Zap - Hausmynd

Zap

Trúarjátningin

 

Ég birti hér óbreyttar vangaveltur föður míns, Dr. Ólafs Halldórssonar handritafræðings, um trúarjátninguna, að hans beiðni. Í mörg ár hefur orðalag íslenskrar þýðingar trúarjátningarinnar farið í taugarnar á gamla manninum, þannig að nýlega skoraði ég á hann að skrifa nú grein um málið og ég skyldi birta hana á blogginu mínu til að sjá hvort að hægt væri að vekja umræðu um þetta.

Gaman væri að fá skoðanir leikra sem lærðra á þessu.

ATH: ég á í einhverjum vandræðum með að fá blog ritilinn til þess að samþykkja hjá mér ný línubil þ.a. þau vantar á stöku stað í textann hér fyrir neðan. Ég laga það síðar ef ég finn út úr þessu.

-----------------

Ólafur Halldórsson

 

Trúarjátningin.

 

Ekki veit ég betur en að í hverri guðsþjónustu, þar sem prestar íslensku kirkjunnar þjóna, sé það fastur liður að presturinn segi við söfnuðinn: “Vér skulum játa vora heilögu trú” og fari síðan með trúarjátninguna, og að minnsta kosti einhver hluti safnaðarins taki undir með honum. En mig grunar að hvorki presturinn né þeir sem þylja með honum íhugi hvað það er sem þeir játa að sé þeirra heilaga trú. Mér virðist því tími til kominn að gera grein fyrir hvað í þessari trúarjátningu styðst við Biblíuna og hvað er komið úr öðrum ritum. Til að átta sig á því er einfaldast að taka hana fyrir grein fyrir grein.

 

1. Ég trúi á guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

 

Þetta styðst við upphafsorð Biblíunnar, fyrstu setninguna í fyrstu bók Móse.

2. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, drottinn vorn sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn,...

 

Og nú versnar í því:

 

... steig niður til Heljar.

 

Niður hvert? Þetta er ættað úr riti sem hefur verið nefnt Nikódemusar guðspjall. Latneskan texta þess, sem er varla yngri en frá fjórðu öld eftir Krists burð, gaf þýskur guðfræðingur,Constantinus Tischendorf (1815–1874) út í bók sinni, Evangelia apocrypha, Leipzig 1853, bls. 368-410. Þessi texti er í mjög nákvæmri íslenskri þýðingu, nefndur Niðurstigningar saga, einn elsti texti sem er til á íslensku, en því miður ekki alveg heill í elsta handritinu (AM 645 4to). Þessa gömlu þýðingu, sem er á einstaklega fallegu máli, gaf Norðmaðurinn C. R. Unger (1817–1897) út eftir þremur handritum í safnriti sínu, Heilagra manna sögur II, Christiania 1877, bls. 1-20, en hér á landi hefur hún ekki verið gefin út. Þar er að sjálfsögðu nefnt helvíti, en ekki Hel, sú sem í gamalli norrænni heiðni réð fyrir dánarheimum.

 

3. Reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum.

 

Það sem hér á undan segir af pínu, dauða og upprisu Krists styðst við frásagnir guðspjalla Nýja testamentisins, sjá Lúkasar guðspjall, 1,26–32 og 22.–24. 

4. Steig upp til himna, situr við hægri hönd guðs föður almáttugs og mun þaðan koma og dæma lifendur og dauða.

 

Þetta er komið alla leið frá þeim gömlu og góðu katólsku dögum þegar jörðin var ennþá flöt og himininn yfir henni eins og hvelfing úr föstu efni, þar sem himnaríki var og guð sat á sínum konungsstóli með einkason sinn, Jesúm Krist, sér til hægri handar.

 

5. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.

 

Ætli ekki nokkuð margir kirkjugestir þurfi að hugsa sig um áður en þeir taka sér þetta í munn, að minnsta kosti þeir sem ekki eru katólskir?

 


Hagsmunayfirlýsing - Ómaklega vegið að Marinó G. Njálssyni

DV vegur ómaklega að Marinó G. Njálssyni á vefsíðum sínum í dag og birtir upplýsingar um hversu há lán hvíla á fasteignum í eigu hans og eiginkonu hans. Hafi þeir skömm fyrir.

Í ljósi þess að ég hef á mínum síðum síðustu tvö árin annað slagið talað fyrir afnámi verðtryggingar er rétt að taka hér fram að þó skrif mín beinist að því að ég vilji að börnum mínum bjóðist betra lánaumhverfi en það sem ég hef búið við frá því ég keypti mína fyrstu íbúð, þá skal því ekki neitað að vegna minna eigin hagsmuna styð ég eindregið kröfu HH og fleiri um almenna leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra lána.

Að því sögðu er rétt að taka fram að ég hef ekki hugmynd um hversu mikið ég skulda, en síðast þegar ég reyndi að taka það saman nam sú upphæð ca. 60 milljónum. Þá eru án efa vantaldar frekari verðbætur, dráttarvextir og lögfræðikostnaður sem við hefur bæst síðan. Þá er líka rétt að taka fram að ég hef fengiðu úrskurð um greiðsluaðlögun v. veðlána og nauðasamning v. samningsskulda og enn er ég í djúpum skít og vart við bjargandi. Ég tel samt að ég gæti haft eitthvað til málanna að leggja í þjóðfélagsumræðunni og að mínar skoðanir á verðtryggingunni og þeim leiðréttingum sem þörf er á í þessu þjóðfélagi (skrifaði óvart fyrst inn þjóffélagi hér), eigi fullan rétt á sér. Ein ástæða þess hversu lítið og sjaldan ég skrifa um þessi mál eru þau að mig hefur ekki langað til að gefa mikinn höggstað á mér í ljósi fjárhagsstöðu minnar, en nú eru þetta sem sagt bara opinberar upplýsingar, skyldi einhver hafa á þeim áhuga.

Nú mættu þeir blaðamenn sem skrifa um lánamál einstaklinga eins og Marinós birta sambærilegar upplýsingar um sína stöðu, að maður tali nú ekki um þá ritstjóra og fjölmiðlaeigendur sem fela sínum mönnum slík skrif.

 


Sigtúnshópurinn - Deja vu. Enn mun verða mismunað!

Ég veit ekki hversu margir muna eftir Sigtúnshópnum svokallaða. Þetta var öflugur baráttuhópur á fyrri hluta níunda áratugarins sem barðist fyrir leiðréttingu vegna misgengis launa og lána á ákveðnu tímabili.

Þessi hópur náði í gegn sínu baráttumáli og var ákveðið af stjórnvöldum að þetta misgengi skyldi leiðrétta. Útfærslan á þessari leiðréttingu var hins vegar með mestu ólíkindum að mínu mati þá sem nú og nú sé ég að það sama er í uppsiglingu í þeirri umræðu sem er í gangi um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra lána. Ég ætla að spá því núna að ákveðið verði að ákveðnum hópi lánþega með verðtryggð lán verði veitt leiðrétting á höfuðstól lána sinna, en öllum öðrum verður, eins og á tímum Sigtúnshópsins, mismunað og þeir munu enga leiðréttingu fá. Þessi aðgerð mun ekki miða við þörf einstaklinga, heldur verður búið til 'demographic' úrtak sem fær þessa lækkun, aðrir munu ekki fá neitt. Væntanlega, enn eins og á tímum Sigtúnshópsins, verður miðað við þá sem keyptu sína fyrstu íbúð á einhverju tilteknu tímabili. Sigtúnshópurinn miðaðist við þá sem keyptu sína fyrstu íbúð 1983 og síðar. Ég keypti mína fyrstu íbúð í desember 1981 og fannst þá sem ég hefði ekki farið varhluta af þessu misgengi sem kallað var þegar ég horfði á verðtryggð lán mín hækka um 17% á sama tímabili og (þá) verðtryggð laun mín hækkuðu um 3%!

En nú á sem sagt að endurtaka Sigtúnsfléttuna og það athyglisverða er að nú situr í embætti fjármálaráðherra einstaklingur sem beitti sér all nokkuð fyrir Sigtúnshópinn á sínum tíma. Hann keypti að ég held sína fyrstu íbúð 1983.

Munu Hagsmunasamtök heimilanna samþykkja þann gjörning sem nú er í uppsiglingu?

Ég tek það fram að vísbendingar mína um að það sé nákvæmlega þetta sem er að fara að gerast eru tilvitnanir í forsætisráðherra og fjármálaráðherra í fjölmiðlum í dag og í kvöld. Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér í spá minni!

Ef þetta verður að raunveruleika með þessum hætti, eina f?????g ferðina enn þá tel ég að hér á landi sé til ákveðin kynslóð fjölskyldna á miðjum aldri eða að nálgast miðjan aldur sem aldrei mun eiga sér viðreisnar von. En af því að sú kynslóð hefur ekki keypt sína fyrstu íbúð nýlega, heldur hefur barist vonlausri baráttu við að reyna að eignast eitthvað í fasteignum sínum í 3 áratugi eða svo og af því að þessi kynslóð er væntanlega ekki lengur með lítil börn á sínu framfæri, þá verður talið í lagi að þetta viðgangist og fari fram svona. Það er spurning hvort það er yfirleitt einhver tilgangur fyrir það fólk að halda áfram baráttu sinni hér á landi? Í gegnum tíðina er þetta kynslóðin sem á að vera farin að hafa það aðeins náðugra að því leyti að skuldir hennar eiga að vera orðnar lægri, eignin all nokkur og afkoma þokkaleg. Sem betur fer er þetta þannig hjá mörgum, en það gildir hins vegar því miður ekki um alla.

En að allt öðru. Var ekki yndislegt að heyra Bjarna Ben eigna sjálfum sér það að IceSave lögin náðu ekki fram að ganga um áramótin síðustu. Það var helst að heyra að hann hefði sagt Cameron af hverju hann hefði stöðvað það mál. Eða var hægt að skilja orð hans í 10 fréttum Rúv öðruvísi? Og áður en menn fara að telja hann hetju og helsta leiðtogaefni og vonarneista landsins, þá væri fróðlegt að vita nákvæmlega hvort hann kinkaði kolli eða ekki þegar Cameron lýsti sinni skoðun að það yrði að ná samningi í þessu máli.


Svar Marinós G. Njálssonar við grein Sighvats Björgvinssonar í Fréttablaðinu um verðtrygginguna

Má til með að benda á frábæra svargrein Marinós G. Njálssonar við grein Sighvats Björgvinssonar í Fréttablaðinu í síðustu viku.

 http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1093445/

 Það þarf að mínu mati ekki að hafa fleiri orð um þetta.


Ræða Stephen Fry um Kaþólsku kirkjuna

Ég mæli með því að 20 mínútum sé eytt í að hlusta hér á rök Stephen Fry fyrir því að Kaþólska kirkjan hafi ekki verið og sé ekki afl til góðs í heiminum. Hann tekur fram strax í upphafi að með orðum sínum sé hann á engan hátt að ráðast á þá sem aðhyllast kaþólska trú eða hvaða aðra trú sem er, hann er eingöngu að tala um stofnun Kaþólsku kirkjunnar sem slíka. Þar með tel ég að rökstyðja megi að hér sé ekki ráðist að trúarbrögðum, þó sumir kunni að túlka þetta sem svo.

Stephen Fry er frábær ræðumaður, en hann talar nokkuð hraða Ensku. Ég held að það sé samt ekki erfitt að skilja hann, hafi maður sæmilegt vald á Enskunni.

Ég hef aldrei prófað að pósta svona myndbandi, þ.a. ég vona að þetta takist hjá mér í fyrstu tilraun.

Þessi ræða er framsaga Stephens í einhvers konar kappræðum eða rökræðum þar sem meðal þáttakenda var m.a. Anne Widecombe (minnir mig að nafnið hennar sé). Óborganlegur svipurinn á henni undir þessari kjarnyrtu ræðu Stephens á köflum.


The Intelligence² Debate - Stephen Fry (Unedited)


110 króna sekt á seldan mjólkurlítra utan kvóta!

Ég rýf nú langa bloggþögn mína vegna þess að ég fæ ekki orða bundist.

Ég sakna þess sárlega að sjá ekki bloggheima loga út af lagasetningu sem liggur fyrir á komandi haustþingi og fjallað var um í fréttum kvöldsins. Það á sem sagt að koma í veg fyrir að hér geti risið upp nýjar afurðastöðvar í mjólkuriðnaði með því að girða algerlega fyrir þann möguleika að slíkar stöðvar geti samið við bændur um kaup á afurðum þeirra. Til stendur að leggja 110 króna sekt á hvern mjólkurlítra sem þannig er seldur framhjá skömmtunarkvóta sem Mjólkursamsalan virðist ein mega kaupa.

Er þetta það nýja Ísland sem við ætluðum að byggja á rústum þess gamla? Það lítur nefnilega ansi líkt út og eld-gamla hafta-Ísland sem við munum eftir og ekki var beint það sem við vildum þó ekki tæki betra við um tíma. En ætluðum við ekki að stefna fram á veginn?

Ætla bændur að láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust? Samtök þeirra virðast ætla að gera það og reyndar heyrist mér að þeir styðji þessa lagasetningu? Hverra hagsmuna gæta þeir?

Nú er ég enginn sérfræðingur um búnaðarlög í fortíð eða nútíð, en þetta tiltekna atriði slær mig á þann veg að þetta getur ekki verið eðlileg þróun og það getur ekki verið að þessi niðurstaða hafi fengist með eðlilegum, frjálsum og lýðræðislegum hætti.

Munu þingmenn okkar afgreiða þetta í kyrrþey í skjóli komandi rifrildis um Icesave, ESB og orkumál, sem vissulega eru stór mál og mikilvæg, en þó ekki einu málin sem skipta okkur máli.


Um lán í öðrum myntum en tekjumynt

Byrjum að því að segja hér að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er góð. Vandað og magnað verk. Án nokkurs vafa ekki hafið yfir gagnrýni, en ekki er annað að sjá en að öllum steinum hafi verið velt í leit að sannleikanum um það hvað gerðist í aðdraganda bankahrunsins.

Ég ætla mér ekki að blanda mér í hóp þeirra sem blogga munu næstu daga og vikur um einstök atriði skýrslunnar. Hvort ég blanda mér ekkert í málin veit ég ekki svo sem, ég er óútreiknanlegur hvað það varðar, en það verður ekki neitt merkilegt alla vega, ég lofa því.

 En það sem mig langar til að blogga um í kvöld snýr að því máli sem ég hef bloggað hvað mest um, en það er lánamarkaðurinn hér á landi, sér í lagi m.t.t. verðtryggingarfyrirbærisins.

Eitt af því sem mönnum hefur verið tíðrætt um og minnst er á í skýrslunni góðu er hversu áhættusamt það er fyrir lántaka að taka stór lán í öðrum myntum en þeirri sem hann hefur tekjur sínar í. Fundið er að markaðsetningu sk. gengis- eða gjaldeyrislána á árunum fyrir hrun á meðan krónan okkar var sterk. Ég held að ekki sé til sá maður á landinu sem ekki er sammála því í dag að þessi lán voru og eru stórskaðleg heimilum og fyrirtækjum og þar með þjóðfélaginu í heild sinni, einmitt vegna þess hvernig gengið hefur þróast á meðan tekjur hafa staðið í stað eða lækkað hjá stórum hópi fólks.

En, ... dokum aðeins við. Er ekki öllum ljóst að við höfum í tæp 30 ár búið við húsnæðislánamarkað og almennan lánamarkað sem einmitt hefur lagt áherslu á slík lán þar sem lánsmyntin er önnur en tekjumynt lántaka? Eftir að vísitölutenging launa var afnumin með lögum í upphafi níunda áratugarins höfum við búið við tvær myntir í þessu landi. Hina verðtryggðu íslensku krónu sem við höfum fengið lánin í og hina óverðtryggðu íslensku krónu sem við höfum fengið launin okkar í. Og ég er ekki að kalla eftir vísitölutengingu launa á nýjan leik, heldur afnámi verðtryggingar á lánamarkaði, svo það sé á hreinu.

Ég fagna því að minnst er á þörfina á að draga úr vægi verðtryggingar og afnám hennar til lengri tíma litið í nýlegri skýrslu Seðlabanka Íslands sem gerð var að beiðni stjórnvalda. En skelfilega sér maður fram á að þetta taki langan tíma.


Cottage Pie

Má til að skrásetja þessa uppskrift, svo ég gleymi henni ekki. Cottage Pie, eða Shepherd's Pie er enskur (og skoskur) réttur sem ég hef ekki bragðað öðruvísi en frekar bragðdaufan og óspennandi. Þetta Cottage Pie er hins vegar ekki sem verst.

800-1000g Nautahakk (eða blandað hakk, sem er heldur ódýrara)
600-800g Kartöflur
Blaðlaukur
Laukur
Sveppir
Smjör eða smjörlíki
Ítalskt Tómat Puree m. hvítlauk, Basil og Oregano
Krydd: Hvítlaukssalt, Sítrónupipar, Tandoori, Hot Chili duft, Worcestershire Sauce

Kartöflur soðnar.
Kjöt: Kjöt kryddað og brúnað í pínulítilli olíu. Worcestershire sósu skvett yfir. Tómatkraftur settur útí og ca. 2dl vatn. Látið malla á vægum hita meðan kartöflumúsin er útbúin.
Laukur og sveppir steikt á sér pönnu í olíu og sett út í kjöt.
Kartöflumús: ca. 25g smjör eða smjörlíki brætt í ca. 1-2dl mjólk. Kryddað með salti, Paprikudufti og jafnvel smá Dilli. Suða látin koma upp. Kartöflur maukaðar út í. Kjöt sett í ofnfast fat, kartöflumús látin þekja kjötið alveg. Dilli stráð yfir ásamt niðurskornum blaðlauk. Hitað í ofni við 180-200C í 5-10 mínútur.

Ágætt að láta matinn standa í 2-3 mínútur, jafnvel upp í 5 mínútur til að hann kólni örlítið. Berist fram með hrásalati eftir smekk. Ódýrt og gott.


Vaknað úr dvala, ... kannski bráðum.

Ég hitti gamlan vinnufélaga á Skýrr ráðstefnunni á föstudag. Hann var að finna að því við mig að ég skuli hafa lagst í algeran bloggdvala síðan í apríl. Ég er honum að sjálfsögðu þakklátur fyrir að hafa hugsað til mín og tékkað á mér annað slagið.

Annar bloggari fann nýverið að því í rökræðum um IceS(l)ave að ég gæti ekki talist marktækur í rökræðum þar sem ég bloggaði ekki á minni síðu. Mér þótti það ekki næg ástæða til að útiloka mig frá þeim rökræðum, en ég var svo sem líka bara að stríða honum því ég vissi nokkuð nákvæmlega hver öll hans viðbrögð yrðu. Hann olli mér engum vonbrigðum.

Ekki hefur það vantað að oft hefur mig langað til að hella úr skálum mínum á blogginu. Um nóg hefði svo sem verið hægt að tjá sig. Fyrir tæpu ári síðan byrjaði ég að tala fyrir afnámi verðtryggingar í framhaldi hrunsins. Núna 11 mánuðum síðar hefur nákvæmlega ekkert gerst í þeim efnum. Ekki það að mér hafi dottið í hug að ég gæti haft áhrif í þeim efnum, en ég gat bara ekki þagað lengur. Nú er ég búinn að þegja í nokkra mánuði og enn gerist ekkert annað en að nú á kannski að tekjutengja endurgreiðslur lána og enn og aftur að bæta bara því sem upp á vantar aftan á höfuðstólinn svo að lánin verði örugglega aldrei greidd upp og greiðslybyrðin lækki í raun aldrei, alla ævi skuldarans, nema ef vera skyldi að hann lækkaði í launum.

Ég hvet alla sem lesa blogg eða fylgjast með þjóðfélagsumræðum að fylgjast með eftirfarandi:
http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/948072/
http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/948109/
Marinó er einn af málefnalegustu bloggurunum um fjármál heimilanna.

Ég hvet líka alla til að fylgjast vel með umræðum um tengslagagnagrunn Jóns Jósefs Bjarnasonar, gamals vinnufélaga og vinar. Lára Hanna fylgir því máli eftir með sínum sköruglega hætti:
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/947270/
Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr kerfi hans þegar kvótaviðskipti og stjórnir lífeyrissjóða koma inn í myndina. Ekki má líðast að steinar verði lagðir í götu Jossa í gagnaöflun hans. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi fyrir nokkrum mánuðum að fá að sjá þetta kerfi hjá Jossa og ég verð að segja: Hvílík snilld! Ég held að allir geti verið sammála um það. Eini gallinn var að þegar ég fletti upp sjálfum mér kom átakanlega vel í ljós fjármálasnilli mín sem birtist í því að eina fyrirtækið sem ég hef verið viðriðinn var rauðlitað (gjaldþrota Blush ). Ah well.

Jæja, nú leggst ég í dvala aftur, en ég hugleiði að opna fyrir málræpu í tilefni ársafmælis hrunsins bráðum til þess að hamra aftur og meira á boðskapnum um afnám verðtryggingar.


Pólitíkin er skrýtin tík...

Nú hafa fjölmiðlar logað síðustu daga vegna upplýsinga sem lekið hafa út um óeðlilega háa styrki einstakra fyrirtækja til einstakra flokka og jafnvel einstakra frambjóðenda einstakra flokka.

Í ársbyrjun 2007 voru sett lög sem setja slíkum gerðum þröngar skorður, en að vanda hafa menn dottið niður á lausnir í fjármögnunarvanda stjórnmálaflokka og frambjóðenda sem gera jafnvel enn erfiðara en áður að rekja hvaða peningar til þeirra koma. Hvernig? Jú, með því að setja upp 900 númer sem kostar rúmar 1000 krónur að hringja í! Nú geta fyrirtæki og einstaklingar sem vilja styðja sinn flokk dyggilega einfaldlega hringt í tíma og ótíma í 900 númer síns flokks, t.d. 1000 sinnum og þar með er komin milljón og enginn getur rakið þetta nema með aðgangi að símafærslum.

Er þetta ekki brillíant kerfi? Spurning hvort ekki hefði verið betra að hafa engin hámörk á styrkjum, en gera frekar kröfu um opið bókhald?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband