Zap - Hausmynd

Zap

110 króna sekt á seldan mjólkurlítra utan kvóta!

Ég rýf nú langa bloggþögn mína vegna þess að ég fæ ekki orða bundist.

Ég sakna þess sárlega að sjá ekki bloggheima loga út af lagasetningu sem liggur fyrir á komandi haustþingi og fjallað var um í fréttum kvöldsins. Það á sem sagt að koma í veg fyrir að hér geti risið upp nýjar afurðastöðvar í mjólkuriðnaði með því að girða algerlega fyrir þann möguleika að slíkar stöðvar geti samið við bændur um kaup á afurðum þeirra. Til stendur að leggja 110 króna sekt á hvern mjólkurlítra sem þannig er seldur framhjá skömmtunarkvóta sem Mjólkursamsalan virðist ein mega kaupa.

Er þetta það nýja Ísland sem við ætluðum að byggja á rústum þess gamla? Það lítur nefnilega ansi líkt út og eld-gamla hafta-Ísland sem við munum eftir og ekki var beint það sem við vildum þó ekki tæki betra við um tíma. En ætluðum við ekki að stefna fram á veginn?

Ætla bændur að láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust? Samtök þeirra virðast ætla að gera það og reyndar heyrist mér að þeir styðji þessa lagasetningu? Hverra hagsmuna gæta þeir?

Nú er ég enginn sérfræðingur um búnaðarlög í fortíð eða nútíð, en þetta tiltekna atriði slær mig á þann veg að þetta getur ekki verið eðlileg þróun og það getur ekki verið að þessi niðurstaða hafi fengist með eðlilegum, frjálsum og lýðræðislegum hætti.

Munu þingmenn okkar afgreiða þetta í kyrrþey í skjóli komandi rifrildis um Icesave, ESB og orkumál, sem vissulega eru stór mál og mikilvæg, en þó ekki einu málin sem skipta okkur máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þetta er rétt sem þú segir þá er þarna verið að girða fyrir samkeppni sem er auðvitað ekker annað en leiðin að einokun, auk þess sem þetta er í sjálfu sér ákveðið samráð á milli framleiðenda og heildsölu.

Geturðu birt tilvonandi lagasetningu um þetta mál hér?

Sigurður Pétursson (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 07:12

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég fann í fljótu bragði ekki frumvarpið sem um ræðir á vef Alþingis eða Landbúnaðarráðuneytis.

Hér er hins vegar hlekkur í eina frétt um málið:
http://www.ruv.is/frett/frumvarp-hamlar-samkeppni

Ég skal bæta inn betri tilvísunum ef ég finn þær síðar í dag.

Karl Ólafsson, 2.8.2010 kl. 10:48

3 identicon

Þetta gæti ekki komið til greina innan EU? Kannski er EU alls ekki svo slæmt fyrir frjálsa bændastétt? Vert að velta vöngum um það.

Nikulás Helguson (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 16:09

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er allt rétt hjá þér Karl. Það er með ólíkindum að árið 2010  skuli liggja fyrir frumvarp til að tryggja einokun á mjólkurvinnslu sem hingað til hefur notið stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta þingmanna.  Einn þingmaður Framsóknarflokksins kom fram grímulaus í fréttum í kvöld og sagði að samkeppni ætti ekki við í landbúnaði. Mér er spurn á hún þá frekar við í íðnaði, þjónustu eða sjávarútvegi. Annað hvort búum við í markaðsþjóðfélagi eða ekki.

Það er sorglegt að horfa upp á það að afturhaldið í íslensku þjóðfélagi skuli virkilega vera slíkt að einokunarfrumvarp eins og þetta sem vegur að frjálsri markaðsstarfsemi og atvinnufrelsi í landinu skuli eiga sér formælendur á Alþingi fleiri en einn og tvo jafnvel allt að 40.  En bloggheimar loga venjulega út af allt öðru en því sem varðar raunveruleg prinsíp og hagsmuni fólksins í landinu því miður.

Jón Magnússon, 2.8.2010 kl. 23:22

5 Smámynd: Karl Ólafsson

Sigurður, ég hef ekki haft tíma til þess í dag að leita uppi þingskjöl með frumvarpstextanum. Ekki alveg viss hvar ég get fundið þetta, en mér sýnist á fréttaumfjöllun kvöldins að þess þurfi e.t.v. ekki strax. Umræðurnar halda vonandi áfram. Ég mun kynna mér texta frumvarpsins og rökstuðning betur síðar til að sjá hvort tilfinning mín sé rétt; að þetta séu arfavitlaus lög sem þarna á að setja og úr takti við það sem maður vildi að nýtt Ísland stæði fyrir.

Jón, já, það var aumur rökstuðningur framsóknarþingmannsins í fyrri fréttum í kvöld, en aumari var þó rökstuðningur ráðherrans í seinni fréttatímanum, eða hvað fannst þér um það sem hann sagði? "Við viljum hafa öryggi og festu í mjólkuriðnaðinum. Við viljum ekki hleypa hlutunum í einhverja vitleysu". Ekki orðrétt eftir ráðherranum haft, en nærri lagi. En þú hittir naglann á höfuðið þegar þú segir "annað hvort búum við í markaðsþjóðfélagi eða ekki".

Hvað með atvinnufrelsi? Hvað með frumkvæði og viðleitni til þess að skapa nýjan markað fyrir mjólkurafurðir? Það er eitthvað stórkostlega mikið að í landbúnaðarkerfi okkar ef það sem framsóknarþingmaðurinn og vg-ráðherrann halda fram er satt og rétt. Og Nikulás, því er það e.t.v. rétt hjá þér, kannski er landbúnaði okkar ekki verr borgið innan ESB en utan, hver veit. Við eigum alla vega skilyrðislaust að klára það verk sem hafið er, að klára umsóknarferlið og taka síðan afstöðu til þess samnings sem fæst, sem þjóð! Hvað sem Sjálfstæðismenn kjósa að segja núna um þetta mál, þrátt fyrir að formaður flokksins og fleiri hafi haft allt aðra skoðun á því máli fyrir 18 mánuðum eða svo. Í raun þykir mér forysta þess flokks leiða sanntrúaða andstæðinga ESB aðildar á asnaeyrunum í einhverjum vinsældaleik, því ekki fylgir hugur máli hjá þeim öllum í forystusveitinni, það er ljóst.

Þakka ykkur innlitið.

Karl Ólafsson, 2.8.2010 kl. 23:48

6 Smámynd: Karl Ólafsson

Sigurður, hér er reyndar frumvarpið:

http://www.althingi.is/altext/138/s/1284.html

Það var ekki svo djúpt á því á Google þegar ég fann réttu leitarorðin :-)

Karl Ólafsson, 3.8.2010 kl. 00:40

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta frumvarp er greinilega samið að frumkvæði Kaupfélagsstjórans á Sauðárkróki - Þórólfs Gíslasonar sem einnig er æðsti yfirmaður Mjólkursamsölunnar. Hann hefur unnið að því að því sleitulaust að koma á sem allra mestri einokun varðandi sölu á landbúnaðarafurðum. Það á bæði við um lambakjötið og mjólkina.

Í gegnum lög um samvinnufélög þar sem vald toppanna er algjört, þá hefur tekist að knésetja bæði sláturleyfishafa utan kaupfélaganna og Mjólku sem var góð viðbót við mjólkuriðnaðinn á Islandi. 

Ég hef orðið vitni að þessu aðgerðum hér á mínu svæði NL vestra og það er með ólikindum hvaða aðferðum er beytt og hve gríðarleg ítök Þórólfur hefur þó ekki fari hátt.

Í tíð Magnúsar Stefánssonar félgsmálaráðherra fékk Þórólfur góð býtti, með færslum stofnana i skiptum fyrir kvóta/skip á Skagaströnd og sláturhús/kjötvinnslu á Hvammstanga

Það þarf einhvern góðan rannsóknarblaðamann til að skoða hvað verið hefur að gerast í kringum Þórólf Gíslason gagnvart afurðasölumálum bænda undanfarna áratugi.

Samvinnutryggingar og S hópurinn eru svo þar fyrir utan.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.8.2010 kl. 01:10

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Bætti inn í upphaf færslu minnar og það er feitletrað. 

Þetta frumvarp er greinilega samið að frumkvæði Kaupfélagsstjórans á Sauðárkróki - Þórólfs Gíslasonar sem einnig er æðsti yfirmaður Mjólkursamsölunnar. Hann hefur unnið að því að því sleitulaust að koma á sem allra mestri einokun varðandi kaup á landbúnaðarafurðum af bændum og sölu þeirra til neytenda. Það á bæði við um lambakjötið og mjólkina.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.8.2010 kl. 01:13

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það hefur alltaf verið einokun á Íslandi á afurðum bænda, einokunin hefur verið dulbúin og hefur heitið ýmsum nöfnum. Þetta er ekkert skrítið. Nægir að benda á að þetta sé íslenskt.

Á Íslandi er glæpamennska kölluð viðskipti, svik og prettir í kvóta á fiski kölluð "fiskveiðistjórnun", aukna skatta þarf endilega svo fólk með rúma milljón á mánuði getir reiknað út hvort fólk með 130 þúsund á mánuði eigi að fá 2 þúsund krónu hækkun.

Fyrirtæki á Íslandi taka risabankalán með tryggingu frá Ríkinu til að greiða út arð! Það er ekkert hægt að taka þetta land alvarlega að neinu leyti...

Ef ég væri bóndi myndi ég bindast öðrum bændum og selja eins mikið af kjöti og mjólk á svörtum markaði. Til helvítis með þetta glæpastýrikerfi, þykjast eftirlit og einokun á vörusölu.

Ef ég væri bóndi mundi ég fara í hópferð með 100 bændum og sturta kúmykju fyrir utan alþingishúsið. Hella niður mjólkinni niður í nokkrar vikur eða mánuði. Fara í almennt verkfall og mótmælagöngur.

Enn það er verið að reyna að ganga fram af fólki á öllum sviðum. Bændur munu gefa sig, láta ræna sig og sjá siðan enga leið út úr þessu enn að vona að Íslandi gangu með í ESB. Og þar með eru þeir gengnir í gildrunna..

Eða að bændur sameinist almennilega og í alvörunni. Það hefur nefnilega aldrei gerst í Íslandssögunni. Það hefur bara verið í gangi "þykjastsameining" og það er ekki það sama....það er eins og að hafa mynd af osti ofan á brauð.

Óskar Arnórsson, 7.8.2010 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband