhver tilgangur fyrir það fólk að halda áfram baráttu sinni hér á landi? Í gegnum tíðina er þetta kynslóðin sem á að vera farin að hafa það aðeins náðugra að því leyti að skuldir hennar eiga að vera orðnar lægri, eignin all nokkur og afkoma þokkaleg. Sem betur fer er þetta þannig hjá mörgum, en það gildir hins vegar því miður ekki um alla.

En að allt öðru. Var ekki yndislegt að heyra Bjarna Ben eigna sjálfum sér það að IceSave lögin náðu ekki fram að ganga um áramótin síðustu. Það var helst að heyra að hann hefði sagt Cameron af hverju hann hefði stöðvað það mál. Eða var hægt að skilja orð hans í 10 fréttum Rúv öðruvísi? Og áður en menn fara að telja hann hetju og helsta leiðtogaefni og vonarneista landsins, þá væri fróðlegt að vita nákvæmlega hvort hann kinkaði kolli eða ekki þegar Cameron lýsti sinni skoðun að það yrði að ná samningi í þessu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Mikið vona ég að þú hafir rangt fyrir þér.

Axel Þór Kolbeinsson, 8.10.2010 kl. 10:24

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Axel, ég vona það svo sannarlega líka, en ég gat ekki skilið betur orðalag sem viðhaft var í fréttatímum fjölmiðla í gær.

Ef grunur minn reynist ekki á rökum reistur þá er ég mikið til í að draga þessa grein til baka. Sjáum hvað setur.

Karl Ólafsson, 8.10.2010 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband